Fleiri fréttir

Podolski skorar aftur

Lukas Podolski er búinn að koma Þjóðverjum í 2-0 gegn Svíum. Markið kom eftir laglegan undirbúning frá Miroslav Klose alveg eins og fyrsta markið, en vörn sænska liðsins er í molum. Mörkin komu á 4. og 11. mínútu.

Podolski kemur Þjóðverjum yfir

Þjóðverjar eiga sannkallaða draumabyrjun í leiknum gegn Svíum í Munchen, en Lukas Podolski kom þeim yfir strax á 4. mínútu eftir laglegan undirbúning frá Miroslav Klose. Þetta er annað mark hins unga Podolski í keppninni og fer leikurinn afar fjörlega af stað.

Senderos er úr leik vegna meiðsla

Svissneski varnarmaðurinn Philippe Senderos leikur ekki meira með liðinu á HM eftir að hann fór úr axlarlið í leiknum gegn Suður-Kóreu í gær. Senderos byrjaði á því að hljóta ljótan skurð í andliti þegar hann skoraði annað marka liðsins í gær og datt svo illa á öxlina með fyrrgreindum afleiðingum. Þetta er svissneska liðinu mikið áfall, en talið er að hann verði engu að síður klár í slaginn með Arsenal þegar leikur hefst í ensku úrvalsdeildinni.

Leikur Þjóðverja og Svía að hefjast

Fyrsti leikurinn í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins er nú að hefjast í beinni útsendingu á Sýn og er þar um að ræða viðureign gestgjafanna Þjóðverja og Svía. Hvort lið gerði eina breytingu fyrir leikinn. Christoph Metzelder kemur inn í byrjunarlið Þjóðverja og Zlatan Ibrahimovic er kominn aftur inn í sænska liðið, sem hefur ekki unnið það þýska síðan árið 1978.

Ljóst hvaða lið mætast í 16-liða úrslitum

Nú áðan varð endanlega ljóst hvaða lið mætast í 16-liða úrslitunum á HM, en þau hefjast strax á morgun með leik Þjóðverja og Svía klukkan 15:00. Allir leikirnir verða sýndir í beinni útsendingu á Sýn.

Carrick í byrjunarliðinu gegn Ekvador?

Breska sjónvarpið greinir frá því í kvöld að Michael Carrick muni að öllum líkindum verða í byrjunarliði Englendinga í leiknum gegn Ekvador í 16-liða úrslitum HM sem leikinn verður í Stuttgart á sunnudaginn. Þá er talið að Owen Hargreaves muni taka stöðu Jamie Carragher í hægri bakverðinum og að enska liðið muni spila leikkerfið 4-5-1 með Wayne Rooney einn í framlínunni.

Frakkar áfram

Frakkar eru komnir í 16-liða úrslitin á HM eftir að liðið lagði Tógó 2-0 í kvöld með mörkum frá afmælisbarninu Patrick Vieira og Thierry Henry. Á sama tíma tryggðu Svisslendingar sér toppsætið í riðlinum með 2-0 sigri á Suður-Kóreu. Frakkar fá það erfiða verkefni að mæta Spánverjum í 16-liða úrslitunum, en Svisslendingar mæta Úkraínumönnum.

Vieira brýtur ísinn

Patrick Vieira var að koma Frökkum yfir í leiknum mikilvæga gegn Tógó. Vieira skoraði markið með góðu skoti úr vítateignum eftir snarpa sókn en þeir bláklæddu höfðu áður misst marks í fjölda dauðafæra. Frakkar verða að vinna leikinn til að komast áfram úr riðlinum, og allt stefnir í það miðað við stöðu mála.

Frakkar í miklum vandræðum

Nú er kominn hálfleikur í viðureign Frakka og Tógómanna í H-riðlinum á HM og enn hefur ekkert mark verið skorað. Það þýðir að franska liðið er á leið heim eftir riðlakeppnina ef staðan breytist ekki. Í hinum leiknum hafa Svisslendingar 1-0 forystu gegn Suður-Kóreu, þar sem varnarmaðurinn knái Philippe Senderos hjá Arsenal skoraði með skalla og er svissneska liðið því í fínum málum fyrir síðari hálfleikinn.

