Sport

ÍA mætir Tallin í dag

ÍA mætir eistneska liðinu TVMK Tallin í forkeppni UEFA-bikarsins ytra í dag. Skagamenn báru sigur úr býtum í fyrri leiknum, 4-2, sem fram fór á Akranesi og staða þeirra því ágæt. Að vísu spila þeir án framherjans Stefáns Þórðarsonar sem rekinn var af velli í fyrri leiknum og því í banni. Það var Færeyingurinn Julian Johnson sem skoraði fjórða og síðasta markið þegar komnar voru þrjár mínútur fram yfir venjulegan leiktíma og það mark gæti reynst Skagamönnum dýrmætt. Ekki er þó auðvelt að rýna í möguleika þeirra þrátt fyrir tveggja marka forskot. Lið ÍA hefur verið afar sveiflukennt í sumar -- liðið spilar stundum mjög vel en getur dottið mjög langt niður og besta dæmið um það er bikartapið gegn 1. deildarliði HK, fyrr í sumar. Nái liðið hins vegar að sýna sitt rétta andlit í Eistlandi ætti það að komast áfram enda eru Skagamenn með gífurlega reynslu af Evrópuleikjum og eru oftast bestir í stóru leikjunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×