Sport

Þróttarar gera engar breytingar

Gamla brýnið Ásgeir Elíasson mun þjálfa knattspyrnulið Þróttar næstu tvö árin en frá því var gengið um helgina. Ásgeir, sem hefur þjálfað Þróttara síðastliðin fimm ár, íhugaði það að hætta með liðið en formaður Þróttar, Kristinn Einarsson, fékk hann til þess að halda áfram með liðið og þeir skrifuðu undir nýjan samning um helgina. "Ásgeir er að mínu mati einhver besti þjálfari landsins og þeir eru ekki margir hér á landi sem hafa eins mikinn skilning á leiknum og Ásgeir," sagði Kristinn við Fréttablaðið í gær. "Ég er verulega ánægður með að halda Ásgeiri áfram og er þess fullviss að hann á eftir að gera fína hluti með liðið." Þróttarar féllu úr Landsbankadeildinni fyrir ári síðan en tryggðu sér aftur rétt til þess að leika í deild þeirra bestu í sumar. Þeir hafa mjög svipaðan mannskap og féll fyrir ári síðan fyrir utan að framherjarnir sem þeir höfðu þá eru ekki lengur til staðar. "Við erum mjög ánægðir með leikmannahóp okkar. Við þurfum klárlega nýjan framherja en annars ætlum við ekki að bæta við okkur nema tveim til þrem mönnum," sagði Kristinn Einarsson í samtali við Fréttablaðið í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×