Erlent

Pútín herðir tökin

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hefur dregið lærdóm af hryðjuverkunum í Beslan, og telur nauðsynlegt að auka miðstýringu og völd Kremlar til að berjast gegn hryðjuverkavánni. Í leiðinni myndi hann auka enn völd sín í landinu. Pútín er þeirrar skoðunar, að ekki hafi tekist sem skildi að koma á fót sterku ríki í Rússlandi, og að það hafi berlega komið í ljós í Beslan. Því sé nú nauðsynlegt að grípa til aðgerða og styrkja ríkið, svo að það megi sem best berjast gegn hryðjuverkum og öðrum vandamálum. Tillögur Pútíns felast meðal annars í því, að framvegis verði ríkisstjórar og forsetar í sjálfstjórnarhéruðum og sjálfstjórnarlýðveldum tilnefndir af stjórnvöldum í Kreml. Hlutverk héraðsþinga yrði þá aðeins að staðfesta tilnefningu kandídats stjórnvalda. Að auki vill Pútín gera umbætur á kosningafyrirkomulagi, og leggja af beina kosningu. Í staðinn vill hann að allir þingmenn séu kjörnir af flokkslistnum, en hingað til hefur helmingur verið kjörinn beinni kosningu. Stuðningsmenn Pútíns hafa löngum viljað losna við sjálfstæða þingmenn úr Dúmunni og Pútín hefur sagst viljað koma á kerfi, þar sem nokkrir stórir flokkar réðu, en ekki skarar smáflokka og stakra þingmanna. Flokkurinn eitt Rússland, sem styður Pútín, ræður nú tveimur þriðju hlutum Dúmunnar, en hefði háttur Pútíns verið hafður á í síðustu kosningum, hefði flokkurinn hlotið mun fleiri sæti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×