Erlent

Fótboltabullur handteknar í Köln

Fjórir stuðningsmenn enska landsliðsins í fótbolta voru handteknir fyrir skrílslæti í Köln í nótt, þegar eftirvænting þeirra eftir leik Englendinga gegn Svíþjóð fór úr böndunum. Sextán lögreglumenn slösuðust í átökunum og þurfti einn að leggjast inn á sjúkrahús.

Erlent

Foreldrar á Bretlandseyjum reiðir

Meðlimir foreldrafélaga barnaskóla á Bretlandseyjum eru reiðir eftir að þarlendir fréttamiðlar greindu nýverið frá því að reglur sem settar höfðu verið til að halda dæmdum kynferðisafbrotamönnum utan skólakerfisins hafi brugðist.

Erlent

Ofbeldi í New Orleans

Borgarstjórinn í New Orleans kallaði eftir hjálp þjóðvarðliða í gær til að hefta útbreiðslu mikils ofbeldis sem verið hefur í borginni og hefur leitt til dauða sex manna nú um helgina.

Erlent

Ákærður fyrir morð á ítölskum njósnara

Ítalskur saksóknari hefur að sögn þarlendra fjölmiðla ákveðið að ákæra bandarískan hermann fyrir morð á ítalska leyniþjónustumanninum Nicola Calipari við varðstöð í Írak í fyrra. Líklegt er að réttað verði í málinu að honum fjarstöddum og hann kærður fyrir morð og tvö morðtilræði.

Erlent

Málverk selt á 10 milljarða

Málverk austurríska málarans Gustav Klimt sem Nasistar stálu á valdatíma sínum í Þýskalandi var selt í New York í gær, að því er talið er, fyrir jafnvirði rúmra 10 milljarða íslenskra króna. Málverkið er eitt fjögurra verka Klimt sem Nasistar hrifsuðu til sín.

Erlent

Varað við hryðjuverkamanni 2003

Bretar máttu vita þegar árið 2003 að einn fjögurra hryðjuverkamanna, sem átti þátt í dauða 52 í hryðjuverkaárás á Lundúnir í fyrra, væri maður sem réttast væri að hafa gætur á. Bandarísk stjórnvöld vöruðu þá bresku leyniþjónustuna við höfuðpaurnum sem þá þegar var bannað að fljúga til Bandaríkjanna.

Erlent

3 bandarískir hermenn ákærðir fyrir morð

Þrír bandarískir hermenn hafa verið ákærðir fyrir morð á þremur Írökum sem voru í haldi hermanna vegna aðgerða hersveitar í síðasta mánuði. Hermennirnir eru einnig ákærðir fyrir að hafa reynt að koma í veg fyrir að rannsókn færi fram.

Erlent

Fyrsta konan kjörin biskup í bandarísku biskupakirkjunni

Fyrsta konan var kjörin biskup í bandarísku biskupakirkjunni í gær. Aðeins kanadíska og nýsjálenska biskupakirkjan hafa hingað til kjörið konu til biskupsembættis og margir leiðtogar biskupakirkjunnar víða um heim telja konur ekki einu sinni eiga erindi til að gegna prestsstörfum.

Erlent

Þorskur aftur genginn að Grænlandsströndum

Þorskur er aftur genginn að Grænlandsströndum að sögn norska blaðsins Fiskeribladet, og fékk togari umþaðbil þúsund tonn af vænum þorski á slóðum, þar sem ekki hefur sést þorskur í fimmtán ár.

Erlent

Þokast í samkomulagsátt í Palestínu

Hamas- og Fatahhreyfingarnar í Palestínu eru nálægt því að komast að samkomulagi um ýmis aðalágreiningsatriði fylkinganna, svo sem viðurkenningu Ísraelsríkis og lausn fanga úr fangelsum.

Erlent

Lögreglan í Kaupmannahöfn skýtur mann til bana.

Lögreglan í Kaupmannahöfn skaut mann til bana í morgun, eftir að æði rann á hann í söluturni, þar sem hann braut allt og bramlaði með barefli. Þegar lögreglumenn náðu því af honum dró hann upp hníf og ógnaði nærstöddum sem lyktaði með því að lögreglumennirnir skutu á hann. Hann lést af skotsárum sínum skömmu síðar.

Erlent

Alþjóða hvalveiðiráðið samþykkir ályktun um að hvalveiðibann ráðsins sé úrelt

Alþjóða hvalveiðiráðið samþykkti í gær ályktun um að hvalveiðibann ráðsins sé úrelt og ekki lengur nauðsynlegt. Það var þó mjótt á munum, 33 þjóðir greiddu atkvæði með ályktuninni en 32 voru því mótfallnar. Í ályktuninni er lagt til að hvalveiðiráðið snúi sér að upprunalegu hlutverki sínu: að stjórna hvalveiðum, í stað þess að banna þær með öllu. Hvalveiðibann alþjóða hvalveiðiráðsins stendur þó áfram enda þurfa 75 prósent þjóðanna sem í því sitja að styðja afnám bannsins til þess að því sé hnekkt.

