Erlent

Skíðamaður varð fyrir snjóflóði

Skíðamaður dó þegar hann varð fyrir snjóflóði í gær í skíðabrekkum í vesturhluta Kanada. Embættismenn á svæðinu segja að hlýtt veðurfar og blautur snjór skapi aukna hættu á snjóflóðum sem þessum. Maðurinn var um þrítugt. Hann varð fyrir snjóflóði seint í gærkvöldi. Þegar uppvíst varð um slysið var orðið of seint að leggja af stað til að sækja líkið. Myrkur og hætta á frekari snjóflóðum komu í veg fyrir að líkami mannsins væri sóttur í gær.

Erlent

Sprengjuárás í Nígeríu

Sprengja sprakk nærri mosku í borg í norðurhluta Nígeríu fyrr í dag. Sprengjan sprakk rétt eftir að bænagjörð lauk og fólk var að týnast út úr moskunni. "Fólk henti sér í allar áttir svo það myndaðist mikil ringulreið," segir einn íbúi. Talsmaður hersins á svæðinu kennir öfgahópnum Boko Haram um ódæðið. Hópurinn krefst þess að Nígería taki upp ströng lög byggð á siðgæðisboðum múslima. Til að fylgja þeirri kröfu eftir hefur hann staðið fyrir fjölda árása, aðallega í norðausturhluta Nígeríu. Meðal annars stóðu þeir fyrir sprengjuárás á kirkjur á jóladag sem drógu 42 til dauða.

Erlent

Stríðsmenn al Qaeda til Líbíu

Leiðtogar Al Qaeda hafa sent reynda stríðsmenn til Líbíu til að safna saman herafla þar. Þetta kemur fram á vef CNN. Einn liðsmanna al Qaeda hefur verið í Líbíu síðan í maí þegar tök Gaddafi á landinu byrjuðu að linast. Á þeim tíma hefur hann hóað saman vopnfærum mönnum og ræður nú um 200 manna liðsafla. Erlendar leyniþjónustur eru meðvitaðar um starfsemi hans í landinu.

Erlent

Suu Kyi býður sig fram í Mjanmar

Ríkisstjórn Mjanmar (Búrma) hefur boðað til aukakosninga til að fylla þingsæti sem hafa losnað síðan síðustu kosningar voru haldnar. Þjóðarhetjan og friðarsinnin Aung San Suu Kyi og flokkur hennar hyggjast bjóða sig fram. Slagurinn stendur um 48 þingsæti, sem losnuðu eftir að þingmenn voru gerðir að embættismönnum eða ráðuneytisstarfsmönnum.

Erlent

Kínverjar stefna á geiminn

Kínverjar opinberuðu afar metnaðarfulla áætlun um geimferðir og geimrannsóknir í vikunni. Þeir stefna meðal annars að því að skjóta mannfólki til tunglsins. Einnig er markmið þeirra að byggja geimstöðvar, safna sýnishornum af tunglinu og setja upp rannsóknarstöðvar í geimnum. Með þessu vilja þeir koma sjálfum sér á kortið í geimrannsóknum. "Fjárhagslegum framförum fylgir þörfin á framþróun og rannsóknum," sagði prófessor við geimvísindaskóla í Beijing við þetta tilefni.

Erlent

iPad fyrir apa

Órangútanar í dýragarðinum í Milwaukee hafa undanfarið fengið að leika sér með iPad spjaldtölvur. Þeir gætu fljótlega orðið þess megnugir að hringja myndsímtöl í loðna félaga sína annars staðar í heiminum. Richard Zimmerman sem rekur griðarstaðinn Orangutan Outreach stendur fyrir þessari nýlundu. "Við vildum gefa þeim færi á að vera eins og lítil börn," sagði Zimmerman.

Erlent

Átök í Sýrlandi

Átök brutust út í Sýrlandi í dag þegar öryggissveitir vörpuðu naglasprengjum og táragasi á um 70.000 mótmælendur sem kröfðust þess að endir yrði bundinn á ofbeldið í landinu og föngum sleppt úr haldi. Blásið var til mótmælanna í dag sökum þess að eftirlitsmenn Arababandalagsins áttu að taka út ástandið í landinu í dag og heimsækja mestu átakastaðina. Mótmælendur hafa krafist þess að eftirlitsmenn bandalagsins hafi sig á brott úr landinu. Þeir telja nærveru þeirra til þess fallna að kaupa Bashar al-Assad, forseta landsins, aukinn tíma og skjóta honum undan alþjóðlegum þrýstingi.

