Fleiri fréttir

Cannavaro á leið til Real Madrid?

Yfirmaður knattspyrnumála hjá Real Madrid segir að það sé aðeins dagaspursmál hvenær félagið landi varnarjaxlinum og fyrirliða ítalska landsliðsins, Fabio Cannavaro. Nýráðinn þjálfari Real þekkir Cannavaro vel frá dögum sínum hjá Juventus og eru menn í herbúðum Real bjartsýnir á að landa hinum smáa en knáa 32 ára gamla miðverði fljótlega.

FH hefur yfir 2-1

FH-ingar eru í ágætum málum úti í Eistlandi gegn Tallin í fyrri leik liðanna í forkeppni meistaradeildarinnar. Tryggvi Guðmundsson kom FH yfir í fyrri hálfleik og Sigurvin Ólafsson kom FH í 2-0 á 69. mínútu. Aðeins mínútu síðar minnkuðu heimamenn muninn og nú þegar rúmar tíu mínútur eru eftir af leiknum hafa Hafnfirðingar því forystu og eru í ágætum málum fyrir síðari leikinn á heimavelli.

Poborsky hættur

Tékkneski landsliðsmaðurinn Karel Poborsky hefur tilkynnt að hann sé hættur að spila með landsliðinu. Poborsky er 34 ára gamall og lék 118 landsleiki fyrir hönd Tékka, sem er met. Hann spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir tékkneska landsliðið árið 1994 og lék um tíma með enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United. Hann leikur nú með liði Ceske Budejovice í heimalandinu.

FH yfir í hálfleik í Tallin

Íslandsmeistarar FH hafa yfir 1-0 í leikhléi í fyrri leik sínum gegn eistneska liðinu Tallin, en leikið er ytra. Tryggvi Guðmundsson skoraði mark Hafnfirðinga eftir um hálftíma leik og stendur FH því ágætlega að vígi.

FIFA hefur rannsókn á máli Zidane

Alþjóða knattspyrnusambandið hefur nú hrundið af stað rannsókn á atburðarásinni í kring um rauða spjaldið sem Zinedine Zidane fékk að líta í úrslitaleiknum á HM. Zidane skallaði þá Marco Materazzi frá Ítalíu og hefur sá verið sakaður um kynþáttaníð í kjölfarið, en heldur alfarið fram sakleysi sínu.

Samningur Domenech framlengdur

Franska knattspyrnusambandið hefur gefið það út að samningur landsliðsþjálfarans Raymond Domenech verði framlengdur síðar í sumar og að það sé einróma álit sambandsins að hann verði áfram við stjórnvölinn hjá liðinu. Domenech er 54 ára gamall og hefur stýrt liðinu frá því árið 2004.

Nadal slapp vel eftir umferðaróhapp

Tenniskappinn Rafael Nadal þótti sleppa vel í gær þegar bíll sem hann var í fór út af veginum og hafnaði á staur. Nadal var á heimleið til Mallorca á Spáni eftir að hafa tapað í úrslitaleik Wimbledon-mótsins, en ekki er vitað hvort hann ók bílnum sjálfur eða var farþegi. Nadal slapp alveg ómeiddur frá óhappinu.

Hamann fer ekki til Bolton

Þýski miðjumaðurinn Dietmar Hamann hjá Liverpool hefur nokkuð óvænt hætt við að ganga í raðir Bolton. Liverpool hafði gefið grænt ljós á að leikmaðurinn færi og aðeins átti eftir að ganga frá formsatriðum í nýjum samningi hans við Bolton, en nú hefur félagið gefið það út að ekkert verði af félagaskiptunum því Þjóðverjinn hafi skipt um skoðun.

Hasselbaink kominn til Charlton

Enska úrvalsdeildarfélagið Charlton hefur gengið frá samningi við hollenska framherjann Jimmy Floyd Hasselbaink frá Middlesbrough, en hann var með lausa samninga. Hasselbaink er 34 ára gamall og er sjöundi markahæsti leikmaðurinn í sögu ensku úrvaldseildarinnar með 125 mörk í 263 leikjum hjá Leeds, Chelsea og Middlesbrough.

Herra HM reyndi sjálfsvíg

Jurgen Kiessling, einn af aðalskipuleggjendum HM í Þýskalandi, liggur nú mjög þungt haldinn á sjúkrahúsi eftir að hafa reynt að stytta sér aldur á heimili sínu skömmu eftir að keppninni lauk. Kiessling var kallaður "Herra HM" í Þýskalandi og þótti keppnin í alla staði heppnast með miklum ágætum. Ekki er vitað hvers vegna Kiessling greip til þessa örþrifaráðs.

