Innlent

Gefa lyf fyrir tugi milljóna

Actavis hefur ákveðið að gefa lyf til hamfarasvæða í Asíu í kjölfar jarðskjálfta og flóða í álfunni. Um er að ræða talsvert stóra sendingu af sýkla- og verkjalyfjum sem eru framleidd í verksmiðjum Actavis í Tyrklandi, Búlgaríu og á Möltu. Verðmæti lyfjanna er á þriðja tug milljóna króna. Milljónir manna, þar af um ein milljón barna, þurfa á aðstoð að halda á þeim svæðum sem urðu illa úti. Af þeim sökum koma hjálpar- og sjúkragögn, svo sem lyf, að góðum notum. Flogið verður með sendinguna, sem fer frá fyrirtækjum Actavis í Tyrklandi, á Möltu og í Búlgaríu, til svæðanna í dag og næstu daga. Ríkisstjórn Sri Lanka mun stýra dreifingu lyfjanna frá Búlgaríu og Tyrklandi og Rauði Krossinn á Möltu mun sjá um dreifingu lyfjanna frá Actavis á Möltu. „Við erum harmi slegin yfir þeim skelfilegu atburðum, sem þarna hafa átt sér stað og við hjá Actavis fórum að undirbúa þessa gjöf um leið og fréttir af atburðinum bárust. Við viljum láta gott af okkur leiða til að lina þjáningarnar á svæðunum sem orðið hafa fyrir áföllum," sagði Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Actavis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×