Fleiri fréttir

Rússar rannsaka PwC

Rússneskir rannsóknarmenn réðust í gær inn á skrifstofur PriceWaterhouseCoopers (PwC) í Moskvu. Þeir segjast hafa verið að leita að gögnum sem að styðja við rannsóknina í máli gegn þeim en PwC er sakað um að hafa skrifað upp á falsaða reikninga og uppgjör fyrir Yukos, fyrrum rússneskan olíurisa, sem nú er gjalþrota.

FBI misnotaði vald sitt

Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, misnotaði vald sitt til þess að nálgast upplýsingar um fólk sem hún hafði engan rétt á því að fá. Þetta kemur fram í skýrslu sem að eftirlitsstofnun innan dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna gaf frá sér í gær. FBI hefur þegar viðurkennt mistök sín.

Græna línan rifin

Kýpur-Grikkir byrjuðu seint í gær að rífa niður múrinn sem klýfur höfuðborgina Nikosíu í tvennt, einu höfuðborg Evrópu sem enn er klofin með landamærum.

Eftirlaunaaldur hækkaður í Þýskalandi

Eftirlaunaaldur verður hækkaður í Þýskalandi. Þetta var samþykkt á þinginu þar í landi í dag með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Nú er eftirlaunaaldurinn 65 ár en verður hækkaður upp í 67 ár. Þetta er gert vegna þess að fæðingatíðni er með því lægsta sem gerist í Evrópu í Þýskalandi og fer því fólki á vinnumarkaði fækkandi.

Amnesty krefst rannsóknar á aðferðum lögreglu

Amnesty International hefur farið fram á það við danska dómsmálaráðuneytið að rannsakað verði hvort lögregla hafi beitt óhóflegu harðræði í óeirðunum á Norðurbrú um síðustu helgi. Í bréfi frá Amnesty til dómsmálaráðuneytsins segir að samtökunum hafi borist kvartanir vegna fjöldahandtaka, fangelsun unglinga undir aldri með fullorðnum og ofbeldi gegn föngum en segjast ekki hafa gögn sem styðja við ásakanirnar. Hinsvegar segist Amnesty óttast að pottur sé brotinn þar sem margar kvartanir hafi borist, annars hefði ekki verið beðið um rannsókn.

Paisley sigraði

Sambandsflokkur Ian Paisleys er sigurvegari kosninganna á Norður-Írlandi. Flokkurinn hlaut 36 af 108 þingsætum en Sinn Fein fékk 28. Næstur var Sameiningarflokkur Ulsters með 18 sæti.

Sögulegur samningur

Fimmtungur orkunotkunar aðildarríkja Evrópusambandsins verður frá endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2020. Leiðtogar ríkja Evrópusambandsins samþykktu þetta í morgun. Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, segir samninginn marka tímamót.

Borgaryfirvöld buðu ungmennum annað hús

Það lá fyrir tilboð um að selja notendum Ungdomshuset á Norðurbrú annað húsnæði á Stevnsgade sem er nærri Jagtvej 69 þar sem Ungdomshuset stóð en því tilboði var ekki tekið. Þetta segir Ritt Bjerregaard borgarstjóri Kaupmannahafnar.

Vinna að þróun umhverfisvænna orkugjafa

Bandaríkin og Brasilía skrifuðu í dag undir samning um þróun umhverfisvænna orkugjafa. George Bush Bandaríkjaforseti sagði að ef tækist að draga úr því hversu háð ríkin eru olíu mundi það hjálpa efnahag, öryggi og umhverfi landanna. Það voru Bush og Inacio Lula da Silva forseti Brasilíu sem skrifuðu undir samninginn. Silva sagði samninginn tímamót fyrir bílaiðnaðinn, orkuframleiðslugeirann og mannkyn allt.

Hélt sjálfur framhjá meðan hann barði á Clinton

Newt Gingrich, fyrrverandi forseti neðri deildara bandaríkjaþings, hefur viðurkennt að hafa sjálfur haldið framhjá eiginkonu sinni, meðan hann stýrði sókninni gegn Bill Clinton, fyrir samband hans við Moniku Lewinsky. Hugsanlegt er að Gingrich verði frambjóðandi repúblikana í komandi forsetakosningum.

Alþjóðlegur jarðfræðigagnagrunnur í smíðum

Jarðfræðingar um víða veröld vinna nú að því að búa til heildstæðan gagnagrunn um berg um allan heim. Þetta er í fyrsta skipti sem upplýsingarnar eru settar í samhengi með þessum hætti. Verkefnið sem ber nafnið OneGeology mun svo birta gagnagrunninn á vefnum þannig að heimsbyggðin geti öll nýtt sér upplýsingarnar.

Einn á klóið

Allir fangar vilja losna úr haldi, ekki síst ef þeir sitja í fangelsi í landi eins og El Salvador. Og menn vilja líka komast í betra samband við umheiminn. Þegar fangaverðir í Gotera fangelsinu, sem er skammt fyrir utan San Salvador, höfuðborg El Salvador, ákváðu að gera öryggisleit bæði í húsinu og á föngunum, komust þeir að því að sextán fangar höfðu gleypt farsíma. Og einn sem líklega ætlaði að flýja var með litla handsprengju innvortis.

Réttað í Guantanamo-búðunum

Meintur skipuleggjandi og sá sem er talinn heilinn á bak við hriðjuverkaárásirnar á tvíburaturnana í New York verður yfirheyrður í réttarhöldum í Guantanamo-búðunum á Kúbu.