Claudio Reyna hættur

Claudio Reyna, leikmaður Manchester City og bandaríska landsliðsins í knattspyrnu, tilkynnti í dag að hann væri hættur að leika með landsliðinu. Reyna er almennt álitinn einn besti leikmaður bandaríska liðsins frá upphafi og hefur verið lykilmaður í landsliðinu frá því um miðjan síðasta áratug.

West Brom neitar tilboði Wigan í þrjá leikmenn

Sky-sjónvarpsstöðin greinir frá því í dag að enska 1. deildarliðið West Brom hafi í dag neitað um 10 milljón punda tilboði Wigan í þá Zoltan Gera, Curtis Davies og Nathan Ellington. Forráðamenn West Brom eiga að hafa sagt þvert nei og þvertaka fyrir að leikmenn félagsins séu til sölu þrátt fyrir fallið í fyrstu deild í vor.

Áhorf jókst verulega frá í fyrra

ABC-sjónvarpsstöðin í Bandaríkjunum hefur gefið það út að áhorf á úrslitaeinvígið í NBA sem lauk á dögunum, hafi verið umtalsvert meira en það var í fyrra. Áhorf á úrslitakeppnina sjálfa jókst um 12% frá árinu í fyrra og 13% meira áhorf var að jafnaði á leikina í úrslitunum. Þrettán milljónir áhorfenda sáu að jafnaði hvern leik í rimmu Miami Heat og Dallas Mavericks.

Leikur Frakka og Tógó að hefjast á Sýn

Frakkar þurfa á sigri að halda í dag ef þeir ætla sér áfram í keppninni. Zinedine Zidane tekur út leikbann í dag og hefur Domenech þjálfari ákveðið að stilla upp leikkerfinu 4-4-2 með David Trezeguet og Thierry Henry í fremstu víglínu. Patrick Vieira er fyrirliði franska liðsins á 30. afmælisdegi sínum.

Varamennirnir nýttu tækifæri sitt vel

Spænski varnarmaðurinn Juanito var ánægður með frammistöðu félaga sinna í sigrinum á Sádum í lokaleiknum í riðlakeppninni í dag. Hann segir að þeir varamenn sem fengu tækifæri í leiknum hafi nýtt það vel og staðið fyllilega undir væntingum.

Thuram setur met í kvöld

Varnarmaðurinn sterki Lilian Thuram hjá franska landsliðinu, setur franskt met í kvöld þegar liðið mætir Tógó í lokaleik sínum í G-riðli. Thuram spilar þá sinn 117. landsleik og slær met fyrrum félaga síns Marcel Desailly í landsliðinu.

Ástralar eru vanmetnir

Markvörðurinn Gianluigi Buffon hjá ítalska landsliðinu segir að ástralska landsliðið sé vanmetið á HM og eigi eftir að reynast mjög erfiður andstæðingur í þegar liðin mætast í 16-liða úrslitunum á mánudag. Þjálfari Ástrala er sem kunnugt er Hollendingurinn Guus Hiddink, en undir hans stjórn náði lið Suður-Kóreu að slá það ítalska út í keppninni fyrir fjórum árum.

Úkraína fylgir Spánverjum í 16-liða úrslitin

Spánverjar og Úkraínumenn eru komnir í 16-liða úrslitin á HM eftir að hafa unnið lokaleiki sína í riðlakeppninni í dag. Spánverjar lögðu Sáda 1-0 með marki Juanito í fyrri hálfleik og vafasöm vítaspyrna Andriy Shevchenko tryggði Úkraínumönnum sigur á Túnis og sendi Afríkumennina heim úr keppninni.

Zlatan líklega með gegn Þjóðverjum

Zlatan Ibrahimovic verður í byrjunarliði Svía þegar liðið mætir Þjóðverjum í 16-liða úrslitum HM á morgun. Þetta segir Lars Lagerback, þjálfari Svía, sem undirbýr lið sitt nú fyrir mjög erfiðan leik á Allianz-Arena í Munchen.