Erlent

Krefjast afsökunarbeiðni lögreglu

Áætlað er að þúsund manns hafi tekið þátt í mótmælagöngu í austurhluta Lundúna í gær til að krefjast formlegrar afsökunarbeiðni frá bresku lögreglunni eftir áhlaup lögreglumanna í byrjun mánaðarins vegna gruns um hryðjuverkastarfsemi.

Erlent

Líkt við örkina hans Nóa

Norðmenn eru byrjaðir að byggja eins konar dómsdagsbyrgi, sem grafið verður inn í frosnar fjallshlíðar Svalbarða, og á að geyma plöntufræ hvaðanæva að úr veröldinni til að hægt sé að hefja ræktun á ný ef stórslys á borð við miklar loftslagsbreytingar eða kjarnorkustríð skyldi stefna uppskeru á jörðinni í hættu

Erlent

Hefndarmorð á unglingum

Fimm unglingar voru skotnir til bana í New Orleans í Bandaríkjunum í gær, og er það versta fjöldamorð sem framið hefur verið í sögu borgarinnar. Fórnarlömbin, fimm ungir piltar á aldrinum 16 til 19 ára, fundust í og við bíl þeirra eftir að morðingjarnir höfðu skotið fjölmörgum skotum á bílinn með þeim afleiðingum að allir í honum létust.

Erlent

Ævintýraleg þorskveiði

Þorskurinn virðist vera kominn aftur í hafið við Grænland eftir 15 ára bið, að sögn vefútgáfu norska blaðsins Fiskeribladet, og hann lítur vel út sá sem veiðist. "Ævintýraleg veiði," segir Leivur á Rógvi skipstjóri.

Erlent

Discovery út í geiminn 1. júlí

Bandaríska geimferðastofnunin NASA ákvað á laugardag að skjóta skyldi geimferjunni Discovery út í geim þann 1. júlí næstkomandi. Ákvörðunin er tekin þvert á ráðleggingar sérfræðinga sem segja stofnunina ekki fyllilega hafa leyst þau vandamál sem urðu til þess að geimferjan Columbia fórst árið 2003 með þeim afleiðingum að sjö geimfarar fórust.

Erlent

Sátt milli fylkinga í Palestínu hugsanleg

Viðræður eru í gangi á milli Hamas-samtakanna og Fatah-hreyfingarinnar í Palestínu um að tilvist Ísraelsríkis verði viðurkennd en Hamas-samtökin hafa hingað til neitað að gera það. Samningamenn eru bjartsýnir á að sátt náist.

Erlent

Steypa forseta ekki af stóli

Leiðtogi íslömsku skæruliðahreyfingarinnar sem lagði undir sig Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, í seinustu viku hefur heitið því að samtök hans muni ekki steypa Abdullah Yusuf, forseta Sómalíu, af stóli. Fréttir hafa borist af innrás eþíópísks herliðs sem koma átti bráðabirgðastjórn Yusuf til aðstoðar en því neita Eþíópíumenn.

Erlent

Stjórnarandstaðan sigraði

Stjórnarandstaðan í Slóvakíu hrósaði sigri í þingkosningunum sem fram fóru þar í fyrradag. Forseti landsins hefur falið Robert Fico, leiðtoga vinstriflokksins Smer, stjórnarmyndun, en flokkurinn náði ekki hreinum meirihluta og verður því að mynda stjórn í samráði við aðra flokka.

Erlent

Hættu við 45 dögum áður

Yfirvöldum í Bandaríkjunum bárust upplýsingar um að hryðjuverkasamtökin al-Kaída hefðu í hyggju að sleppa banvænu gasi í neðanjarðarlestakerfi New York árið 2003, en hætt hafi verið við árásina 45 dögum áður en láta átti til skarar skríða. Þetta kemur fram í bókarútdrætti sem tímaritið Time birti nýlega á vef sínum.

Erlent

Mótvægi við Bandaríkin

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti hvatti Kínverja, Rússa og aðrar Asíuþjóðir til að sameina efnahagslega og pólitíska krafta sína til mótstöðu við áhrif Bandaríkjanna.

Erlent

Hitti forsætisráðherra Dana

Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hitti Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, á fundi í Danmörku í gær en þar var Annan í dagsheimsókn. Ekki er vitað hvað þeim fór á milli en líklegt er að málefni í Írak og Súdan hafi borið á góma ásamt hlutverki SÞ í Írak. Frá þessu greinir skrifstofa danska forsætisráðherrans.

Erlent