Skoðun

Er brúnn húðlitur ögrandi?

Fordómar - Valur Gunnarsson, ritstjóri Reykjavik Grapevine Í grein sem Guðmundur Andri Thorsson skrifaði í Fréttablaðið þann 21. júní segir hann rasisma vera einhverja bjálfalegustu skoðun sem hægt er að hafa. Um það held ég að flestir, en því miður ekki allir, geti verið sammála. Guðmundur hefur hinsvegar einnig áhyggjur af því að menn séu of gjarnir við að reyna að sýna fram á eigin frómleika með því að benda á fordóma annara. Ég verð að segja að ég hef persónulega lítinn áhuga á opinberri umræðu um frómleika minn, meintan eða ekki. Það sem skiptir meira máli er að aðbúnaður innflytjenda á Íslandi er ekki alltaf eins og best verður á kosið. Nýlega voru sett lög sem takmörkuðu mannréttindi innflytjenda talsvert. Meðal annars má framkvæma húsleit hjá innflytjanda vegna mun minni gruns en þarf að vera þegar íslenskur ríkisborgari á í hlut. Sumir mótmæltu þessum lögum, en almennt féllu þau í skuggann af málum sem Íslendingar virðast telja að komi sér við á beinni hátt. Við skrifuðum grein um málið í fyrsta tölublað Grapevine í sumar, en hún vakti litla eftirtekt. Við vonuðumst að sjálfsögðu til að forsíða annars tölublaðs myndi vekja athygli, eins og góðar forsíður eiga að gera. Því ákváðum við að fara óhefðbundna leið en áttum ekki von á neinu upphlaupi. En eins og allir sem skrifa komast að fyrr eða síðar segir mynd meira en þúsund orð. Þjóðdansafélagið minntumst við hins vegar hvergi á í blaðinu, heldur sagði ég einungis frá því í leiðara hversu erfitt okkur hafði reynst að fá búning. Það var ekki fyrr en aðrir fjölmiðlar spurðust fyrir sem við ákváðum að vísa spurningum áfram á Þjóðdansafélagið, enda eðlilegt að það sitji fyrir svörum. Þegar þeir svo lýstu yfir áhyggjum af því að framtíðin væri gul virtist afstaða þeirra nokkuð skýr. Guðmund grunar að okkur hafi fundist mynd af konu með brúna húð í fjallkonubúning "geysilega ögrandi og sláandi". Ef nánar er að gáð er konan á myndinni þó hvorki að bera á sér brjóstin né gefa þjóðinni fokkmerki. Ég á því erfitt með að sjá hvað við þessa mynd á að vera svona ögrandi. Er það húðlitur hennar einn sem gerir hana ögrandi? Löngu er tímabært að fólk skuli loks vera farið að tala í alvöru um stöðu innflytjenda hér á landi. Við erum jú að upplifa í fyrsta sinn síðan á landnámsöld að fólk flytjist hingað í einhverju magni. Þá erum við talsvert á eftir öðrum Vestur-Evrópuþjóðum hvað varðar innflytjendur og umræðu um þá og í sumum tilfellum í viðhorfum til þeirra einnig. Reyndar er áberandi að enginn hefur spurt innflytjendur sjálfa neinna spurninga í umræðunni undanfarna daga. Hvort aðferð okkar var besta hugsanlega leiðin til að taka þátt í þeirri umræðu má deila um, en þegar biskup er farinn að messa yfir alþingismönnum um málefni innflytjenda eru hlutirnir að komast í betri farveg.



Skoðun

Sjá meira


×