Fleiri fréttir

Skjern úr leik

Skjern, lið Arons Kristjánssonar þjálfara féll í morgun úr Evrópukeppni bikarhafa í handbolta þegar liðið tapaði síðari leik sínum á útivelli fyrir rúmenska liðinu Constanta, 35-28. Vignir Svavarsson skoraði tvö mörk fyrir Skjern sem tapaði líka fyrri leiknum, 35-31.

Tiger með 2 högga forystu fyrir lokahringinn

Tiger Woods hefur tveggja högga forystu fyrir lokahringinn á Ford mótinu í golfi á Doral-vellinum á Miami í Flórída. Sýnt verður beint frá keppninni á Sýn í kvöld. Fjórir kylfingar voru jafnir fyrir keppni gærdagsins, Tiger Woods, Phil Mickelson, Scott Verplank og Camilo Villegas. Tiger Woods lék best þeirra í gær, lék á 4 undir pari og er samtals á 17 undir pari.

Miklir yfirburðir Gerplu

Gerpla varð í gær bikarmeistari karla og kvenna í fimleikum. Gerpla 1 varð bikarmeistari í kvennaflokki í frjálsri gráðu. Kristjana Sæunn Ólafsdóttir var stigahæst en hún varð hlutskörpust í keppni í stökki og golfæfingum. Gerpla varð einnig bikarmeistari í piltaflokki, hafði betur í baráttu við Ármenninga. Rúnar Alexandersson var bestur á tvíslánni en hann keppti ekki í öllum greinum í gær.

Styrktarmót fyrir tækwondomann

Í gær fór fram í Ingunnarskóla í Grafarvogi, styrktarmót Björns Þorleifssonar tækwondomanns. Björn er okkar besti tækwondomaður og framundan eru dýr og kostnaðarsöm ferðlög. Honum hefur t.d. verið boðið að æfa með kínverska landsliðinu. Hugmyndin um styrktarmót kom frá tækwondo-deild Fram sem leggur til húsnæði...

Ótrúlegur sigur Miami á Atlanta

Kobe Bryant skoraði 40 stig fyrir Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, þegar liðið lagði Detroit, 105-94. Miami Heat vann sinn áttunda leik í röð með naumum sigri á Atlanta Hawks, 95-93. Miami átti frábæran endasprett og náði að tryggja sér sigurinn á ótrúlegan hátt með 1.8 sekúndu eftir á klukkunni, eftir að hafa verið 17 stigum undir.

Milan og Juve unnu sína leiki

Juventus vann Sampdoria 1-0 í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöldi. Pavel Nedved skoraði eina mark leiksins á 69. mínútu. AC Milan vann Empoli 3-0 þar sem Filippo Inzahgi skoraði tvö markanna og Andrei Schevshenko eitt. Juventus er á toppi deildarinnar og hefur 10 stiga forystu á AC Milan. Í kvöld mætast Roma og Inter en leikurinn verður sýndur á Sýn extra klukkan 19:30.

Barcelona heldur 10 stiga forystu á Spáni

Barcelona og Real Madríd unnu bæði mótherja sína í spænsku knattspyrnunni í gærkvöldi. Barcelona lagði Deportivo La Coruña, 3-2 seint í gærkvöldi eftir að Real Madrid hafði lagt granna sína í Atletico, 2-1. Samuel Etoo skoraði sigurmark Börsunga á 61. mínútu.

Real Madrid vann nágrannaslaginn

Real Madrid vann 2-1 sigur á Atletico Madrid í nágrannaslagnum í spænska fótboltanum í kvöld. Liðið er nú í 2. sæti deildarinnar, átta stigum á eftir toppliði Barcelona sem mætir Deportivo kl 21 í kvöld. Antonio Cassano og Julio Baptista skoruðu mörk Real Madrid. Tveimur öðrum leikjum er lokið í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Cadiz lagði Espanyol 2-0 og Villareal vann 3-2 sigur á Alaves.

