Sport

FH lagði ÍBV

Guðmundur Sævarsson tryggði FH-ingum langþráðan sigur gegn ÍBV í Kaplakrika í gær en Hafnarfjarðarliðið hafði leikið þrjá síðustu leiki á undan án þess að vinna. FH vann leikinn 2–1 eftir að hafa verið manni fleiri síðasta klukkutímann. Englendingurinn Ian Jeffs fékk beint rautt spjald í annað sinn í sumar á 30. mínútu þegar hann braut mjög illa á Jóni Þorgrími Stefánssyni. Eyjamenn voru því komnir í sömu stöðu og gegn KR í leiknum, manni færri þegar meira en 60 mínútur voru eftir af leiknum. Eyjamenn börðust vel, líkt og gegn KR, en urðu að lokum að sætta sig við fyrsta tapleik sinn í sumar. Birkir Kristinsson, markvörður og fyrirliði ÍBV, bætti leikjamet sitt og Gunnars Oddssonar þegar hann lék sinn 295. leik í efstu deild. FH-ingar voru frekar daprir, sköpuðu sér fá færi en þolinmæði liðsins borgaði sig í restina. Mark Guðmundar kom eftir þunga sókn FH-inga tíu mínútum fyrir leikslok, skot hans hafði viðkomu í varnarmanni og Birkir átti enga möguleika. Úrsiltin voru sanngjörn þegar á heildina er litið en Eyjamenn áttu þó kannski skilið stig, ekki síst vegna þess að þeir lögðu á sig gríðarlega vinnu allan tímann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×