Sport

Valur og Þróttur í úrvalsdeild

Keppni í 1. deild karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu lauk í gær. Valur og Þróttur fara í deild þeirra bestu en Njarðvík og Stjarnan féllu niður í 2. deild. "Þetta var ekki upp á marga fiska en það dugði til og nú spilum við í Úrvalsdeildinni að ári," sagði Njáll Eiðsson, þjálfari Valsmanna en þeir lyftu 1. deildarbikarnum á loft í gærkvöldi eftir 1 - 0 sigur á Fjölni úr Grafarvogi. Hlutskipti Njarðvíkur og Stjörnunnar var öllu verra, bæði lið féllu niður í aðra deild. Þróttarar úr Reykjavík fylgja Valsmönnum upp. Leikur Vals og Fjölnis var litlaus, eins og svo margir aðrir leikir hafa verið í sumar, og viðurkenndi Njáll það fúslega. Hann vildi þó meina að lið sitt ætti fullt erindi í Úrvalsdeildina á næsta tímabili. "Auðvitað þarf að mörgu að huga en hér er góður efniviður og með réttum hugsunarhætti verðum við aldeilis tilbúnir næsta ár. Nú er þetta búið í bili og við erum með bikarinn en það er sérstakt afrek að fara með liðið upp í þriðja sinn. Það sýnir að það er töggur í strákunum og við siglum öruggt upp með 37 stig." Njáll sagði gengi Vals í sumar hafa verið upp og niður og ekki alltaf gengið samkvæmt áætlun, en öllu skipti að komast þangað sem ætlunin var að í upphafi mótsins og því sé hann stoltur af strákunum. Þróttur Reykjavík fylgir Völsurum upp þrátt fyrir jafntefli gegn Njarðvík sem þurfti nauðsynlega á öllum stigunum að halda til að bjarga sér frá falli. Þeir höfðu jafnmörg stig og Haukar en með mun lakari markatölu og falla því í aðra deild ásamt Stjörnunni sem tapaði 6 - 1 fyrir HK í Kópavoginum. Urðu þeir neðstir í 1. deild með 18 stig og 17 mörk í mínus. KS og Víkingur Ólafsvík fara upp úr 2. deild og taka stöður Hauka og Stjörnunnar að ári. Lokastaðan í 1. deild:   L U J T Mörk Stig Valur 18 11 4 3 35-14 37 Þróttur R. 18 8 6 4 31-23 30 HK 18 9 1 8 28-28 28 Breiðablik 18 7 5 6 31-31 26 Þór 18 5 10 3 19-16 25 Völsungur  18 6 4 8 27-29 22 Fjölnir 18 7 1 10 27-32 22 Haukar  18 4 7 7 27-27 19 Njarðvík 18 4 7 7 21-29 19 Stjarnan  18 5 3 10 28-45 18



Fleiri fréttir

Sjá meira


×