Fylkir lagði Víking

Lið Fylkis er komið í annað sæti Landsbankadeildarinnar eftir 1-0 sigur á Víkingi á heimavelli sínum í Árbænum í kvöld. Leikurinn var hnífjafn, en Sævar Þór Gíslason skoraði eina mark leiksins með sinni fyrstu snertingu eftir að hann kom inn sem varamaður á 70. mínútu. Fylkir er því í í öðru sæti deildarinnar með 16 stig, en Víkingur í þriðja með 14 stig.

Ég er fáfróður

Marco Materazzi hefur þvertekið fyrir að hafa kallað Zinedine Zidane hryðjuverkamann í úrslitaleiknum á HM í gær eins og komið hefur fram í fréttum. Materazzi segist vera svo vitlaus að hann viti ekki einu sinni hvað orðið hryðjuverkamaður þýði.

Jafnt í Árbænum í hálfleik

Ekkert mark hefur enn litið dagsins ljós í viðureign Fylkis og Víkings í Landsbankadeild karla í knattspyrnu, en leikið er í Árbænum. Hvort lið hefur átt fjögur markskot í fyrri hálfleiknum. Leikurinn er sýndur beint á Sýn.

Lehmann á að spila áfram

Markvörðurinn snjalli Oliver Kahn segir að Jens Lehmann eigi að halda áfram að spila með Þýskalandsliðinu. Kahn lék sem kunnugt kveðjuleik sinn fyrir Þjóðverja á HM er liðið sigraði Portúgal 3-1 um bronsverðlaunin.

Makelele hættur með landsliðinu

Claude Makelele er hættur að leika með franska landsliðinu en hann tilkynnti þetta í dag. Fyrirfram var búist við að HM yrði hans síðasta mót og svo varð raunin. Makelele er 34 ára gamall og hefur leikið 50 landsleiki fyrir Frakka.

Hneykslið keyrði okkur áfram

Harðjaxlinn Gennaro Gattuso hjá ítalska landsliðinu segir að knattspyrnuhneykslið heima á Ítalíu hafi gefið liðinu aukinn styrk og þjappað því saman á HM. Nú í vikunni fá fjögur af stórliðunum á Ítalíu að vita örlög sín í kjölfar spillingarmálsins stóra og mun dómurinn hafa úrslitaþýðingu fyrir framtíð margra af leikmönnum landsliðsins.

Hann er drengur góður

Umboðsmaður ítalska varnarmannsins Marco Materazzi gefur lítið fyrir ásakanir sem bornar hafa verið upp á skjólstæðing hans um að hann hafi ögrað Zidane til að skalla sig með ljótu orðbragði í úrslitaleik HM í gærkvöldi. Umboðsmaðurinn segir að Materazzi sé drengur góður.

Málaferlin á Ítalíu tefjast

Málaferlin í hneykslismálinu á Ítalíu munu halda áfram á morgun (þriðjudag) og verður dómur væntanlega kveðinn upp þá. Kveða átti dóminn upp í dag (mánudag) en vegna lagaflækja og lagalegs málþófs þá var málinu frestað um einn dag.

Ítölsku liðin standa ekki saman í málaferlunum

Þrjú af fjórum liðunum sem að eru ákærð fyrir spillingu í ítalska boltanum héldu því fram fyrir rétti á fimmtudag að fella ætti niður ákærur á hendur þeim og að Juventus ætti að sæta ábyrgð í málinu.

Fylkir - Víkingur í beinni á Sýn

Leikur Fylkis og Víkings í Landsbankadeild karla í knattspyrnu verður sýndur beint á Sýn í kvöld og hefst útsending klukkan 19:45. Þetta er næstsíðasti leikurinn í 10. umferðinni. Nýliðar Víkings sitja nokkuð óvænt í öðru sæti Landsbankadeildarinnar með 14 stig og Fylkir er í fimmta sæti með einu stigi minna og getur því skotist í annað sætið með sigri í Árbænum í kvöld.

FIFA segir myndband ekki hafa verið notað

FIFA segja að endursýningar á myndbandi hafi ekki átt neinn þátt í því þegar Zidane var rekinn út af í úrslitaleik HM á sunnudag fyrir að skalla Marco Materazzi.

2.3 mörk að meðaltali í leik

Alls voru skoruð 147 mörk á HM í Þýskalandi sem lauk í gær. Þetta gerir 2.3 að meðaltali í leik. Á HM árið 2002 voru skoruð 161 mark eða 2.52 að meðaltali í leik. HM árið 1998 voru skoruð 171 mark sem gerir 2.67 að meðaltali í leik. Alls voru það 110 leikmenn sem skorðuð þessi 147 mörk. Miroslav Klose var markhæstur með 5 mörk.

