Viðskipti innlent

Níundi lækkunardagurinn

Hlutabréfamarkaður hélt áfram að lækka í gær níunda daginn í röð. Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,71 prósent í gær. Leita þarf aftur til ársins 2001 eitt til að finna samfellda lækkun í níu daga. Þá lækkaði vísitalan stöðugt dagana 22. október til 1. nóvember sem eru sömu dagsetningar og í níu daga lækkun nú. Lækkunin þá var mun minni eða 2,5 prósent. Lækkunin í gær var minni en dagana í síðustu viku og viðskiptin minni. Atli B. Guðmundsson, sérfræðingur Greiningar Íslandsbanka segir það benda til þess að meiri ró sé yfir markaðnum. Verðmat greiningardeilda bankanna hefur verið talsvert lægra en verð félaga á markaði. Eftir lækkanir nú er verð nokkurra hlutafélaga komið nær verðmati greiningardeilda bankanna. "Verðmat miðar við mat á horfum fyrir núverandi rekstur," segir Atli. Greiningardeildir taka ekki inn í mat sitt væntingar um útrás eða kaup á öðrum fyrirtækjum. Atli segir að úrvalsvísitalan sé nú á svipuðum slóðum og hún var um miðjan ágúst. "Þetta er ekki meiri lækkun en það." Verð sem er nær greiningu á fyrirtækjum og minni velta geti bent til þess að lækkunin sé að stöðvast. "Markaði hættir til að bregðast of hart við í báðar áttir." Hugsanlega sé komið nóg, en hann geti lækkað meira. "Að þeim punkti að öllum finnist þetta komið út í tóma vitleysu eða niður fyrir verðmatsgengi." Hann segir að líklegt sé að enn um sinn muni reyna á verð félaga á markaði. "Vonandi er mesta lækkunin að baki," segir Atli. Síðustu vikuna hafa fjárfestar selt hlutabréf og sérfræðingar segja hækkun markaðar á ný ráðast af því hvort þeir fjármunir leiti aftur inn á markaðinn þegar fjárfestar telja botninum náð.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×