Innlent

Kísilgúrvinnslu við Mývatn lokið

Þau voru þung skrefin sem starfsfólk Kísiliðjunnar steig um ganga og sali verksmiðjunnar í gær. Síðustu sekkirnir voru afgreiddir úr húsi til útskipunar frá Húsavík og svo var gengið frá, í síðasta sinn. Hjarta sveitarinnar hefur slegið í takt við verksmiðjuna í næstum fjóra áratugi og þó að líf heimamanna haldi áfram verður það með öðrum hætti. Þessi snari þáttur er að baki og fæstir vita hvað tekur við. Tæplega fimmtíu manns missa vinnuna í dag og hinir fjölmörgu sem hafa lifibrauð sitt af þjónustu við verksmiðjuna, starfsfólkið og íbúa sveitarinnar horfa líka til framtíðar með ugg í brjósti. Svo eru það þeir sem kætast. Ekki yfir atvinnumissi fólksins og áhrifunum á sveitarlífið heldur fyrir hönd sjálfs Mývatns. Það eru nefnilega skiptar skoðanir um ágæti kísilgúrnámsins úr vatninu og sumir þeirrar skoðunar að það ógni lífríkinu. Á móti vega svo þau sjónarmið að þegar kísilgúrnáminu sleppir heyri Mývatn sögunni til því efnið safnast upp í því og vatnið grynnist og grynnist. Slíkt gerist þó á nokkrum öldum, gangi þær spár eftir. Einstök verksmiðja Kísiliðjan var stofnuð í ágúst 1966 og ári síðar hófst tilraunaframleiðsla á kísilgúr. Fáar stóriðjur voru í landinu í þá daga en hjól Áburðaverksmiðjunnar á Gufunesi og Sementsverksmiðjunnar á Akranesi höfðu þó snúist í nokkur ár. Notkun kísilgúrs er þríþætt; til síunar á ýmsum vökvum, til dæmis á bjór, matarolíu, bensíni og blóði í blóðbönkum, sem fylliefni í málningu, snyrtivörum, plasti og lyfjum og sem slípiefni í tannkremi og bílabóni. Kísilgúrinn var að mestu seldur til nokkurra Evrópuríkja. Sérstaða verksmiðjunnar var nokkur, hún var sú eina sinnar tegundar sem vann kísilgúr af vatnsbotni en ekki úr uppþornuðum stöðuvötnum og einnig var hún önnur stærsta verksmiðjan í heiminum sem nýtti jarðhita sem orkugjafa. Kísiliðjan verður til Áður en Kísiliðjan hóf starfsemi var landbúnaður hryggjarstykkið í atvinnulífi Mývatnssveitar. Myndarleg býli stóðu hringinn í kringum vatnið auk þess sem nokkrir sinntu þjónustustörfum, kennslu og fleiru. Aðdragandinn að stofnun verksmiðjunnar var nokkur. Baldur Líndal, efnaverkfræðingur, hafði rannsakað eitt og annað í lífríki Mývatns og eins gufuna í Bjarnaflagi. Komst hann að því að hún væri brúkleg til brennisteinsvinnslu og voru framleidd nokkur hundruð kíló af brennisteini í tilraunaskyni. Skömmu síðar snarféll brennisteinninn í verði og vinnuslunni því sjálfhætt. Í staðinn horfðu menn niður til vatnsins og staðnæmdust við kísilgúrinn sem nóg var af. Frekari rannsóknir fylgdu í kjölfarið og úr varð að reisa kísilgúrverksmiðju sem ákveðið var með lögum frá Alþingi. Þegar ljóst varð að þéttbýliskjarni yrði byggður í Mývatnssveit skiptust menn í fylkingar eftir því hvort þeim fannst hann eiga að standa í Reykjahlíð eða á Skútustöðum. Reykjahlíð varð ofaná. Framtíðin Það er þungt högg fyrir jafn fámennt sveitarfélag og Mývatnssveit er þegar stærsta vinnustaðnum er lokað. Íbúarnir eru samtals um 450 og 200 búa í þéttbýlinu í Reykjahlíð. Talsverð uppbygging hefur orðið í ferðaþjónustu í sveitarfélaginu og binda margir vonir við hana. Nýlega var Mývatn ehf. verðlaunað sérstaklega fyrir nýsköpun í ferðaþjónustu en fyrirtækið hefur staðið að mörgum viðburðum sem dregið hafa fólk í héraðið utan háanna tíma. Umræður um kísilduftverksmiðju í stað kísilgúrnámsins voru háværar um skeið en algjör óvissa ríkir enn um hvort hún verði að veruleika. Deyfð yfir fólki Dauft hljóð var í Agnesi Einarsdóttur, trúnaðarmanni starfsfólks Kísiliðjunnar, þegar hún hélt heim á leið eftir að síðustu vakt hennar lauk í gær. Hún kvaddi þá vinnustað sinn til tuttugu ára í síðasta sinn. "Það var deyfð yfir fólkinu," sagði hún. "Andinn var ekkert sérstakur enda ekkert framundan." Sjálfri leið henni illa. "Þeir koma á morgun [í dag] frá svæðisvinnumiðluninni og skrá okkur atvinnulaus." Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra talaði við starfsfólkið í gær en Agnes gefur lítið fyrir orð hennar. "Hún fór yfir sögu Kísiliðjunnar sem við þekkjum nú öll og þurfti ekkert að segja okkur. Svo sagði hún að það væri ekkert að frétta." Starfsfólki Kísiliðjunnar er boðið til Dyflinnar á fimmtudag og er helmingur kostnaðar greiddur fyrir maka. Agnes segir upp og ofan hvort fólk hlakki til fararinnar. "Það vildu örugglega allir hafa vinnu frekar en að fara út. Þetta verður ábyggilega skrýtin ferð."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×