Erlent

Engar breytingar í vændum í Norður Kóreu

Heimsbyggðin skal ekki búast við því að breytinga sé að vænta í Norður Kóreu þrátt fyrir fráfall leiðtogans Kim Jon Il og komu sonar hans Kim Jong Un á stóra sviðið. Þetta segir í skeyti sem flutt var í ríkisfjölmiðlum landsins í nótt og talið er skrifað í umboði Varnarmálaefndarinnar þar í landi, sem ku vera eitt valdamesta stjórnsýslubákn landsins. "Hinir heimskulegu leiðtogar heimsins, þar með talið leiksopparnir í Suður-Kóreu, ættu ekki að láta sig dreyma um neinar breytingar frá Norður Kóreu í bráð," segir í yfirlýsingunni.

Erlent

Völd leiðtogans treyst

"Hinn virti félagi Kim Jong-un er æðsti leiðtogi flokks okkar, hers og lands og hefur hlotið í arf hugmyndafræði, forystu, skapgerð, dyggðir, kjark og hugrekki hins mikla félaga, Kim Jong-il,“ sagði Kim Yong-nam, formaður forsætisnefnar norður-kóreska þjóðþingsins, í ræðu sem hann flutti á minningarathöfn um Kim Jong-il í gær.

Erlent

Chavez telur Bandaríkin dreifa krabbameini

Hinn yfirlýsingaglaði Hugo Chavez hélt því fram í ræðu í gær að Bandaríkin væru ábyrg fyrir því að leiðtogar Suður-Ameríku hafa hver á fætur öðrum greinst með krabbamein. Hann velti því upp að Bandaríkin "gætu hafa fundið upp tækni sem dreyfir krabbameini" og varaði leiðtoga annarra ríkja við því að þeir gætu orðið næstu skotmörk. Chavez hefur sjálfur greinst með krabbamein, en getgátur hans núna koma í kjölfar þess að forseti Argentínu tilkynnti á þriðjudaginn síðastliðinn að hún hefði greinst með krabbamein. Auk þeirra hafa leiðtogar Brasilíu og Paragvæ einnig greinst með krabbamein. Þessi umdeilanlega kenning hans er ekki til þess fallin að bæta samskipti Venesúela og Bandaríkjanna, sem eru töluvert stirð fyrir. Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur þegar látið málið sig varða. Victoria Nuland, talsmaður ráðuneytistins, sagði yfirlýsingar Chavez "hræðilegar og vítaverðar" og sagði þær ekki verðskulda frekari athygli.

Erlent

Snjóhús Guðs í Bæjaralandi

Snjókirkja var opnuð fyrir almenning í bænum Mitterfirmiansreut í Þýskalandi í gær. Bæjarbúar reistu kirkjuna til að minnast byggingar svipaðrar kirkju sem reist var fyrir 100 árum.

Erlent

Jarðarför Kim Jong-Il - Ljósmyndir lagfærðar og risi meðal syrgjenda

Hundruðir þúsunda Norður-Kóreubúa voru samankomnir í Pyongyang til að fylgjast með útför fyrrverandi leiðtoga landsins, Kim Jong-Il. Athöfnin var skipulögð af hernaðarlegri nákvæmni. Svo mikil var nákvæmnin að fréttastofa Norður-Kóreu þurfti að fjarlægja nokkra blaðamenn af opinberum ljósmyndum.

Erlent

Krísa í Hollywood

Hollywood virðist hafa glatað sjarmanum á þessu ári. Ekki hafa færri heimsótt kvikmyndahús í Bandaríkjunum í 16 ár.

Erlent

Kim Jong-un hylltur - myndband

Kim Jong-un var miðpunktur allrar athygli á minningarathöfn sem fram fór í Norður Kóreu í dag vegna dauða föður hans. Athöfnin virtist í raun vera táknræn stund þar sem sonurinn tók við völdum, enda var hann hylltur sem "hinn stórkostlegi leiðtogi flokksins, ríkisins og hersins".

Erlent

Bardot fékk á sig brot - Steve Irwin til hjálpar

Brigitte Bardot, skip náttúruverndarsamtakanna Sea Shepherd, fékk á sig brotsjó í suðurhöfum þar sem það var að reyna að trufla veiðar japanskra hvalbáta. Gat kom á skipið en um tíu eru í áhöfnninni. Flaggskip Sea Shephard, Steve Irwin, er á leið til bjargar en reiknað er með því að það gæti tekið Irwin allt að tuttugu tíma að ná til Bardot.

