Viðskipti innlent

Íbúðalánasjóður kyndir undir

Helsti veikleiki íslenskrar efnahagsstjórnar er að laun hjá hinu opinbera hafa hækkað langt umfram það sem almennur vinnumarkaður hefur tök á að standa undir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun stjórnar Samtaka atvinnulífsins. Stjórn samtakanna lýsir áhyggjum af verðbólgu og gengi krónunnar. "Þenslan í dag og þensluhættan framundan verður ekki skrifuð á einstaka þætti. Spennan framundan er vegna umframeftirspurnar á öllum sviðum." Ari segir að launaþróunin eigi sinn þátt, en laun hjá hinu opinbera hafa hækkað um ríflega þrettán prósent frá árinu 2000 meðan laun á almennum vinnumarkaði hafa hækkað um tíu prósent. Samtök atvinnulífsins segja síðustu hækkun hafa leitt til fimm prósenta styrkingar krónunnar á nokkrum dögum. Það jafngildi fimmtán milljarða tekjulækkun útflutningsgreina á ársgrundvelli. Rekstrarskilyrði fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni hafi versnað til muna. Samtökin telja að aðhald ríkisins sé ekki nægjanlegt til þess að draga úr þenslunni. Ari segir spennu efnahagslífsins verða meiri en árin 1999 og 2000 á sama tíma og aðhald ríkisfjármála verði hlutfallslega minna. Brýnt sé því að markmið fjárlaga náist í það minnsta og það gerist ekki nema að aðhaldsaðgerðum verði framfylgt og launastefna ríkisins verði innan þess kostnaðarramma sem samningar á almennum vinnumarkaði hafi markað. Samtök atvinnulífsins segja að á sama tíma og þetta ástand blasi við sé ríkið í skefjalausri samkeppni á lánamarkaði með starfsemi Íbúðalánasjóðs sem hvorki greiði tekjuskatt né ábyrgðargjald til ríkisins. "Það er óskiljanlegt að á sama tíma skuli sjóður í eigu ríkisins vera með ný útspil sem kynda undir verðbólgunni."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×