Viðskipti innlent

Sameining sparisjóða

Viljayfirlýsing um sameiningu SPRON og Sparisjóðs vélstjóra var undirrituð í gær. Á grundvelli mats óháðra endurskoðenda verður hlutur SPRON 60 prósent í sameiningunni, en hlutur SPV 40 prósent. SPRON og SPV hafa verið í sitt hvorri fylkingu innan sparisjóðanna og sameining því söguleg. Óskar Magnússon, stjórnarformaður SPRON, segist vonast til að flokkadráttum linni. "Þarna eru samlegðaráhrif upp á hundruð milljóna, þannig að það er mikilvægt að þetta takist," segir Óskar. Hagnaður smærri fjármálafyrirtækja hefur að mestu verið sprottinn af góðæri á verðbréfamörkuðum. Ný húsnæðislán með 4,2 prósenta vöxtum þrýsta á um stærri einingar. "Það er mikilvægt að búa sig undir það að ekki ríki alltaf góðæri á bréfamörkuðum," segir Óskar. Viðskipti með stofnfjárbréf SPRON voru stöðvuð í gær vegna frétta um viðræður SPV og SPRON. HF verðbréf tóku að sér miðlun bréfa og segir Halldór Friðrik Þorsteinson hjá HF verðbréfum að vegna óvissu hafi viðskipti með þau verið stöðvuð. Þau hefjist aftur á mánudag, en af þeim tíu prósentum sem stjórn SPRON samþykkti viðskipti með var meirihluta miðlað af MP verðbréfum. Sigurður Valtýsson hjá MP verðbréfum sagði fyrirtækið miðla þessum bréfum eins og öðrum verðbréfum og staðfesti áhuga á þeim hjá sínum viðskiptavinum. Viðskipti með bréf SPRON hafa verið á genginu 5,5 sem er svipað og KB banki bauð í upphafi árs. Full stofnfjáreign gefur því um 4,5 milljónir króna í aðra hönd.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×