Erlent

Yfir 100 þúsund látnir?

Talið er að yfir eitt hundrað þúsund manns hafi farist í hamförunum í kjölfar jarðskjálftans á Indlandshafi, þar af um þriðjungur börn. Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður Stöðvar 2, er staddur á Phuket-eyju í Taílandi, sem varð sérstaklega illa úti. Hann segir ástandið óljóst, en vitað sé að um 1600 hafi farist á Taílandi. Hann segir að unnið sé að því að koma ferðamönum á brott, en augljóst sé að mikið starf sé enn fyrir höndum. Meðal annars hafi mörg hús hreinlega þurrkast út í hamförunum. Ingólfur segir aðstæðurnar á Kaol Lak á Taílandi hafa verið hræðilegar í dag og þar hafi líkin enn verið á ströndinni í dag. Flóðbylgjan náði þar kílómeter inn á landið og flatti allt út sem fyrir henni varð. Mannfall vegna hamfaranna er mest á Indónesíu og hefur Aceh hérað, hér í norðurhlutanum, sem er næst miðju skjálftans orðið sérstaklega illa úti. Þar er nú staðfest að um 45 þúsund manns eru látnir en sú tala gæti auðveldlega hækkað til mikilla muna. Afleiðingarnar af þessum ógnarstóra jarðskjálfta eru einnig skelfilegar á Sri Lanka þar sem nánast allt stjórn- og efnahagskerfi landsins eru í algjörri rúst. Þar er staðfest að tæplega 23 þúsund eru látnir. Á Indlandi er búið að telja tæplega sjöþúsund lík og á Tælandi er opinber tala látinna um 1600. Rotnandi lík liggja alls staðar og fjölda líka skolar á land á hverjum degi. Svo skæð er lyktin að björgunarmenn og íbúar verða að hylja vit sín. María Skarphéðinsdóttir, læknir er nýkomin heim frá Indlandi þar sem hún starfaði fyrir Rauða Krossinn. Hún segir miklar líkur á því að farsóttir kvikni við svona aðstæður. Til dæmis skapist hætta vegna þess að skólp flæði um allt og vatnsból séu menguð. Þá geri fólk ekki nægar varúðarráðstafanir, Þar sem aðstaða til þess sé ekki lengur til staðar. Hún segir að tíðini þeirra sjúkdóma sem fyrir hafi verið á svæðinu aukist mjög, en ekki þurfi endilega að vera að nýjir sjúkdómar blossi upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×