Sport

Eriksson finnst Rooney sá besti

Sven-Göran Eriksson, þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu, segir að Wayne Rooney sé besti og hæfileikaríkasti ungi leikmaður sem hann hafi nokkurn tíma þjálfað. Það hefur sennilega ekki vafist fyrir mörgum að Rooney er helsta stjarna EM það sem af er, og segir Eriksson það ekki koma sér á óvart. „Það að hann skuli vera að spila eins og hann gerir er ótrúlegt, 18 ára gamall skorandi mörk á lokakeppni EM. Það er ekkert skrítið að hann skuli vekja athygli," segir Eriksson. „Ég hef haft marga unglinga undir mínum verndarvæng í gegnum tíðina; Rui Costa, Roberto Baggio, Paulo Sousa og fleiri, en mér finnst Rooney slá þeim öllum við. Hann er mjög sérstakur. Hann er ótrúlegt efni," segir Eriksson og sparar ekki hrósyrðin. „Ég held að hann eigi eftir að verða mun betri. Hann er ekki nema 18 ára og getur bætt sig á mörgum sviðum." Eriksson segir auk þess að Rooney sé mun fyrirferðaminni en margir vilja halda og sé algjörlega með fæturna á jörðinni. „Hann gerir bara það sem honum er sagt að gera. Það er eins og hann sé að leika sér í fótbolta í skólanum og segir öðrum að gefa á sig."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×