Ecclestone hraunar yfir Bandaríkjamenn

Formúlumógúllinn Bernie Ecclestone hefur nú kastað olíu á eldinn þegar kemur að keppnishaldi í Bandaríkjunum á heimsmeistaramótinu í Formúlu 1. Hin árlega keppni þar í landi fer fram 2. júlí, en það er síðasta keppnin þar í landi á gildandi samningi og miklar umræður hafa verið um að hún gæti orðið sú síðasta.

Spánverjar yfir gegn Sádum

Aðeins eitt mark er komið í leikjunum tveimur sem nú standa yfir í H-riðlinum á HM. Spánverjar hafa yfir 1-0 gegn Sádum, þar sem Juanito skoraði með laglegum skalla eftir aukaspyrnu frá Jose Antonio Reyes á 36. mínútu. Staðan í leik Túnisa og Úkraínumanna er enn 0-0, en bæði þessi lið eiga möguleika á að fylgja Spánverjum upp úr riðlinum. Túnisar verða manni færri allan síðari hálfleikinn eftir að Jaziri var vikið af leikvelli fyrir ljótt brot skömmu fyrir leikhlé.

Arsenal hreinsað af ásökunum

Alþjóða knattspyrnusambandið hefur gefið út tilkynningu þar sem fram kemur að rannsókn á meintum peningaþvætti úrvalsdeildarfélagsins Arsenal sé lokið. Ekkert óeðlilegt kom í ljós í rannsókninni, sem leitaðist við að koma upp um meint ólögmætt samstarf enska félagsins við belgíska félagið Beveren.

Argentína, 12 stig

Í dag breytir HM um stefnu, sextán liða úrslit, búið að skilja lélegu liðin frá, sextán bestu eftir. Í Frankfurt eru menn harðir á því að Þjóðverjarnir séu með gott lið, samt er enginn sem ég hef talað við ánægður með leik sinna manna, sem er furðulegt, og Klinsmann fær trúlega ekki reista styttu af sér jafnvel þótt þeir taki dolluna.

Poll á heimleið?

Enski dómarinn Graham Poll gæti verið á heimleið frá HM eftir fremur dapra frammistöðu hans með flautuna í leik Króata og Ástrala í gær. Poll gaf til að mynda Josip Simunic þrjú gul spjöld í leiknum áður en hann rak hann loks af velli og þótti neita Áströlum um tvær vítaspyrnur í leiknum. Málið er í skoðun og mun Poll væntanlega fá að vita niðurstöðurnar um helgina.

FH mætir TVMK Tallin

Í dag var dregið í forkeppnum Evrópumótanna í knattspyrnu. Íslandsmeistarar FH mæta TVMK frá Tallin frá Eistlandi í fyrstu umferð meistaradeildarinnar og mun sigurvegarinn úr þeirri viðureign svo mæta pólska liðinu Legia Varsjá. Leikirnir fara fram 12. og 19. júlí. Valsmenn og Skagamenn mæta liðum frá Danmörku í fyrstu umferð Evrópukeppni félagsliða.

Beckham á bekkinn hjá Englandi

Sven-Goran Eriksson landsliðseinvaldur Englendinga sagði við breska fjölmiðla að hann sé reiðubúinn að setja fyrirliða sinn David Beckham á bekkinn ef hann telur hann ekki vera að standa sig.

Enn óvíst með þátttöku Rio Ferdinand

Það er enn óvíst hvort varnarmaður Man.Utd. Rio Ferdinand verði orðinn leikfær fyrir sunnudaginn þegar England mætir Ekvador í 16-liða úrslitum HM í Stuttgart. Ferdinand meiddist í nára í jafntefli Englendinga við Svía í síðasta leiknum í riðlakeppninni.

De Rossi fær 4 leikja bann á HM

Aganefnd Alþjóða knattspyrnusambandsins dæmdi í morgun Ítalann Daniele De Rossi í fjögurra leikja keppnisbann fyrir að slá Bandaríkjamanninn Brian McBride í leik Ítalíu og Bandaríkjanna á HM á dögunum.