Ítalska landsliðinu ákaft fagnað við heimkomuna

Hundruðir æstra aðdáenda og stuðningsmanna ítalska landsliðsins í knattspyrnu voru samankomnir á flugvellinum þegar liðið lenti þar með HM-styttuna í farteskinu í dag. Búist er við að um hálf milljón manna verði samankomin í miðbæ Rómar í kvöld þar sem sérstök sigurhátíð verður haldin til heiðurs hetjunum.

Heimsmeistararnir og heimsmet í vitleysu

Berlín er þögnuð, eftir hávaðasama nótt, flugelda og öskur, er kominn nýr dagur, fyrsti dagur án HM. Ítalía tók dolluna, flott að horfa á Cannavario lyfta styttunni góðu og fögnuður Ítalanna fölskvalaus.

Materazzi kallaði Zidane hryðjuverkamann

Samtökin SOS, sem berjast gegn kynþáttafordómum, fullyrða eftir heimildarmönnum sínum að Zinedine Zidane hafi skallað ítalska varnarmanninn Marco Materazzi í úrslitaleiknum á HM í gær eftir að sá ítalski kallaði hann "hryðjuverkamann."

Heimurinn ætti að þakka Zidane

Thierry Henry, félagi Zinedine Zidane hjá franska landsliðinu, segir að heimurinn standi í þakkarskuld við hann og hvetur fólk til að einblína ekki á brottrekstur hans í úrslitaleiknum í gær, heldur skoða heldur glæstan feril hans sem knattspyrnumanns.

Deschamps tekinn við Juventus

Frakkinn Didier Deschamps hefur verið ráðinn næsti þjálfari ítalska stórliðsins Juventus. Deschamps varð heimsmeistari með franska landsliðinu árið 1998 og gerði garðinn frægan sem leikmaður Juventus á sínum tíma. Frekari frétta er að vænta af ráðningu Deschamps síðar í dag.

Farinn aftur til Færeyja

Færeyski leikmaðurinn Rógvi Jacobsen sem leikið hefur með liði KR í Landsbankadeildinni er farinn aftur til Færeyja og leikur því ekki meira með vesturbæjarliðinu. Rógvi hefur ekki átt fast sæti í liði KR í sumar og er genginn í raðir HB í Færeyjum. Þetta kemur fram á vef KR-inga í dag.

Á leið til Boro á næstu dögum

Breska sjónvarpið greinir frá því í dag að þýski miðvörðurinn Robert Huth sé nú í þann mund að ganga í raðir Middlesbrough frá Englandsmeisturum Chelsea, eftir að leikmaðurinn var staddur í herbúðum Boro í dag til að gangast undir læknisskoðun. Líklegt er talið að gengið verði frá málinu á næstu 24 tímum og að kaupverðið verði um 5 milljónir punda.

Real og Bayern á höttunum eftir Nistelrooy

Nú virðist sem Real Madrid ætli að veita Þýskalandsmeisturum Bayern Munchen samkeppni um hollenska framherjann Ruud Van Nistelrooy hjá Manchester United, en framtíð hans hjá enska félaginu virðist vera mjög óljós.

Hefur hug á að halda áfram

Marcello Lippi ætlar ekki að leggja árar í bát í þjálfunni og hefur látið í veðri vaka að hann muni halda áfram að þjálfa ítalska landsliðið. Lippi er 58 ára og núverandi samningur hans við ítalska knattspyrnusambandið rennur út í næsta mánuði.

Zidane fékk gullknöttinn

Frakkinn Zinedine Zidane fékk í gær gullknöttinn á HM, en það eru verðlaunin sem afhent eru besta leikmanni mótsins hverju sinni. Það eru blaðamenn sem standa að valinu og hlaut Zidane flest atkvæði, Fabio Cannavaro varð annar og Andrea Pirlo þriðji. Þess má geta að atkvæðin voru flest komin í hús í hálfleik úrslitaleiksins i gær og því hafði árás Zidane á Marco Materazzi lítil áhrif á útkomuna.

FIFA neitar ásökunum Domenech

Forráðamenn Alþjóða Knattspyrnusambandsins hafa alfarið neitað ásökunum Raymond Domenech, þjálfara Frakka, um að dómarinn í úrslitaleiknum í gær hafi stuðst við myndbandsupptökur þegar hann rak Zinedine Zidane af velli fyrir að skalla Marco Materazzi.

Hvað sagði Marco Materazzi?

Miklar vangaveltur hafa nú staðið yfir í allan dag um hvað það var sem varnarmaðurinn Marco Materazzi hjá ítalska landsliðinu sagði við Zinedine Zidane í úrslitaleiknum á HM í gærkvöldi, sem varð þess valdandi að Zidane réðist á hann og skallaði hann. Menn sem tengjast Zidane vilja lítið tjá sig um málið, en þó eru einhverjir sem telja sig vita hvað Materazzi sagði við hann.

