Sport

Sigrún með brons í Noregi

Sigrún Fjeldsted, FH, náði í einu verðlaun íslensku keppendanna á NM unglinga 20-22 ára sem fram fór í Fredrikstad í Noregi um helgina, en hún varð þriðja í spjótkasti með 46,89 m kasti. Af öðrum keppendum má nefna að Björgvin Víkingsson, FH, varð í 4. sæti í 400 m grindahlaupi á 55,91 sekúndum. ÍR-ingurinn Jóhanna Ingadóttir varð í 5. sæti í þrístökki þegar hún stökk 12,09 metra og lenti í 9. sæti í langstökki með 5,53 metra stökki. María K. Lúðvíksdóttir, FH, gerði hins vegar öll köst sín ógild í sleggjukastinu. Fararstjóri og þjálfari var kastþjálfari FH-inga, Eggert Bogason. Til gamans má geta þess að árið 2000 sendi Ísland helmingi fleiri keppendur, átta talsins. Mótið er að öllu jöfnu haldið annað hvert ár en keppnisrétt í ár höfðu konur og karlar fædd 1982, 1983 og 1984. Tímasetning mótsins gerir það að verkum að þeir íþróttamenn sem stunda nám í Bandaríkjunum eiga ekki möguleika á því að taka þátt þar sem skólinn og jafnvel keppnisviðburðir byrja svo snemma. Sigrún Fjeldsted er fædd árið 1984 og er því tvítug á þessu ári en hún hefur lengst kastað 49,70 metra. Sigrún hefur sýnt töluverðar framfarir í ár þó að hún hafi verið frekar sein af stað. Hún bætti sinn besta árangur fyrir nokkrum vikum síðan og er nú aðeins 30 cm frá 50 metra múrnum. Í þessari keppni var Sigrún með fjórða besta árangurinn þegar keppendur mættu til leiks. Sigrún er að reyna að rjúfa 50 metra múrinn og ef hún nær því munu Íslendingar eiga þrjár konur sem kasta yfir 50 m, en það yrði í fyrsta skiptið í sögunni sem það gerðist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×