Erlent

Kreppa, hamfarir, byltingar og mótmæli

Erlendar fréttir ársins 2011 hafa markast af náttúruhamförum, efnahagserfiðleikum og þjóðfélagsólgu, bæði í ríkjum arabaheimsins og kreppulöndum Vesturheims, eins og sjá má á myndum frá nokkrum helstu viðburðum ársins.

Erlent

Danir sáttir við kóngafólkið sitt

Mikill meirihluti Dana er hlynntur því að landið verði áfram konungsríki. Könnun sem sagt er frá í Politiken leiðir í ljós að 77 prósent segjast fylgjandi núverandi stjórnarfyrirkomulagi, en aðeins sextán prósent eru fylgjandi því að landið verði lýðveldi.

Erlent

Þúsundir mæta til að syrgja leiðtogann

Norður-Kórea Arftakinn Kim Jong-un var í fararbroddi syrgjenda við útför föður síns í Pjongjang, höfuðborg Norður-Kóreu. Hann gekk við líkbifreiðina, með aðra hönd á bílnum en notaði hina til að heilsa fólki.

Erlent

Samóar halda áramótin snemma

Þegar íbúar á Samóaeyjum í Kyrrahafinu, vakna á föstudaginn, munu þeir halda upp á áramótin sama kvöld. Ástæðan er sú að þeir hafa ákveðið að sleppa 30. desember.

Erlent

Áttræður api er allur

Cheetah, simpansinn sem lék í frægum Tarsan kvikmyndum á fjórða áratug síðustu aldar, er dauður. Hann var áttatíu ára gamall. Hann var staðsettur á dýragarði í Palm Harbour þegar að hann drapst. Þar hafði hann dvalið frá fyrri hluta sjöunda áratugarins. Breska blaðið Telegraph segir frá því að simpansar í dýragörðum verði alla jafna ekki meira en 45 ára gamlir en Cheetah hafi komist í Heimsmetabók Guinnes, því enginn api hafi náð hærri aldri en hann. Cheetah varð eldri en bæði Wessmuller sem lék Tarsan og samnefndum myndum og Maureen O'Sullivan, sem lék Jane.

Erlent

Cameron vill lög um lágmarksverð á áfengi

David Cameron, forsætisráðherra Breta, ætlar að leggja fram frumvarp sem felur í sér að sett verði lágmarksverð á áfengi. Með þessu vill Cameron stuðla að takmarkaðra aðgengi að áfengi og bættri heilsu. Nákvæm útfærsla á þessum aðgerðum Camerons liggur ekki fyrir en líklegt er að ódýrasta vínið verði skattlagt þannig að verðið hækki. Þessar aðgerðir Camerons eru hluti af stærra aðgerðaráætlun gegn áfengisböli. Upphaflega stóð til að kynna aðgerðaráætlunina í næsta mánuði en því hefur verið frestað fram í febrúar.

Erlent

Krókódíll réðst á garðsláttuvél

Krókódíll í Ástralska skriðdýragarðinum olli miklum usla á dögunum þegar að hann réðst á slátturvél sem starfsmaður garðsins var með og sökkti henni í gryfjunni hjá sér. Krókódíllinn sem er fimm metra langur heitir Elvis, eftir söngvaranum sáluga. Hann dró slátturvélina ofan í vatn í gryfju sinni og vaktaði hana í meira en klukkustund.

Erlent

Kim Jong-Il borinn til grafar

Tveggja daga útför norður-kóreska einræðisherrans Kim Jong-Il er hafinn. Viðbúnaður vegna hennar er gríðarlegur í höfuðborginni Pyongyang. Myndir þaðan sýna að þúsundir hermanna hafa safnast saman og lutu þeir höfði þegar stór mynd af leiðtoganum fallna var borin um götur borgarinnar. Myndirnar, sem birtar voru á ríkissjónvarpsstöð í landinu, sýndu jafnframt að arftaki hans og þriðji sonurinn, Kim Jong-un, gekk með fylkingu hermannanna. Fjölmiðlar í Norður-Kóreu segja að Kim Jong-il hafi látist úr hjartaáfalli þann 17. desember síðastliðinn.

Erlent