HM leikir dagsins

Riðlakeppninni á HM í Þýskalandi líkur í dag. Þetta eru leikir í G og H riðli, Úkraína og Túnis mætast kl. 14:00 sem og Sádí Arabía og Spánn. Frakkland mætir Tógó kl. 19:00 og á sama tíma leika Sviss og Suður Kórea. Mikið mæðir á Frökkum sem þurfa nauðsynlega á sigri að halda til að komast í 16 liða úrslit.

Ronaldo hleður inn metunum

Brasilíski framherjinn Ronaldo er ekki aðeins orðinn markahæsti leikmaður í sögu HM ásamt Þjóðverjanum Gerd Muller, heldur hefur hann spilað fleiri leiki í röð á HM en nokkur annar leikmaður sem tekur þátt í keppninni nú. Ronaldo var í byrjunarliði Brassa í 17. skipti í röð í leiknum við Japan í kvöld.

Orðaður við starf hjá enska landsliðinu

Sky-sjónvarpsstöðin telur sig hafa heimildir fyrir því að Steve McClaren hafi leitað til Alan Shearer um að taka við stöðu aðstoðarmanns þegar hann tekur við enska landsliðinu eftir að heimsmeistarakeppninni lýkur.

Þolinmæðin er lykillinn

Brasilíski framherjinn Ronaldo varð í kvöld markahæsti leikmaður í sögu HM ásamt Þjóðverjanum Gerd Muller, þegar hann skoraði sitt 14. mark í keppninni á ferlinum. Ronaldo hafði verið gagnrýndur harðlega fyrir leikinn, en sýndi enn og aftur hvers hann er megnugur í kvöld þegar hann skoraði tvívegis í 4-1 sigri Brassa á Japan.

Margrét Lára skaut Keflvíkinga í kaf

Einn leikur fór fram í Landsbankadeild kvenna í kvöld. Valsstúlkur burstuðu lið Keflavíkur 7-0 og þar af skoraði markamaskínan Margrét Lára Viðarsdóttir fimm mörk. Valur er því enn í toppsæti deildarinnar með fullt hús stiga eftir sex umferðir.

Grindvíkingar burstuðu KR

Íslandsmeistarar FH bættu í forskot sitt á toppi Landsbankadeildarinnar í kvöld, þrátt fyrir að gera aðeins markalaust jafntefli við Víking á útivelli. Stærstu tíðindin í kvöld voru tvímannalaust 5-0 stórsigur Grindvíkinga á KR suður með sjó.

Auðvelt hjá Brössum - Ronaldo í sögubækurnar

Brasilíumenn náðu að yfirvinna dapra byrjun og vinna auðveldan 4-1 sigur á liði Japana í lokaleik sínum í F-riðli á HM. Japanar komust yfir með marki frá Tamada, en Ronaldo jafnaði í uppbótartíma í fyrri hálfleik. Þeir Juninho og Gilberto bættu svo við tveimur mörkum þegar nokkuð var liðið á síðari hálfleik og kóngurinn Ronaldo toppaði frábæra frammistöðu sína með öðru marki sínu í lokin. Hann er þar með orðinn markahæsti leikmaður í sögu HM með 14 mörk.

Ástralar í 16-liða úrslit

Ástralar tryggðu sér í kvöld sæti í 16-liða úrslitum HM með því að gera 2-2 jafntefli við Króata í lokaleik þjóðanna í F-riðli. Dario Srna kom Króötum yfir með góðu marki beint úr aukaspyrnu, en Craig Moore jafnaði fyrir Ástrala úr vítaspyrnu skömmu fyrir leikhlé. Nico Kovac kom Króötum aftur yfir í síðari hálfleik, en Harry Kewell jafnaði metin skömmu fyrir leikslok og tryggði Áströlum sæti í 16-liða úrslitum.

