Erlent

Kenía lokar landamærunum

Kenía hefur lokað landamærum sínum að Sómalíu og sent hersveitir til að stöðva stríðan straum sómalskra flóttamanna inn í landið. Helsta ástæðan fyrir lokuninni er ótti kenískra stjórnvalda við að íslamskir uppreisnarmenn flýi yfir til Kenía. 420 flóttamenn, flest konur og börn, hafa verið sendir til baka frá landamærunum.

Erlent

Giftursamleg björgun miskunnsams samverja

Lífi 19 ára unglings var bjargað, á giftusamlegan hátt, eftir að hann féll á neðanjarðarlestarteina í New York-borg í gær. Vegfarandi kastaði sér á teinana og lagðist ofan á drenginn til að halda honum niðri um leið og lest var ekið yfir þá. Báðum heilsast vel.

Erlent

Hefðu farið öðruvísi að

Kalt stríð er skollið á milli Bandaríkjamanna og forsætisráðherra Íraks. Ráðherrann segist vilja hverfa úr embætti hið fyrsta og segir Bandaríkjamenn hafa brugðist klúðurslega við ofbeldi í Írak. Bandaríkjamenn svara um hæl að þeir hefðu hagað aftöku Saddams Hússeins öðruvísi.

Erlent

Fundu annað fórnarlamb ETA

Börgunarmenn á flugvellinum í Madríd fundu nú undir kvöld lík annars mannanna sem létust í kraftmikilli bílsprengingu ETA á laugardag. Lík mannsins fannst í rústum á bílastæðinu þar sem sprengjan sprakk. Mennirnir voru báðir ekvadorskir innflytjendur. Þeir eru fyrstu mennirnir sem látast í hryðjuverkum ETA í rúm þrjú ár.

Erlent

Hvít-Rússar leggja skatt á rússneska hráolíu

Hvít-Rússar, sem hafa staðið í deilum við grannlandið Rússa, tilkynntu í dag að þeir hefðu lagt skatt á hráolíuútflutning Rússa sem fer um leiðslur á hvítrússnesku landi. Skattlagningin tekur gildi 1. janúar 2007 og nemur 3.150 krónum á hvert tonn af olíu sem fer í gegnum Hvíta-Rússland á leið sinni til viðskiptavina Rússa í Evrópu.

Erlent

Glæpagengi tekið úr umferð

Túnískar öryggissveitir skutu til bana 25 meðlimi glæpagengis rétt sunnan höfuðborgarinnar Túnis, að sögn vitna. Ráðamenn segja hins vegar rangt að svo margir hafi verið skotnir, en svara ekki með réttum fjölda.

Erlent

Hvít Rússar hóta Moskvu

Forseti Hvíta Rússlands hótaði í dag að leggja flutningsgjald á olíu frá Rússlandi til Evrópu, ef Rússar standa fast á því að stórhækka verð á gasi og olíu til landsins. Rússar hafa undanfarin misseri átt í hörðum deilum við fyrrverandi aðilarríki Sovétríkjanna um orkuverð.

Erlent

Edrú á Toyota

Toyota bílaframleiðandinn ætlar að setja áfengisvarnarkerfi í bíla sína sem gerir ökumönnum ókleift að aka undir áhrifum. Í stýri bílanna verða svitamælar sem skynja samstundis ef ökumaðurinn hefur drukkið of mikið áfengi. Þá fer bíllinn einfaldlega ekki í gang.

Erlent

Saddam kvaddi bandaríska fangaverði sína kurteislega

Saddam Hussein kvaddi ameríska fangaverði sína kurteislega og þakkaði þeim fyrir hvernig þeir hefðu komið fram við sig, þegar hann var seldur í hendur Íraka, til aftöku. Hann sýndi ótta í smástund, eftir að hann var kominn í hendur landa sinna, en jafnaði sig fljótlega.

Erlent

Ný brú mili Danmerkur og Svíþjóðar

Eyrarsundsstofnunin svokallaða, sem sá um byggingu brúarinnar milli Kaupmannahafnar og Malmö vill láta byggja nýja brú milli landanna. Hún á að liggja milli Helsingjaborgar í Svíþjóð og Helsingjaeyrar í Danmörku. Tillaga stofnunarinnar er fram komin vegna þeirra miklu aukningar sem orðið hefur á umferð yfir Eyrarsundsbrúna.

Erlent

Kona verður Buffæta

Hinir skrautlega klæddu verðir við Tower of London hafa staðið vaktina síðan 1845. Allir hafa þeir verið karlmenn. Nú hefur hinsvegar verið tilkynnt að kona muni á næstunni ganga í raðir þeirra.

Erlent

Fimm handteknir vegna tengsla við hryðjuverkaárásir

Spænska lögreglan hefur handtekið fimm menn sem grunaðir eru um að hafa hjálpað tveimur mönnum, sem grunaðir eru um aðild að sprengjuárásunum á lestarkerfið í Madríd í mars 2004, að flýja. Frá þessu greindi innanríkisráðuneyti landsins í dag.

Erlent

Amerískar rán-marglyttur í Oslóarfirði

Norðmenn hafa af því áhyggjur að amerískar rán-marglyttur hafa fundist í miklum breiðum á Oslóarfirði. Það var þessi tegund af marglyttum sem lagði fiskveiðar í Svartahafi í rúst á áttunda áratugnum.

