Sport

Frei segist saklaus

Alexander Frei, sóknarmaður svissneska landsliðsins, neitar að hafa hrækt á Steven Gerrard, miðjumann enska landsliðsins, í leik liðanna á fimmtudag. Þýska ríkissjónvarpið náði myndum af atviki þar sem Frei á í útistöðum við Gerrard, og þegar sá enski snýr sér undan virðist Frei skyrpa aftan á hálsinn á honum. Viðbrögð Gerrard eru á þann veg að hann snýr sér við furðu lostinn og þurkar eitthvað af hálsinum á sér. En Frei segist blásaklaus.„Ég hrækti ekki. Ég myndi aldrei gera það. Ég sýni tilfinningar mínar inni á vellinum en ég geri ekki svona," segir Frei. „Kannski blótaði ég honum eitthvað en það er fullkomlega eðlilegt í öllum fótboltaleikjum," bætti Frei við. Þrátt fyrir að yfirlýsing frá Gerrard og enska knattspyrnusambandinu hafi ekki borist hefur Evrópska knattspyrnusambandið þegar ákært Frei og verður úrskurður kveðinn upp í hádeginu í dag. Eins og flestum ætti að vera kunnugt var Francesco Totti, sóknarmaður Ítala, dæmdur í þriggja leikja bann fyrir samskonar atvik í vikunni, og ef Frei reynist sekur má búast við sömu refsingu fyrir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×