Innlent

Íslendingar leggi sitt af mörkum

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs telur einboðið að Íslendingar leggi með myndarlegum hætti sitt af mörkum til hjálpastarfs og síðan uppbyggingar á hamfarasvæðunum í Suðaustur-Asíu. Flokkurinn segir Íslendinga þekkja af eigin raun þær fórnir sem sambúð við óblíð náttúruöfl geti kostað. Í fréttatilkynningu sem Vinstri grænir sendu frá sér í morgun segir að Íslendingar hafi sjálfir notið aðstoðar erlendis frá og samhugur í verki orðið mikil hvatning við slíkar aðstæður. Þingflokkurinn hvetur til þverpólitískrar samstöðu um að nú þegar verði ákveðin aukafjárveiting upp á að minnsta kosti 300 milljónir króna, sem renni til hjálparstarfs og uppbyggingar á hamfarasvæðunum. Þingflokkurinn hefur falið fulltrúum sínum í fjárlaganefnd og utanríkismálanefnd að taka málið upp á þeim vettvangi og telur eðlilegt að Alþingi sjálft fjalli um og afgreiði mál af þessari stærðargráðu. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vottar öllum þeim, sem eiga um sárt eiga að binda, djúpa samúð og tekur undir samúðarkveðjur sem íslensk stjórnvöld hafa sent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×