Andorra mun vígja Wembley

Það verður knattspyrnulandslið smáríkisins Andorra sem mun leika fyrsta landsleikinn í fótbolta við England hinum nýja Wmbley, þjóðarleikvangi Englendinga sem verið er að leggja lokahönd á. Andorra er í E-riðli með Englendingum í undankeppni EM2008 og mætast þjóðirnar þann 2. september n.k. á Wembley.

Óli Stef með 4 mörk og Ciudad í undanúrslitin

Ólafur Stefánsson og félagar í Ciudad Real tryggðu sér í kvöld farseðilinn í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í handbolta þegar þeir lögðu Celja frá Slóveníu í 8 liða úrslitum, 33-28 á útivelli. Þetta var síðari viðureign liðanna í 8 liða úrslitunum en Ciudad vann fyrri leikinn með 7 marka mun, 34-27. Ólafur skoraði 4 mörk fyrir Ciudad í kvöld.

Fyrsta tap Federer í 56 leikjum

19 ára Spánverji, Rafael Nadal afrekaði það í dag að leggja að velli stigahæsta tenniskappa í heimi, hinn svissneska Roger Federer. Með sigrinum tryggði Spánverjinn sér sigur á opna meistaramótinu í Dubai en hann lagði Federer í tveimur settum gegn einu, 2-6, 6-4 og 6-4.

Liverpool og Charlton skildu jöfn

Liverpool og Charlton gerðu markalaust jafntefli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta nú í kvöld en leikið var á Anfield. Hermann Hreiðarsson lék að venju allan leikinn með liði Charlton. Liverpool skaust upp í 2. sæti deildarinnar með stiginu sem fékkst fyrir jafnteflið í kvöld og er nú með 45 stig, einu stigi ofar en Man Utd sem reyndar á tvo leiki til góða. Charlton er í 13. sæti með 36 stig.

Alfreð formlega tekinn við landsliðinu

Alfreð Gíslason tók í dag formlega við þjálfun íslenska karlalandsliðsins í handbolta en hann skrifaði undir samning þess efnis á fréttamannafundi hjá HSÍ í dag. Upphaflega átti að skrifa undir í gær en vegna frestunar á flugi frá Þýskalandi var því seinkað þangað til í dag.

Guðjón Valur með 13 mörk fyrir Gummersbach

Guðjón Valur Sigurðsson fór á kostum og skoraði 13 mörk fyrir Gummersbach í dag þegar liðið tryggði sig í undanúrslit Evrópukeppni félagsliða (EHF keppninni) í handbolta þrátt fyrir tap gegn spænska liðinu Bidasoa, 30-26. Róbert Gunnarsson lék einnig með Gummersbach í dag og skoraði tvö mörk.

Fram á toppinn í handboltanum

Fram tyllti sér á topp DHL-deildar karla í handbolta í dag með tveggja marka sigri á ÍBV á erfiðum útivelli í Eyjum, 32-34. Tveir leikir fóru fram hjá körlunum í efstu deild en Stjarnan lagði Hauka í Ásgarði með 5 marka mun, 33-28.

Loks tapaði Bayern Munchen á heimavelli

Bayern Munchen tapaði sínum fyrsta heimaleik á tímabilinu í þýska Bundesligunni í fótbolta í dag þegar Hamburger SV kom í heimsókn til Munchen og vann 1-2 útisigur. Hollendingurinn Nigel de Jong skoraði sigurmarkið á 89. mínútu eftir að Memeth Scholl hafði jafnað metin fyrir heimamenn, 6 mínútum áður.

Toppliðin unnu sína leiki

Tveir leikir fóru fram í DHL-deild kvenna í handbolta í dag þar sem toppliðin tvö unnu bæði leiki sína. Topplið Hauka vann Gróttu örugglega á útivelli, 22-32 og ÍBV lagði Valsstúlkur í Eyjum, 22-18. Haukatúlkur eru efstar með 24 stig en ÍBV í 2. sæti með 23 stig. Valsstúlkur eru í 3. sæti með 22 stig í harðri toppbaráttu hjá stúlkunum.

