Sport

Heimsmeistari á heimavelli

Frakkinn Sebastian Loeb er nýr heimsmeistari í rallakstri eftir keppnina sem fram fór í Frakklandi um helgina þrátt fyrir að hafa lent í öðru sæti og enn séu tvær keppnir eftir enn. Hefur Loeb 30 stiga forskot á fyrrverandi meistara, Norðmanninn Petter Solberg en tíu stig fást fyrir sigur í hverri af þeim 16 keppnum sem fram fara á ári hverju. Jafnframt því að næla sér í sjálfan heimsmeistaratitil ökumanna tryggði Loeb liði Citröen titilinn í keppni bílasmiða og er þetta annað árið í röð sem franski bílaframleiðandinn nær því. Það sem gerði sigurinn sætari fyrir báða aðila var að keppnin um helgina fór fram í Frakklandi, á eynni Korsíku, en sú keppni þykir ein af þeim betri sem fram fara á heimsmeistaramótinu hvert ár. Að sama skapi var helgin slæm fyrir fyrrverandi meistara, Petter Solberg, sem ekur fyrir Subaru. Nauðsynlegt var fyrir hann að sigra til að eiga áfram möguleika á að halda titli sínum en hann ók illa til að byrja með og náði aldrei að komast framar en í fimmta sæti þegar upp var staðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×