Viðskipti innlent

Fá 1,7 milljarða styrk

Íslensk erfðagreining hefur hlotið 24 milljóna dala styrk frá Bandarísku heilbrigðisstofnuninni til rannsókna á erfðafræði smitsjúkdóma. Samningur um rannsóknirnar gildir í fimm ár. Upphæðin jafngildir um 1.700 milljónir króna. Rannsóknirnar sem um ræðir eru á sviði smitsjúkdóma og arfgengum áhættuþáttum varðandi þá. Íslensk erfðagreining vinnur í samstarfi við háskólann í Nýju-Mexíkó og var samstarfið kynnt á blaðamannafundi í Santa Fe í gær. Í samtali við Fréttablaðið að loknum blaðamannafundi lýsti Bill Richardson, fylkisstjóri í Nýju-Mexíkó og fyrrum orkumálaráðherra Bandaríkjanna, ánægju með samninginn. "Þetta sýnir mikilvægi erfðarannsókna og ég er mjög ánægður að Nýja-Mexíkó hafi nú hafið samstarf við Íslendinga. Ég vona að það verði ekki aðeins langvinnt heldur fari vaxandi eftir því sem á líður." Í fréttatilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu segir að verkefnið felist í að leita að erfðavísum sem tengjast ónæmi fyrir berklum, aukaverkunum af völdum bólusetningar gegn bólusótt og næmi fyrir inflúensu og ýmsum bakteríusýkingum sem meðal annars valda lungnabólgu og heilahimnubólgu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×