Jóhannes Karl skoraði tvö fyrir Leicester

Jóhannes Karl Guðjónsson var hetja sinna manna í Leicester og skoraði tvö mörk þegar liðið sigraði Hull, 3-2 í ensku 1. deildinni í fótbolta í dag. Mörk Jóa Kalla komu bæði í seinni hálfleik en hið síðara reyndist sigurmarkið og kom 7 mínútum fyrir leikslok. Jóhannes lék allan leikinn í liði Leicester.

Portland sló Evrópumeistarana út

Spænska liðið Portland San Antonio var nú síðdegis að slá út Evrópumeistara Barcelona í Meistaradeildinni í handbolta og tryggja sig þannig í undanúrslit keppninnar þrátt fyrir tap á Spáni, 26-23. Portland vann fyrri leikinn 25-21 og því samanlagt með einu marki.

Fulham steinlá fyrir Arsenal

Arsenal beit heldur betur frá sér gegn útivallargrýlunni í dag þegar liðið gjörsamlega valtaði yfir Fulham 0-4 í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Heiðar Helguson var í byrjunarliði Fulham en var skipt út af á 61. mínútu fyrir Collins John. Sjö leikir eru á dagskrá deildarinnar í dag og eru úrslit þeirra sem hér segir en Liverpool mætir Charlton kl. 17:15;

Tveir stórleikir í beinni frá Spáni í kvöld

26. umferðin í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hefst í kvöld. Klukkan 19 mætast grannaliðin í Madríd, Real og Atletico og verður sýndur beint á Sýn. Strax á eftir verður skipt yfir til Barcelona þar sem Barcelona mætir Deportivo La Coruna.

Flensburg í undanúrslitin þrátt fyrir tap

Þýska liðið Flensburg varð í dag fyrst liða til að tryggja sér farseðilinn í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í handbolta þrátt fyrir tap gegn löndum sínum í Kiel, 31:34, í hörkuspennandi leik. Flensburg vann fyrri viðureign liðanna, 28-32 þannig að Kiel hefði þurft að skora einu marki meira í dag til að komast áfram. Staðan í hálfleik var 16-17 fyrir Kiel. Það voru íslensku dómararnir Stefán Arnaldsson og Gunnar Viðarsson sem dæmdu þennan leik.

Calzaghe og Lacy boxa í beinni í kvöld

Áhugamenn um hnefaleika bíða spenntir eftir boxbardaga Walesverjans Joe Calzaghe og Bandaríkjamannsins Jeff Lacy. Þeir mætast í Manchester í kvöld um titil WBO og IBF heimssambandanna í léttmillivigt. Bardaginn byrjar laust eftir klukkan 11 í kvöld og hann verður sýndur beint á Sýn.

Ívar og Brynjar báðir í byrjunarliði Reading

Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson eru báðir í byrjunarliði Reading sem er að leika við Burnley í ensku 1. deildinni í fótbolta í dag. Jóhannes Karl Guðjónsson er í byrjunarliði Leicester sem tekur á móti Hull en fleiri Íslendingar koma ekki við sögu í leikjum dagsins í deildinni í dag.

Ísland vann þrenn verðlaun

Ísland vann til þrennra verðlauna á fyrsta degi Norðurlandamóts öldunga í frjálsum íþróttum sem hófst í Malmö í Svíþjóð í gær, ein gullverðlaun og tvö brons. Árný Hreiðarsdóttir vann gullverðlaun þegar hún sigraði þrístökk kvenna 50 ára og eldri.

Heiðar í byrjunarliðinu gegn Arsenal

Heiðar Helguson er í byrjunarliði Fulham sem tekur á móti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta nú kl. 15. Arsenal er í 7. sæti deildarinnar með 41 stig, fimm stigum á eftir Tottenham sem er í 4. sæti en liðin berjast nú grimmilega um það sæti sem gefur þátttökurétt í Meistaradeildinni. Heiðar og félagar í Fulham eru í 14. sæti deildarinnar, en þó ekki nema níu stigum á eftir Arsenal.

