Sport

Sögulegu sumri lokið

Á sunnudaginn vann karlalandsliðið í körfubolta sætan og mikilvægan sigur á Rúmenum í riðlakeppni B-deildar Evrópumóts landsliða. Barátta liðsins fyrir sæti í A-deildinni heldur því áfram og næsti leikur verður hér heima þann 3. september á næsta ári. Með leiknum á sunnudaginn lauk keppnistímabili landsliðanna, keppnistímabili sem ekki á annan sinn líka í sögu körfuboltans. Það er ekki nóg með að íslensku landsliðin spiluðu alls 60 leiki á sumrinu heldur náðist frábær árangur á mótum sumarsins. Tímabilið hófst í maí með Norðurlandamóti unglinga í Stokkhólmi þar sem Ísland fór heim með þrjá titla af fjórum sem í boði voru. Áður hafði Ísland aðeins einu sinni unnið slíkan titil í áratugasögu mótanna. U-16 ára liðin gerðu það ekki endasleppt því árangur þeirra í B-deild Evrópumótsins var einnig gæsilegur. Drengjaliðið vann sinn riðil í B-deildinni og tryggði Íslandi sæti í A-deild á næsta ári. Stúlknaliðið var aðeins hársbreidd frá því að ná sams konar árangri í sínum riðli, en varð í 2. sæti. Kvennalandsliðið vann síðan sigur á Promotion Cup FIBA og náði besta árangri íslensks kvennalandsliðs á Norðurlandamóti þegar liðið endaði í fjórða sæti. Hér er ógetið árangurs karlalandsliðsins sem meðal annars lagði A-þjóðir Belga og Pólverja í leikjum í sumar, en mikill metnaður einkenndi verkefnaval liðsins, þar sem andstæðingar voru jafnan í sterkari kantinum. Árangurinn í tölumYngri liðin: U-16 karla 11-3 eða 82% árangur. U-16 kvenna 11-2 eða 85% árangur. U-18 karla 4-1 eða 80 árangur. U-18 kvenna 0-4 eða 0% árangur. Samtals 26-10 eða 72% árangur. A-liðin: Kvenna 6-6 eða 50% árangur Karla 4-8 eða 33% árangur Samtals 10-14 eða 42% árangur. Titlar sumarsins:U-16 karla Norðurlandameistarar U-16 karla sigur í riðli B-deildar EM U-16 kvenna Norðurlandameistarar U-18 karla Norðurlandameistarar A-lið kvenna Sigur á Promotion cup



Fleiri fréttir

Sjá meira


×