Fleiri fréttir

SAS flugvélar í rannsókn

Tveimur flugvélum SAS flugfélagsins, sömu tegundar og þeirrar sem var lent við illan leik í Álaborg á sunnudag, var snúið við í gær vegna bilunar. Allar flugvélar þessarar tegundar eru nú í rækilegri skoðun.

6 ár frá hryðjuverkum

Sex ár eru í dag frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin. Minningarathafnir voru haldnar í New York, Washington og Pennsylvaníu í dag. Á sama tíma og Bandaríkjamenn syrgja sendu al Kaída hryðjuverkasamtökin frá sér myndband þar sem Osama bin Laden lofsyngur einn flugræningjann.

Komið í veg fyrir sprengjuárás í Tyrklandi

Tyrkneskri lögreglu tókst í dag að koma í veg fyrir alvarlegt sprengjutilræði, þegar hún fann bíl hlaðinn sprengiefni í margra hæða bílageymslu í höfuðborg landsins, Ankara.

Rauðu símaklefarnir hverfa í Bretlandi

Útlit er fyrir að rauðu símaklefarnir í Bretlandi séu að renna sitt skeið. Breska símafélagið vill losna undan rekstri þeirra. Þeir eru enda reknir með dúndrandi tapi nú þegar níu af hverjum tíu Bretum yfir 13 ára aldri eiga farsíma. Víst er þó að símaklefarnir setja svip sinn á borgir og bæi, og þeirra verður saknað.

10 ára stúlka finnst stórslösuð í Danmörku

Tíu ára stúlka fannst í dag liggjandi í blóði sínu í undirgöngum í Hellerup, rétt fyrir utan Kaupmannahöfn. Hún var flutt á spítala í snarhasti, og leiddi rannsókn þar í ljós að hún var þrí-höfuðkúpubrotin. Hún er þó ekki í lífshættu.

Burt með öll umferðarljós og skilti

Bæjarstjórnin í Bohmte í vesturhluta Þýskalands hefur komist að þeirri niðurstöðu að besta leiðin til þess að auka umferðaröryggi í miðbænum sé að fjarlægja öll umferðarljós og götuskilti. Um 13.500 bílar fara um miðbæinn á hverjum degi. Það var hollenskur umferðarsérfræðingur sem hannaði þessa lausn, sem nýtur stuðnings Evrópusambandsins.

Vinstra hrun í Noregi

Vinstri sósíalistar (SV) töpuðu miklu fylgi í sveitarstjórnarkosningunum í Noregi síðastliðinn mánudag. Fylgi flokksins minnkaði úr 12,3 í 6,1 prósent, miðað við síðustu kosningar 2003.

Víkingarnir upphafsmenn hnattvæðingar

Hnattvæðingin er í brennidepli í norrænu samstarfi. Sameiginlega eiga Norðurlönd mikla möguleika á því að nýta sér þau tækifæri sem felast í hnattvæðingunni. En hún er ekki ný af nálinni, segir Jan-Erik Enestam, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs. "Við gætum meira að segja haldið því fram að víkingarnir hafi á sínum tíma hafið hnattvæðinguna, með ránsferðum sínum til annarra landa. Viðskiptaaðferðir víkinganna voru ekki alltaf eftir bókinni, en mjög áhrifaríkar." Þetta grínaðist Enestam með í upphafi ræðu sem hann hélt á ráðstefnu í Kaupmannahöfn á þriðjudag.

Engar afgerandi sannanir gegn foreldrum Madeleine

Portúgalska lögreglan hefur borið til baka fréttir um að hún hafi undir höndum sönnunargögn sem muni leiða til ákæru á hendur foreldrum Madeleine McCann. Ríkislögreglustjóri Portúgals sagði í sjónvarpsviðtali í gær að lögreglan hafi aðeins fengið hluta af sýnum sem send voru til rannsóknar í Bretlandi. Niðurstöður þeirra séu enganvegin jafn afgerandi og haldið hefur verið fram í fjölmiðlum.

Petraeus gagnrýndur

Demókratar á Bandaríkjaþingi vísa á bug fullyrðingum yfirmanns bandaríska heraflans í Írak um að markmiðum þar hafi verið náð með fjölgun í herliðinu. Herforinginn segir fyrst hægt að kalla hermenn heim næsta sumar en margir þingmenn vilja hefja heimkvaðninguna strax.

