Skoðun

Til hamingju Hagvagnar og Hópbílar

Umhverfið- Guðjón I. Eggertsson Nýlega varð sá merki viðburður að fyrirtækin Hagvagnar og Hópbílar fengu afhent vottorð til staðfestingar á að fyrirtækin hafa uppfyllt skilyrði alþjóðlega umhverfisstjórnunarstaðalsins ISO 14001. Samgönguráðherra afhenti fyrirtækjunum staðfestinguna við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum þeirra 7. október s.l. Hafnarfjarðarbær fagnar þessu framtaki fyrirtækjanna og óskar þeim hjartanlega til hamingju með að langþráðu marki er náð. Vottun fyrirækjanna tveggja er sérlega ánægjuleg fyrir Hafnfirðinga í ljósi þess að nú eru þrjú af alls fimm fyrirtækjum á Íslandi sem hafa hlotið vottun samkvæmt ISO 14001 staðsett í Hafnarfirði. Þriðja fyrirtækið er álver Alcan í Straumsvík. Að baki þessum merka áfanga er áhugi stjórnenda og starfsmann Hagvagna og Hópbíla til að taka umhverfismál fyrirtækjanna föstum tökum og skara fram úr á því sviði. Vottunin hefur átt nokkurn aðdraganda en um þrjú ár eru síðan stjórnir fyrirtækjanna settu þau markmið að fyrirtækin skildu sækjast eftir alþjóðlegri umhverfisvottun og er ekki hægt annað en að hrósa stjórnendum og starfsmönnum fyrir dugnað og elju á vegferðinni. Á leiðinni að markinu var farið vandlega yfir umhverfismál í öllum rekstri fyrirtækjanna. Má nefna að farið var yfir alla efnanotkun t.d. hvað varðar þrif og viðhald bifreiða. Einnig fengu starfsmenn fræðslu um umhverfismál og sóttu námskeið í vistvænum akstri til að læra hvernig draga má úr eldsneytiseyðslu og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Að sögn forsvarsmanna hefur fræðsla og skýr stefna í umhverfismálum breytt hugsun og háttum starfsmanna þannig að nú eru hagsmunir umhverfisins í forgangi þegar það á við. Hagvagnar og Hópbílar eru fyrstu fyrirtækin í ferðaþjónustu og samgöngum til að fá þessa vottun á Íslandi en fyrirtækin fengu fyrirtækjaverðlaun Umhverfisráðuneytisins, Kuðunginn, árið 2003. Við innleiðingu staðalsins nutu fyrirtækin aðstoðar starfsmanna IMG Deloitte og Línuhönnunar. Hafnarfjarðarbær fagnar því sérstaklega að meirihluti fyrirtækja á Íslandi sem eru með umhverfisvottun samkvæmt ISO 14001 skuli staðsett í Hafnarfirði. Fyrirtækin eru í fararbroddi í umhverfisstarfi fyrirtækja og öðrum góð fyrirmynd í þeim efnum. Starf þeirra að umhverfismálum er líka innlegg í stefnu bæjarins í átt að sjálfbæru samfélagi í gegnum Staðardagskrá 21, velferðaráætlun sveitarfélagsins þar sem tekið er á félagslegum, efnahagslegum og umhverfisþáttum í því skyni að bæta samfélagið. Sporganga fyrirtækjanna á við Alcan, Hagvagna og Hópbíla, í þessum efnum er mjög mikilvæg og verður vonandi hvatning fyrir önnur fyrirtæki að skara fram úr í umhverfismálum og vinna markvisst að því að draga úr áhrifum sínum á umhverfið, hver eðlis sem þau eru. ISO 14001 staðallinn er alþjóðlegur staðall í umhverfisstjórnun sem er gefin út af Alþjóða staðalráðinu (International Organization for Standardization - ISO). Með vottun samkvæmt staðlinum er staðfest að viðkomandi fyrirtæki hefur sett upp stjórnkerfi sem tryggir og ýtir undir ákveðna hugsun í umhverfismálum í allri starfsemi fyrirtækisins. Með stöðugum umbótum á stjórnkerfinu, hvatningu og virku starfsfólki geta fyrirtæki náð verulegum árangri í því að draga úr áhrifum af starfsemi sinni á umhverfið. Um síðustu áramót höfðu rúmlega 61.000 fyrirtæki um allan heim fengið þessa vottun. Frekari upplýsingar má finna á www.iso.org Höfundur er verkefnisstjóri Staðardagskrár 21 í Hafnarfirði



Skoðun

Sjá meira


×