Chelsea með 18 stiga forskot á toppnum

Chelsea náði í dag 18 stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar meistararnir unnu 1-2 útisigur á West Bromwich Albion. Eiður Smári Guðjohnsen var í byrjunarliði Chelsea en honum var skipt út af á 63. mínútu fyrir Geremi.

Ísland valtaði yfir Eista

Íslenska öldungalandsliðið í krullu valtaði yfir Eista í morgun, 8-2 á heimsmeistaramótinu 50 ára og eldri en mótið hófst í Tårnby í Danmörku í morgun. Félagar úr Skautafélagi Akureyrar skipa lið Íslands en 15 lið taka þátt á mótinu í karlaflokki og 12 í kvennaflokki. Íslendingar mæta Japönum á morgun.

16. heimasigurinn í röð hjá Dallas

10 leikir voru í NBA körfuboltanum í gærkvöldi. Allen Iverson skoraði 43 stig þegar Philadelfia vann Washington, 119-113. Dallas Mavericks vann 16. heimaleik sinn í röð í gærkvöldi. Í gærkvöld stóðu leikmenn Charlotte Bobcats lengi í Dallas-mönnum. En Þjóðverjinn, Dirk Nowitzki, tók til sinna ráða en hann var stigahæstur hjá Dallas, skoraði 26 stig.

Síðari leikur Barcelona og Portland í dag

Klukkan 15:30 í dag mætast Barcelona og Portland San Antonio í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum meistaradeildarinnar í handbolta. Leikurinn verður sýndur beint á Sýn. Portland vann fyrri leikinn með fjögurra marka mun á heimavelli sínum í Pamplóna, 25-21. Það má því búast við hörkuleik þessara frábæru handboltaliða í dag.

Fjórir kylfingar efstir og jafnir fyrir lokadaginn

Þegar keppni á Fordmótinu í golfi í Miami í Flórída er hálfnuð eru fjórir kylfingar jafnir í fyrsta sætinu. Tiger Woods hafði forystu eftir fyrsta daginn, lék Doral-völlinn á 64 höggum eða 8 undir pari. Tiger lék í gær á 67 höggum og er samtals á 13 undir pari. Phil Mickelson var höggi á eftir þegar kylfingarnir hófu leik í gær. Mickelson lék betur en Tiger í gær, lék á 6 undir pari og er samtals á 13 undir pari.

Eiður í byrjunarliði Chelsea

Eiður Smári Guðjohnsen er í byrjunarliði Chelsea sem er í heimsókn hjá W.B.A. í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta en leikurinn hófst í hádeginu kl. 12:45. Eiður kemur inn í liðið sem staðgengill fyrir Frank Lampard sem er meiddur.

Dallas - Charlotte í beinni

Leikur Dallas Mavericks og Charlotte Bobcats verður sýndur í beinni útsendingu á NBA TV klukkan 01:30 í nótt. Fyrirfram mætti reikna með stórsigri Dallas, því Charlotte hefur aðeins unnið 6 útileiki í allan vetur en Dallas hefur aðeins tapað 4 leikjum á heimavelli.

Federer mætir Nadal í úrslitum

Það verða tveir stigahæstu tennisleikarar heims í karlaflokki sem mætast í úrslitaleik Opna Dubai mótsins um helgina. Rafael Nadal vann sér sæti í úrslitum eftir sigur á Þjóðverjanum Rainer Schuettler 6-4 og 6-2, en Federer lagði Rússann Mikhail Youzhny 6-2 og 6-3 án þess að sýna nein glæsitilþrif.

Valur lagði Fylki

Valsmenn unnu góðan sigur á Fylki í Laugardalshöllinni í DHL-deild karla í handknattleik í kvöld 20-28, eftir að hafa verið yfir í hálfleik 16-15. Hjalti Þór Pálmason skoraði 10 mörk fyrir Val og Mohamadi Loutoufi skoraði 6. Þá var Hlynur Jóhannesson í miklu stuði í marki Vals og varði 20 skot. Heimir Örn Árnason skoraði 9 mörk fyrir Fylki.