Nýtt myndband í tilefni dagsins

Sex ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin hinn 11. september 2001. Af því tilefni hefur Osama bin Laden, leiðtogi Al Kaída, sent frá sér nýtt myndband þar sem hann lofsyngur einn árásarmannanna.

Heimilt að rífa norskt skip

Hæstiréttur Indlands leyfði í dag að byrjað yrði að rífa gamalt norskt skemmtiferðaskip sem hefur legið við akkeri undan strönd landsins í rúmt ár. Umhverfissamtök hafa barist gegn því að leyfið yrði veitt á þeim forsendum að í skipinu séu yfir 900 tonn af eitruðum úrgangi. Það skapi mikla hættu fyrir verkamenn í slippnum þar sem rífa á skipið.

Portúgalskur saksóknari fær Madeleine gögn

Portúgalska lögreglan mun í dag láta af hendi öll rannsóknargögn í máli Madeleine McCann. Portúgalskir saksóknarar munu taka við gögnunum og taka í framhaldi ákvörðun um það hvort foreldrar Madeleine, þau Gerry og Kate McCann verði ákærð í málinu.

50 ísraelskir hermenn slasast í árás

Palestínskir vígamenn á Gasa svæðinu skutu eldflaug á æfingastöð ísraelska hersins fyrir nokkrum klukkutímum síðan. 50 hermenn slösuðust í árásinni og er talið víst að atvikið muni auka þrýsting á ísraelsk stjórnvöld um að láta til skarar skríða á Gasa en svæðið er undir stjórn Hamas samtakanna.

Hleranir komu í veg fyrir hryðjuverk í Evrópu

Yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar segir að hleranir hafi átt stóran þátt í því að upp komst um fyrirhugaðar hryðjuverkaárásir í Þýskalandi og í Danmörku á dögunum.

Fyrrverandi frú Reagan látin

Óskarsverðlaunaleikkonan Jane Wyman lést á heimili sínu í Palm Springs í Kalíforníu í kvöld. Wyman var fyrsta eiginkona Ronalds Reagan fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Hún lék í sjónvarpsmyndaflokknum vinsæla Falcon Crest. Wyman byrjaði að leika í kvikmyndum á fjórða áratug síðustu aldar, þegar hún gerði samning við Warner Bros framleiðendurna.

McCann hjónin gætu misst tvíburana

Svo gæti farið að tveggja ára gamlir tvíburar McCann hjónanna yrðu settir í umsjá barnaverndaryfirvalda, í kjölfar langs fundar breskra félagsráðgjafa og lögreglu í gær um framtíð fjölskyldunnar.

Tveir létust í jarðgangaslysi á Ítalíu

Tveir létust og um 150 voru fluttir á sjúkrahús með reykeitrun eftir að bíll skall á öryggisgrindverk með þeim afleiðingum að það kviknaði í honum í jarðgöngum á norður Ítalíu í dag.

Öll spjót beinast að móður Madeleine

Portúgalska lögreglan telur sig hafa nægar sannanir til að ákæra móður Madeleine McCann fyrir manndráp af gáleysi. Breska blaðið Times fullyrðir þetta í dag. Í kvöld hafði svo Sky-fréttastofan eftir heimildarmönnum að DNA sýni Madeleine hefðu fundist í bílaleigubíl hjónann sem þau tóku á leigu eftir að hún hvarf.

Bandarískum hermönnum ekki fækkað strax

Meira en helmingur Íraka segir árásir á bandaríska hermenn í landinu réttlætanlegar. Skýrsla um framvindu stríðsins í Írak var kynnt í dag. Þar er lagt til að bandarískum hermönnum verði ekki fækkað fyrr en næsta sumar.

Gengur vel í Írak

Árangur þess að fjölga í herlilði Bandaríkjamanna í Írak er að mestu í samræmi við markmið. Þetta sagði yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Írak, hershöfðinginn David Petraeus, í skýrslu um framvindu stríðsins í landinu sem hann kynnti fyrir Bandaríkjaþingi í dag.

Nægar sannanir gegn móður Madeleine -The Times

Breska blaðið The Times segir að portúgalska lögreglan telji sig hafa nægar sannanir til þess að ákæra móður Madeleine MCann fyrir manndráp af gáleysi. Jafnframt verði hún þá kærð fyrir að fela lík telpunnar. The Times segir að lögreglan hafi orðið fjúkandi reið þegar hætt var við að kæra Kate McCann, eftir að lögfræðingur hennar hafði átt fund með ríkissaksóknara Portúgals.

