Sport

Misskiptar tekjur í enska boltanum

Stóru liðin í ensku knattspyrnunni, Liverpool, Newcastle, Chelsea, Arsenal og Manchester United, fá samanlagt um 48 prósent allra tekna í ensku úrvalsdeildinni og sýnir könnun meðal þarlendra knattspyrnuáhugamanna að mikill meirihluti þeirra hefur gefið upp alla von um að önnur lið geti nokkurn tíma unnið titil vegna þessa. Könnunin leiðir í ljós að heil 82 prósent aðspurðra vilja að því fé sem deildin veltir sé dreift með jafnari hætti á liðin öll og aðeins þannig sé möguleiki fyrir önnur og minni lið til að láta að sér kveða í framtíðinni. Hún er svört að mati áhangendanna en meirihluti þeirra segja að staðan geti aðeins versnað með þessu áframhaldi og að grípa þurfi í taumana sem fyrst. Bent er á í skýrslunni að Nottingham Forest og Ipswich, sem unnu titla fyrir 20 árum síðan, verði að líkindum horfin af sjónarsviðinu eftir önnur 20 ár. Kemur þessi skýrsla í kjölfarið á skýrslu sem Knattspyrnusamband Evrópu kynnti nýlega þar sem fram kemur að Meistaradeildin ýtir undir óánægju aðdáenda leiksins með því að gera ríkustu félögin ennþá ríkari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×