Innlent

Baugur kaupir Karen Millen

Baugur keypti í dag meirihluta í bresku verslunarkeðjunni Karen Millen á tæplega sextán milljarða króna. Kaupin hafa vakið mikla athygli á Bretlandi og er greint frá þeim á forsíðu viðskiptavefs BBC í dag. Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, segist ánægður með kaupin þar sem þau styrki enn frekar stöðu félagsins. Stofnendur Karen Millen samþykktu að selja reksturinn til Oasis-Group, sem er í meirihlutaeigu Baugs Group, í viðskiptum sem metin eru á 15,8 milljarða króna. Eignarhlutur stofnenda Karen Millen, þeirra Kevin Stanford og Karen Millen, var 60%, en ýmsir aðrir hluthafar ráða yfir 40% hlutafjársins. Baugur greiddi fyrir kaupin með peningum og hlutabréfum og eignast hluthafar Karen Millen 25% hlut í hinu sameinaða fyrirtæki. Kaupþing Bank Limited í London og Bank of Scotland komu að fjármögnun kaupanna. Með kaupunum verður til leiðandi fyrirtæki í verslun með kventískufatnað, sem á og rekur fjögur mismunandi vörumerki, með heildarsölu sem nemur um 46 milljörðum króna og yfir 550 verslanir. Karen Millen rekur yfir 100 verslanir, sem flestar eru í Bretlandi, en einnig á Írlandi og víða í Evrópu, Rússlandi og í Bandaríkjunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×