Talibanar segjast tilbúnir til viðræðna

Háttsettur talsmaður Talibana í Afganistan segir að þeir séu reiðubúnir til viðræðna við ríkisstjórn Hamids Karzai, forseta landsins um að binda enda á sex ára skæruhernað. Karzai sendi Talibönum tilboð um viðræður, vegna vaxandi blóðsúthellinga í landinu. Hann sagði að friður næðist ekki ef menn töluðu ekki saman.

Allir netnotendur geta nú leitað að Fossett

Allir netnotendur í heiminum geta nú tekið þátt í leitinni að auðkýfingnum Steve Fossett með því að greina svæðið sem hann hvarf á. Um er að ræða óvenjulegt samstarf milli Richard Branson vinar Fossett og net-fyrirtækjanna Amazon og Google.

Time fær risasekt í Indónesíu

Bandaríska vikuritið Time hefur verið dæmt í 107 milljóna dollara sekt fyrir hæstarétti í Indónesíu, fyrir að móðga fyrrverandi forseta landsins. Ástæðan fyrir málaferlum var sú að árið 1999 birti Time frétt þar sem því var haldið fram að Suharto fjölskyldan hefði safnað miklum auði meðan hann var forseti.

23 létust í sprengingu í Mexíkó

Í það minnsta 23 létust þegar vörubíll hlaðinn sprengiefni lenti í árekstri við annan bíl og sprakk í loft upp í norðurhluta Mexíkó í dag. Sprengingin var að sögn mexíkóskra fjölmiðla svo öflug að hún skildi eftir sig tuttugu metra breiðan gíg í götunni. Flestir hinna látnu voru vegfarendur, og blaðamenn sem þustu að vettvangi slyssins og urðu fyrir sprengingunni.

Nefnd kortleggur palestinskt ríki

Ehud Olmert forsætisráðherra Ísraels og Mahmoud Abbas forseti Palestínumanna náðu í dag samkomulagi um aðskipa sameiginlega nefnd til þess að kortleggja sjálfstætt ríki palestínumanna. Leiðtogunum er í mun að hafa náð einhverjum árangri áður en Condoleeza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna kemur til Miðausturlanda í næstu viku.

Rangur skóli að ræna

Ræningi í Kólumbíu valdi sér rangan skóla til þess að veifa skammbyssu sinni í. Hann ruddist inn með miklum bæggslagangi og heimtaði alla peninga sem allir væru með. Lögreglan kom mátulega fljótt á vettvang til þess að flytja hann á sjúkrahús. Sem betur fór var stutt þangað frá karate-skólanum.

Íþróttafréttamaður tæklaður í beinni

Íþróttafréttamaður ástralskrar sjónvarpsstöðvar varð fyrir heldur óskemmtilegri reynslu í beinni útsendinu í gærkvöldi. Hann var að greina frá úrslitum í rúgbíleik fyrir utan leikvang í Melbourne þegar óð rúgbíbulla tæklaði hann til jarðar.

Abbas og Olmert funda

Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, og Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, hittust til að ræða mögulega stofnun palestínsk ríkis á fundi í Jerúsalem í morgun. Fundur leiðtoganna er haldinn svo þeir geti stillt saman strengi sína fyrir ráðstefnu um málið í nóvember sem Bandaríkjamenn hafa boðað til.

Barinn í beinni

Íþróttafréttamaður ástralskrar sjónvarpsstöðvar varð fyrir heldur óskemmtilegri reynslu í beinni útsendinu í gærkvöldi. Hann var að greina frá úrslitum í rúgbí leik fyrir utan leikvang í Melborun þegar óð rúgbíbulla tæklaði hann til jarðar. Hópur manna réðst þá að fréttamanninum, Ben Davis, og gekk í skrokk á honum.

Saksóknari fær gögn

Saksóknari í Portúgal fær í dag í hendurnar gögn vegna rannsóknar á hvarfinu á bresku telpunni Madeleine McCann. Um er að ræða það sem lögregla hefur aflað eftir að foreldrar stúlkunnar fengu réttarstöðu grunaðra í málinu í síðustu viku.

Kom og fór

Sjö ára útlegð Nawas Sharifs, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans, lauk í morgun en hún hófst aftur sex klukkustundum eftir heimkomuna. Músharraf lét vísa þessu svarna óvini sínum úr landi til að forða sér frá hatrammri deilu um forsetaembættið.

