Viðskipti innlent

Vextir endurskoðaðir í september

Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna, segir ákvörðun verða tekna um það á næstunni hvort vöxtum á sjóðslánum verði breytt til samræmis við breytingar í húsbréfakerfinu. "Ég á heldur von á því að það verði í næsta mánuði sem við sjáum hvað tekur við í þessu," segir hann. "Við höfum hingað til miðað við 25 ára húsbréfaflokkinn í viðskiptakerfi Kauphallarinnar. Nú er hann ekki lengur til þannig að ég geri ráð fyrir því að við notum sem viðmiðun íbúðalánabréfin sem eru til þrjátíu ára," segir Þorgeir. Á það hefur verið bent að vextir lífeyrissjóðslána ættu að vera að minnsta kosti 0,2 prósentustigum lægri ef miðað væri við vaxtastigið í nýja húsnæðislánakerfinu en þeir miða ennþá við gamla kerfið sem var skipt út 1. júlí. Miðað við heildarútlán í kerfinu nemur slík lækkun um 180 milljónum á ári. "Það sem við erum að gera núna er að sjá hvernig kerfið þróast. Það er ekki búið að vera í gangi nema í einn mánuð og aðeins eitt útboð farið fram. Ég á von á því að við fáum niðurstöðu í þetta fljótlega þegar við sjáum hvernig kerfið þróast;" segir Þorgeir Eyjólfsson.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×