Heiðar Davíð í 18. sæti í Danmörku

Heiðar Davíð Bragason úr Kili varð í 18.-20. sæti á opna golfmótinu í Herning í Danmörku sem lauk í dag. Heiðar lék lokahringinn á þremur höggum yfir pari og lauk keppni á fjórum höggum yfir pari.

Verður Nistelrooy á bekknum gegn Portúgal?

Marco Van Basten, landsliðsþjálfari Hollendinga, hefur látið í veðri vaka að framherjinn Ruud Van Nistelrooy hjá Manchester United sé búinn að missa sæti sitt í byrjunarliðinu fyrir leikinn gegn Portúgal í 16-liða úrslitum HM.

Átta mörk í fyrri hálfleik

Nú er kominn hálfleikur í leikjunum fjórum sem standa yfir í Landsbankadeild karla. Staðan í leik Blika og Fylkis í Kópavogi er jöfn 2-2, Grindvíkingar hafa yfir 2-0 gegn KR, ÍBV er yfir 2-0 gegn Skagamönnum í Eyjum og markalaust er hjá Víkingi og FH.

Jafnt í hálfleik hjá Japönum og Brössum

Nú er kominn hálfleikur í lokaleikjunum tveimur í F-riðlinum á HM. Japanir ætla að selja sig dýrt og komust yfir gegn Brasilíumönnum á 34. mínútu með marki frá Keiji Tamada, en Ronaldo jafnaði metin í uppbótartíma. Staðan í leik Króata og Ástrala er sömuleiðis jöfn 1-1. Dario Srna kom Króötum yfir strax á 2. mínútu með glæsilegu marki úr aukaspyrnu, en varnarmaðurinn Craig Moore jafnaði fyrir Ástrala úr víti í uppbótartíma.

Skelfileg byrjun hjá Ólöfu Maríu

Ólöf María Jónsdóttir náði sér engan veginn á strik á fyrsta keppnisdeginum á Estorial-mótinu í golfi sem fram fer í Portúgal. Ólöf á litla möguleika á að komast í gegn um niðurskurð á mótinu á morgun eftir að hafa lokið keppni á 13 höggum yfir pari í dag.

Vildi taka við enska landsliðinu

Luiz Felipe Scolari, þjálfari portúgalska landsliðsins, hefur gefið það út að hann hafi haft mikinn áhuga á að taka við enska landsliðinu á sínum tíma, en það hafi í raun verið smáatriði sem gerðu honum ókleift að þiggja starfið.

Áttunda umferðin að hefjast

Áttundu umferð Landsbankadeildar karla lýkur nú í kvöld með fjórum leikjum sem hefjast allir klukkan 19:15 og fylgst verður með gangi mála á Boltavaktinni hér á Vísi. Breiðablik tekur á móti Fylki, Grindavík fær KR í heimsókn, Skagamenn fara til Eyja og þá taka Víkingar á móti Íslandsmeisturum FH í Fossvoginum.

Gana heldur uppi heiðri Afríkuþjóða

Ganamenn tryggðu sér í dag sæti í 16-liða úrslitunum á HM og því hefur ein Afríkuþjóð komist upp úr riðlakeppni HM allar götur síðan árið 1986 þegar keppnin var haldin í Mexíkó. Kamerún (1990) og Senegal (2002) hafa náð lengst Afríkuþjóða í keppninni tili þessa, en liðin komust í 8-liða úrslit á sínum tíma.

Birgir Leifur byrjar vel í Sviss

Birgir Leifur Hafþórsson byrjar ágætlega á Credid Suisse-mótinu í golfi sem fram fer í Sviss. Birgir lauk fyrsta hringnum á 72 höggum eða einu höggi undir pari. Efsti maður er á níu höggum undir pari.

Nokkrar breytingar á liði Brassa

Carlos Alberto Parreira, þjálfari brasilíska landsliðsins, hefur gert nokkrar breytingar á byrjunarliði sínu sem mætir því japanska í lokaleik F-riðilsins nú klukkan 19 og er í beinni á Sýn. Á sama tíma verður leikur Króata og Ástrala á Sýn Extra.

Sjá næstu 50 fréttir