Fjögur lið eiga möguleika á titlinum

Fyrrum heimsmeistarinn Michael Schumacher telur fjögur keppnislið eiga möguleika á heimsmeistaratitlinum í Formúlu 1 á komandi keppnistímabili. Hann hefur auðvitað fulla trú á sínum mönnum í Ferrari, en telur að auk þess verði Renault, Honda og McLaren í baráttunni um titilinn.

Borgarstjórinn í Zaragoza býður Eto´o í heimsókn

Juan Alberto Belloch, borgarstjóri í Zaragoza á Spáni brást hinn versti við þegar hann heyrði að stuðningsmenn knattspyrnuliðsins þar í borg hefðu sýnt Samuel Eto´o hjá Barcelona kynþáttafordóma á leik liðanna um síðustu helgi. Belloch hefur því sent knattspyrnumanninum bréf og boðið honum í sérstaka heimsókn til borgarinnar.

Fimm leikir á dagskrá í kvöld

Fimm leikir fara fram í dhl-deild karla í handbolta í kvöld. Klukkan 19 mætast Þór og HK á Akureyri, klukkan 19:15 mætast KA og FH, ÍR og Afturelding og svo Valur og Fylkir í Laugardalshöllinni og klukkan 20 mætast svo Selfoss og Víkingur/Fjölnir á Selfossi.

Björn Borg blankur

Fyrrum tennisgoðsögnin Björn Borg er nú í miklum fjárhagsvandræðum og hefur kappinn nú neyðst til að selja verðlaunabikarana fimm sem hann vann á Wimbeldon-mótinu á árunum 1976 til 1980. Borg vann sér inn miklar fúlgur á stuttum ferli sínum, en berst nú í bökkum fjárhagslega.

Ronaldo settur út úr liðinu

Brasilíski framherjinn Ronaldo verður ekki í leikmannahópi Real Madrid í grannaslag liðsins við Atletico Madrid um helgina og talið er að það sé að frumkvæði forseta félagsins sem hefur boðað nýja stefnu í leikmannamálum hjá félaginu.

Alfreð formlega tekinn við

Blaðamannafundi HSÍ þar sem tilkynna átti um ráðningu Alfreðs Gíslasonar sem næsta landsliðsþjálfara hefur verið frestað til morgundagsins, en HSÍ staðfesti í dag að Alfreð hefði formlega verið ráðinn í starfið til 1. júlí á næsta ári.

Sheringham skrifar undir

Framherjinn Teddy Sheringham hefur skrifað undir eins árs framlengingu á samningi sínum við úrvalsdeildarlið West Ham og verður því í herbúðum liðsins út næsta keppnistímabil. Sheringham verður því orðinn 41 árs gamall þegar samningstímanum lýkur.

Þorði ekki að hafa Saha á bekknum

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur viðurkennt að hann hafi ekki þorað að hafa sóknarmanninn Louis Saha á varamannabekknum í úrslitaleiknum í enska deildarbikarnum á dögunum af ótta við að leikmaðurinn færi frá félaginu.

Robbie Keane skrifar undir nýjan samning

Írski landsliðsmaðurinn Robbie Keane skrifaði í dag undir nýjan fjögurra ára samning við úrvalsdeildarlið Tottenham og bindur þar með enda á vangaveltur um að hann sé á leið frá félaginu. Keane er 25 ára og kom til liðsins frá Leeds. Hann hefur skorað 54 mörk í 145 leikjum fyrir Tottenham.

Fer í mál við tvö dagblöð

Ashley Cole, leikmaður Arsenal, ætlar að fara í mál við tvö bresk dagblöð sem fyrir nokkru slógu því upp á síðum sínum að hann væri samkynhneigður. Cole ætlar að giftast unnustu sinni á næstunni og hefur neitað öllu sem blöðin skrifuðu um kynhneigð hans.

Sjá næstu 50 fréttir