Kennir Íslendingum rokkið
Gítarleikarar og aðdáendur rokksveitarinnar Deep Purple fá óvæntan glaðning með komu sveitarinnar hingað til lands. Steve Morse, gítarleikari sveitarinnar, ætlar nefnilega að halda sýnikennslu í húsakynnum FÍH þann 24. júní. Þar ætlar kappinn að sýna hvernig honum finnst best að spila rokk og ról. Líklegast gengur enginn þaðan út án þess að kunna riffið í Smoke on the Water. Morse býr yfir gríðarlegri reynslu og spilar ekki bara rokk, heldur líka blús og djass. Hann hefur sex sinnum verið tilnefndur til Grammy-verðlauna í flokki gítarleikara og hefur verið hampað mjög af gítarblaðinu Guitar Player í gegnum árin. Hann gekk til liðs við Deep Purple árið 1996 en var áður í sveitinni Dixie Dregs auk þess að reka sína eigin sveit, The Steve Morse Band. Salur FÍH er að Rauðagerði 27 og hefst kennslan kl. 16 fimmtudaginn 24. júní næstkomandi.