Handbolti

Danir þurfa að treysta á Íslendinga á miðvikudaginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Niklas Landin átti frábæran leik í danska markinu.
Niklas Landin átti frábæran leik í danska markinu. vísir/getty

Heims- og Ólympíumeistarar Dana gerðu jafntefli við Ungverja, 24-24, í seinni leik dagsins í E-riðli Evrópumótsins í handbolta í kvöld.

Úrslitin þýða að Íslendingar eru komnir áfram í milliriðil. Til að komast áfram þurfa Danir að vinna Rússa á miðvikudaginn og treysta á að Íslendingar vinni Ungverja. Jafntefli dugir Ungverjalandi hins vegar til að komast áfram í milliriðla.

Ungverjar leiddu allan nær tímann í leiknum og Danir komust aðeins einu sinni yfir í leiknum, 24-23. Zoltan Zsita skoraði jöfnunarmark Ungverjalands þegar ein og hálf mínúta var eftir.

Niklas Landin átti frábæran leik í danska markinu og varði 20 skot (45%) og Danir geta öðrum fremur þakkað honum stigið.

Zsolt Balogh var markahæstur Ungverja með sjö mörk. Magnus Bramming skoraði sex mörk fyrir Dani.

Hollensku strákarnir hans Erlings Richardssonar áttu litla möguleika gegn Evrópumeisturum Spánar í C-riðli og töpuðu, 25-36.

Spánn vann riðilinn og fer með tvö stig í milliriðil. Holland er hins vegar úr leik. Hollendingar töpuðu tveimur leikjum og unnu einn. Það var jafnframt fyrsti sigur Hollendinga á EM frá upphafi.

Króatar unnu Serba, 21-24, í A-riðli. Króatía vann alla þrjá leiki sína í riðlinum og fer með tvö stig í milliriðil. Serbía tapaði öllum leikjum sínum og er á heimleið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×