Skoðun

Útgjöld ár eftir ár umfram fjárlög

Þjóðarbúskapurinn - Katrín Ólafsdóttir Í desember á hverju ári samþykkir Alþingi fjárlög komandi árs, sem gefur til kynna hversu háa upphæð hver ríkisstofnun og hvert ráðuneyti hefur til ráðstöfunar yfir árið. Í fjárlögum kemur því fram áætlun um útgjöld komandi árs og ef niðurstaðan er önnur þarf fjáraukalög til að dekka mismuninn. Ríkisendurskoðun gerir síðan reglulega úttekt á framkvæmd fjárlaga að árinu loknu. Nú liggur fyrir úttekt á framkvæmd fjárlaga fyrir árið 2003 og hefur hún verið harðlega gagnrýnd af fjármálaráðherra. En þótt margt megi vissulega gagnrýna í skýrslu Ríkisendurskoðunar, þá er niðurstaðan ljós. Útgjöld ríkissjóðs undanfarin ár hafa alltaf farið töluvert umfram fjárlög og var árið í fyrra engin undantekning. Samkvæmt fjáraukalögum var útlit fyrir að útgjöldin yrðu 5% hærri en fjárlögin, en þar til ríkisreikningur fyrir árið 2003 liggur fyrir, vitum við ekki nákvæmlega niðurstöðuna. Bæði ríkisreikningur og fjárlög eru á rekstrargrunni og sýna því samanburðarhæfar tölur. Ef við skoðum niðurstöður áranna 1998-2002, þá sjáum við að öll árin eru útgjöld umfram fjárlög. Á árinu 2001 voru útgjöld 4,3% umfram fjárlög, en þetta er minnsta umframkeyrsla síðan uppsetningu fjárlaga var breytt árið 1997. Mest fóru útgjöldin 18,5% umfram fjárlög á árinu 2000. Að meðaltali voru útgjöld ársins 11,6% hærri en fjárlög sögðu til um á árunum 1998-2002. Þetta vekur mann til umhugsunar um hvort eitthvað sé að marka fjárlögin. Ef við hugsum fjárlög sem áætlun, þá eru flestar áætlanir þannig að stundum eru þær of háar og stundum of lágar. En ef áætlunin er alltaf of lág, þá læðist að manni sá grunur að þar sé viljandi vanáætlun, eða í áætlun séu áform um aðhald í rekstri sem síðan verður minna úr en ætlað var. Auðvitað getur ýmislegt gerst á heilu ári sem ekki er hægt að sjá fyrir, en ef slíkir atburðir gerast á hverju ári væri eðlilegast að gera ráð fyrir þeim í fjárlögum. Þannig væri einn liður í fjárlögum kallaður Óvænt útgjöld og á þeim lið væri upphæð á bilinu 19-39 milljarðar sem er sú upphæð sem eytt hefur verið árlega umfram fjárlög síðustu ár. Ég vil því taka undir orð Ríkisendurskoðunar þar sem hún segir í samantekt: "Sú umframkeyrsla sem viðgengist hefur hjá ráðuneytum og einstökum stofnunum ár eftir ár hefur leitt til þess að markmið stjórnvalda um hóflega aukningu ríkisútgjalda og hallalausan rekstur síðustu ár hafa ekki gengið eftir. ... Sérstaklega þarf að fara yfir fjármál og rekstur þeirra stofnana sem hafa safnað neikvæðri stöðu gagnvart fjárheimildum undanfarin ár. Ljóst er að margar þeirra geta engan veginn sinnt núverandi starfsemi með þeim fjárveitingum sem þeim eru ætlaðar í fjárlögum".



Skoðun

Sjá meira


×