Niðrandi ummæli um móður Zidane orsök reiðikastsins?

Talið er að niðrandi ummæli um móður Zinedine Zidane, fyrirliða franska knattspyrnulandsliðsins, hafi orðið til þess að Zidane skallaði Materazzi leikmann Ítala í leik liðanna á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í gær.

Zinedine Zidane lýkur keppni

Franski snillingurinn Zinedine Zidane fór heldur betur illa að ráði sínu í síðari hálfleik framlengingar í úrslitaleiknum á HM. Staðan er enn 1-1, en Zidane var rekinn af velli á 110. mínútu fyrir að skalla Marco Materazzi, varnarmann Ítala. Þar með hefur Zinedine Zidane lokið knattspyrnuferli sínum á fremur ósmekklegan hátt.

Framlengt í Berlín

Leikur Frakka og Ítala um heimsmeistaratitilinn í knattspyrnu hefur verið framlengdur eftir að staðan að loknum venjulegum leiktíma var jöfn 1-1. Frakkar byrjuðu síðari hálfleikinn mun betur, en ítalska liðið sótti í sig veðrið þegar á leið. Luca Tony skoraði reyndar mark fyrir Ítala, sem dæmt var af vegna rangstöðu.

Montoya er á sínu síðasta tímabili í Formúlu 1

Kólumbíski ökuþórinn Juan Pablo Montoya hefur tilkynnt að hann ætli að hætta sem ökumaður í Formúlu 1 að loknu yfirstandandi keppnistímabili. Samningur Montoya við McLaren liðið rennur út á þessu ári og ætlar kappinn að reyna fyrir sér í Nascar í Bandaríkjunum.

Jafnt í hálfleik í Berlín

Nú hefur verið flautað til leikhlés í úrslitaleik Ítala og Frakka í Berlín. Staðan er 1-1 eftir nokkuð fjörlegan fyrri hálfleik. Zinedine Zidane kom Frökkum yfir úr vítaspyrnu á 7. mínútu, en Marco Materazzi jafnaði metin fyrir Ítala á þeirri 18. Síðan hefur heldur dofnað yfir leiknum, en þó átti Luca Tony skalla í þverslána á franska markinu á 36. mínútu.

Materazzi jafnar fyrir Ítala

Úrslitaleikurinn á HM er strax farinn að verða í meira lagi dramatískur, því ítalski varnarmaðurinn Marco Materazzi sem gaf Frökkum vítaspyrnu í upphafi leiks, er búinn að jafna metin í 1-1 með skalla eftir hornspyrnu Ítala á 18. mínútu. Frábær byrjun á úrslitaleiknum.

Zidane kemur Frökkum yfir

Hinn ótrúlegi Zinedine Zidane hefur komið Frökkum yfir 1-0 gegn Ítölum í úrslitaleiknum á HM eftir aðeins sjö mínútur. Frakkar fengu vítaspyrnu eftir að Marco Materazzi braut á Florent Malouda í teignum og Zidane skoraði úr vítaspyrnunni af fádæma öryggi þegar hann vippaði boltanum í þverslána og inn.

Englendinga skorti hungur

Sir Bobby Robson, fyrrum landsliðsþjálfari Englendinga, segir að liðið hafi skort nauðsynlegt hungur til að ná langt á HM. Robson bendir á að nokkrir af leikmönnum liðsins hafi alls ekki sýnt sitt rétta andlit og segir leikstíl enska liðsins ekki hafa hentað liðinu til að ná að nýta styrkleika þess.

Hasselbaink á leið til Charlton?

Breskir fjölmiðlar greina frá því í dag að hollenski framherjinn Jimmy Floyd Hasselbaink sé á leið til Lundúnaliðsins Charlton og fullyrða að hann muni gangast undir læknisskoðun hjá félaginu á morgun. Hasselbaink er með lausa samninga eftir að Gareth Southgate, stjóri Middlesbrough, ákvað að framlengja ekki samning þessa fyrrum leikmanns Chelsea.

Bannað að ræða við enska knattspyrnusambandið

Fabio Capello gaf það út í samtali við breska blaðið News of the World í dag að honum hefði verið neitað um tækifæri til að ræða við enska knattspyrnusambandið um að taka við stjórn enska landsliðsins af Sven-Göran Eriksson. Capello var samningsbundinn Juventus á þessum tíma og neituðu forráðamenn ítölsku meistaranna enskum að ræða við þjálfarann.

Sjá næstu 50 fréttir