Innlent

Ekki vitað um afdrif 10 Íslendinga

Nú eru liðnir tæplega þrír og hálfur sólarhringur frá jarðskjálftanum, og enn hefur ekkert heyrst frá tíu Íslendingum á svæðinu. Enn er leitað upplýsinga um fimm manna íslenska fjölskyldu sem var stödd á Balí þegar síðast var vitað, en þetta eru hjón með þrjú börn. Þá hefur ekkert spurst til fimm einstaklinga sem ætluðu að vera í Tælandi, það eru annarsvegar hjón með eitt barn, og hinsvegar par. Síðast er vitað um fólkið á Bankok Pattaya svæðinu. Pétur Ásgeirsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, segir þessi svæði ekki hættusvæði, en hins vegar sé þetta fólk á ferðalagi og ekki langt frá atburðunum. Haldið verður áfram eftirgrennslan varðandi þetta fólk þar til vitað er hvar þau eru niðurkomin. Ekki stendur til að flytja Íslendinga af hamfarasvæðinu og heim, líkt og sænsk og norsk stjórnvöld hafa ákveðið að gera. Pétur segist búast við að fólkið sem um ræðir haldi sinni ferðaáætlun og komi heim á þeim tíma sem það hafi staðið til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×