Telja öryggi sitt minna eftir herferð Bandaríkjamanna

Sjö af hverjum tíu Írökum telja að öryggi á þeim stöðum þar sem Bandaríkjamenn hafa farið um í herferð sinni síðustu mánuði hafi versnað. Þetta leiðir skoðanakönnun á vegum BBC, ABC-fréttastofunnar og fleiri í ljós.

Finna gömul flök en ekki Fossett

Björgunarlið sem nú leitar að bandaríska ævintýramanninum Steve Fossett í Nevada eyðimörkinni í Bandaríkjunum hafa fundið sex flugvélaflök sem aldrei hafa fundist áður, en ekkert hefur spurst til Fossets.

Önnur umferð í Gvatemala

Samkvæm fyrstu tölum þarf að efna til annarar umferðar í forsetakosningunum í Gvatemala sem fram fóru í gær. Hershöfðinginn fyrrverandi, Otto Perez Molina er með 26 prósent atkvæða en vinstrimaðurinn Alvaro Colom og stjórnarsinninn Alejandro Giammetti komu skammt á eftir en þeir fengju báðir 22 prósent atkvæða verði þetta lokatölur.

Flugumferð á Jótlandi í eðlilegt horf

Flugumferð til og frá Jótlandi er komin í eðlilegt horf á nýjan leik eftir að flugvél frá SAS flugfélaginu hlekktist á í lendingu á flugvellinum í Álaborg í gær. Rannsóknanefnd flugslysa hóf rannsókn á óhappinu í gær og hefur vélin verið flutt af flugbrautinni.

Sharif sendur aftur í útlegð

Fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans, Nawas Sharif, hefur verið sendur úr landi. Sharif snéri aftur úr útlegð í morgun og hafði hann lýst því yfir að hann hyggðist leiða baráttuna gegn forseta landsins, Pervez Musharaf í komandi kosningum.

Þýska lögreglan leitar að 8 ára stúlku

Lögreglan í Hannover í Þýskalandi leitar nú af hinni 8 ára gömlu stúlku Jenisu sem hefur saknað síðan á hádegi á föstudag. Stúlkan fór frá heimili sínu í þeim tilgangi að heimsækja frænku sína en ekkert hefur til hennar spurst síðan þá. Lögreglan útilokar ekki að stúlkunni hafi verið rænt.

Tveir særðust í átökum lögreglu og mótmælenda í Malasíu

Tveir særðust þegar til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu á heimasvæðum múslima í norðausturhluta Malasíu. Óeirðirnar brutust út í gærkvöldi þegar aðskilnaðarflokkur múslima sem krefst sjálfstæði frá Malasíu hélt útifund.

ETA heitir frekari sprengjuárásum á Spáni

Meðlimir í basknesku aðskilnaðarsamtökunum ETA á Spáni heita því að halda áfram sprengjuárásum í landinu. Þetta kom fram í yfirlýsingu sem samtökin sendu frá sér í dag. Þau telja að friðarsamkomulagið sem gert var á síðasta ári sýni að það sé tilgangslaust að semja við núverandi stjórnvöld á Spáni.

Aurskriða fellur í Sunndal í Noregi

Flytja þurfta íbúa af heimilum sínum í Litjdalen við Sunndal í Noregi í gærkvöldi eftir að aurskriða féll á hús þeirra. Skriðan var um 20 metrar að breidd en nokkrar aurskriður hafa fallið í Sunndal og Romsdal í Noregi á undanförnum dögum. Engan sakaði.

Blóðug kosningabarátta í Gvatemala

Íbúar í Suður-Ameríkuríkinu Gvatemala gengu að kjörborði í dag og kusu sér forseta í einni af blóðugustu kosningabaráttu sögunnar. Rúmlega 50 frambjóðendur, stjórnmálamenn og ættingjar þeirra hafa verið myrtir í aðdraganda kosninganna.

Drápu hval með vélbyssu

Bandaríska strandgæslan hefur í sínu haldi fimm indjána af Makah ættbálknum í Washingtonfylki en mennirnir eru grunaðir um að hafa drepið hval með því að skutla hann og skjóta með vélbyssu. Að mati strandgæslunnar falla þær aðferðir sem notaðar voru til að drepa hvalinn ekki undir hinar svokölluðu frumbyggjaveiðar.

Sjá næstu 50 fréttir