Erlent

Búinn að fá nóg

Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, vill ekki sitja annað kjörtímabil í embætti og vill losna úr ráðuneytinu áður en núverandi tímabil er liðið. Hann gagnrýnir Bandaríkjamenn fyrir að bregðast of seint við ofbeldi í landinu. Bandaríkjamenn segja á móti að þeir hefðu hagað aftöku Saddams Hússein öðruvísi.

Erlent

Ostur ekki góður fyrir bresk börn

Ostur er ekki góður kostur samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum í Bretlandi. Þar í landi er bannað að auglýsa mat sem hefur hátt innihald fitu, sykurs og salts í barnatímum. Samkvæmt stöðlunum sem notaðir eru um svokallað „ruslfæði“ þá er ostur mjög slæmur fyrir börn og reyndar talinn verri en sykrað morgunkorn, kartöfluflögur og ostborgarar.

Erlent

Flugvélar enn leitað

Enn er allt á huldu með örlög rúmlega eitt hundrað farþega sem voru um borð í indónesískri flugvél sem hvarf að morgni nýársdags. Vélin var á leið frá Jövu til Súlavesí-eyja. Ranglega var sagt frá því í gær að flugvélin og 12 eftirlifendur hefðu fundist í gærmorgun og vakti það fyrst von hjá ástvinum þeirra sem er saknað en hún snerist síðan upp í reiði.

Erlent

Börðust við eld í miðborg Stokkhólms

Slökkviliðið í Stokkhólmi barðist í nótt og í morgun við eld sem kom upp í húsi í miðborginni. Rýma þurfti nærliggjandi hús og hótel vegna ótta við að eldurinn bærist í þau og þá var götum í kring lokað á meðan á slökkvistarfi stóð.

Erlent

Lítið horft á nýja fréttastöð í Danmörku

Það blæs ekki byrlega fyrir nýstofnaðri fréttastöð í Danmörku, TV2 News, samkvæmt danska blaðinu B.T. Þar kemur fram að í síðustu viku ársins 2006 hafi mest 16 þúsund manns horft á stöðina en til samanburðar horfðu næstum því 900 þúsund manns á fréttir sjónvarpsstöðvarinnar TV2 klukkan sjö í síðustu viku síðasta árs.

Erlent

Vilja ekki spá fyrir um heilsu Kastrós

Æðstu prestar algengustu trúarbragða á Kúbu, hinnar afrísk-kúbönsku Santeria-trúar, neituðu að spá nokkuð fyrir um heilsu Fídels Kastrós á nýju ári. Kastró hefur ekki sést opinberlega í rúmlega fimm mánuði. Nýársspá prestanna er árlegur viðburður og bíður þjóðin hennar með mikilli eftirvæntingu.

Erlent

Friðargæsluliðar sakaðir um nauðganir

Friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna í Súdan hafa verið sakaðir um að nauðga stúlkum allt niður í tólf ára aldur. Ásakanirnar komu fyrst fram fyrir tveimur árum en Sameinuðu þjóðirnar hafa um tíu þúsund manna starfslið á svæðinu sem vinnur að uppbyggingu landsins eftir langvarandi borgarastyrjöld.

Erlent

Vinsælt að kafa með hákörlum

Að kafa með hákörlum hljómar ekki beint spennandi en það er engu að síður orðin vinsælt á meðal ferðamanna í Suður Afríku. Ferðir í hákarlaköfun eru uppbókaðar marga mánuði fram í tíman og talið er að allt að eitt hundrað þúsund manns hafi farið í slíkar ferðir í fyrra.

Erlent

Á ekki von á miklum átökum

Forsætisráðherra Sómalíu, Mohamed Al Gedi, sagði í gær að hann byggist ekki við miklum átökum við uppreisnarmenn héðan af þar sem vel hefur tekist að dreifa úr hermönnum þeirra. Sómalska ríkisstjórnin hefur einnig sett í gang áætlun sem miðar að því að afvopna stríðsherra um allt land.

Erlent

Aukinn viðbúnaður í Taílandi

Aukinn öryggisviðbúnaður er nú á mörgum stöðum í Taílandi vegna sprenginganna sem áttu sér stað á nýársnótt. Alls létust þrír í árásunum og um 40 manns særðust.

Erlent

Gæsluvarðhald fram í maí

Fjörutíu og átta ára gamall karlmaður, sem grunaður er um að hafa myrt fimm vændiskonur á Austur-Englandi, hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald fram í maí. Dómari í Ipswich ákvað þetta í gær.

Erlent

Viðræður við ETA blásnar af

Talsmaður spænska sósíalistaflokksins, sem heldur um stjórnartaumana í landinu, lýsti því yfir í gær að friðarsamningaumleitanir við aðskilnaðarhreyfingu Baska hefðu verið blásnar af, en ekki aðeins frestað. Yfirlýsingin kom í kjölfar sprengjutilræðis í bílageymslu við alþjóðaflugvöllinn í Madríd um helgina. 26 særðust í sprengingunni og tveggja er saknað og þeir taldir af.

Erlent

Ekki rétt að vélin hafi fundist

Stjórnvöld í Indónesíu báru síðdegis í gær til baka fréttir um að flak farþegaþotu, sem saknað er síðan á mánudag, hefði fundist. Um borð í vélinni voru 96 farþegar og sex manna áhöfn og bentu fyrstu fréttir til þess að tólf manns hefðu hugsanlega lifað af flugslysið.

Erlent