Ekki ég, ég er dauð

Glenda Askew var gripin slíkri skelfingu þegar hún var kvödd fyrir dómara vegna hraðaksturs, að hún ákvað að kveðja þetta líf. Breska Sky fréttastofan segir frá því að Glenda hafi sent lögreglunni bréf í nafni dóttur sinnar þar sem sagði; "Móðir mín getur ekki mætt, þar sem hún er látin. Ég er að fara í gegnum persónulega muni hennar og svara bréfum."

Makar þeirra sem hrjóta tapa tveimur árum

Þeir sem eiga maka sem hrjóta missa tvö ár af svefni þegar litið er til meðal líftíma sambanda. Í nýlegri breskri rannsókn kemur fram að meira en þriðji hver Breti er sviptur góðum nætursvefni af hrotum maka. Að meðaltali missa makarnir tveggja klukkustunda svefn á hverri nóttu. Þegar tölfræðin tekur svo mið af meðal líftíma sambanda, sem er 24 ár, safnast tímarnir saman og verða að tveimur árum.

Tímamótasamningur Evrópusambandsins

Tímamótasamningur um loftslagsmál var samþykktur núna rétt fyrir hádegið af 27 leiðtogum ríkja Evrópusambandsins sem sitja loftslagsráðstefnu í Brussel.

Óbeinar auglýsingar takmarkaðar

Framkvæmdaráð Evrópusambandsins hefur lagt fram tillögu að takmörkun á óbeinum auglýsingum í sjónvarpi. Nýju reglurnar myndu banna óbeinar auglýsingar í öllu barnaefni, fréttum, dægurmálaþáttum og heimildarmyndum í sjónvarpi.

Afi gripinn

Sjö ára telpa olli nokkru uppnámi þegar hún hringdi í neyðarlínuna í bænum Burnett í Wisconsin. Sá starfsmaður neyðarlínunnar sem svaraði, skildi ekki alveg strax af hverju sú stutta hafði hringt, svo hún bara sleppti símanum. Neyðarlínan gat rakið símanúmerið og lögreglubílar voru sendar á staðinn með vælandi sírenur.

Fjórir létust í þyrluslysi á Hawaii

Fjórir létust og þrír slösuðust alvarlega þegar þyrla með ferðamönnum innanborðs fórst á flugvelli á eynni Kauai á Hawaii í gær. Flugmaðurinn var einn hinna látnu, en hann hafði yfir tíu þúsund flugtíma á þyrlunni. Slysið átti sér stað á Princeville flugvellinum eftir miðnætti í nótt að íslenskum tíma.

Evrópubúar í gíslingu óhultir

Fimm evrópubúar og átta eþíópíubúar sem rænt var á afskekktu svæði í Norður-Eþíópíu af uppreisnarmönnum aðskilnaðarsinna, eru óhultir og öryggir. Ismael Ali Gardo, stofnandi Afar aðskilnaðarsinnanna sagði í morgun að mönnunum væri haldið vegna landamæranna í Eritreu. Hann sagði fréttir af mönnunum hafa borist með hirðingjum nálægt byggð Eritrea í Weima.

Ísraelsher notaði mannlega skildi

Ísraelskur mannréttindahópur hefur sakað ísraelska herinn um að nota tvo unga palestínumenn sem mannlega skildi þegar þeir réðust inn á Vesturbakkann til þess að hafa hendur í hári öfgamanna. Hópurinn segist hafa vitnisburð frá þremur ungum drengjum.

Konur krefjast jafnréttis á alþjóðlegum baráttudegi kvenna

Fólk um allan heim hefur í dag fagnað baráttudegi kvenna og heitið því að bæta stöðu þeirra til muna. Angela Merkel, þýski kanslarinn og fyrsta konan í meira en 20 ár til þess að stýra leiðtogafundi Evrópusambandsins, krafðist í dag jafnréttis kynjanna.

Kína færist nær markaðshagkerfi

Kínverska þingið samþykkti í dag ný lög sem munu styrkja einkaeignarétt. Þetta er fyrsta lagasetningin í hinu kommúníska Kína sem að verndar rétt einstaklings til þess að eiga eignir. Stjórnmálaskýrendur segja að þetta sé stórt skref frá fyrri tegund stjórnkerfis þeirra í áttina að markaðshagkerfi. Lögin munu einnig vernda landeigendur fyrir því að stjórnvöld taki lönd þeirra með landnámi.

Flúði Íran og starfar með Bandaríkjunum

Fyrrum aðstoðarvarnarmálaráðherra Írans, sem eitt sinn var yfir Byltingarhernum í Íran, hefur farið frá Íran og vinnur nú með vestrænum stjórnvöldum. Hann er að gefa þeim upplýsingar um starfsemi Hisbollah og tengsl Írans við samtökin samkvæmt því sem háttsettur bandarískur embættismaður skýrði frá í dag.

Markmið um endurnýjanlega orku verða bindandi

Leiðtogar Evrópusambandsins hafa sæst á að gera markmið um endurnýjanlegar orkulindir bindandi. Þetta kom fram í tilkynningu frá sæsnka forsætisráðherranum, Fredrik Reinfeldt, í kvöld. Hann sagði að þrátt fyrir það yrðu nú umræður um hvað það þýddi fyrir hvert og eitt aðildarríki sambandsins.

Vilja hermennina heim fyrir árið 2008

Leiðtogar demókrata í fulltrúadeild bandaríska þingsins hafa lagt til að allar bandarískar bardagasveitir verði kallaðar frá Írak fyrir árið 2008. Þeir segja að Íraksáætlanir George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, hafi mistekist og að Bandaríkin verði að einbeita sér að því að ljúka verkefnum sínum í Afganistan.

Gríðarleg öryggisgæsla vegna komu Bush

Þúsundir lögreglumanna og hermanna hafa verið kallaðir út í borginni Sao Paulo í Brasilíu vegna heimsóknar George W. Bush, forseta Bandaríkjanna. Loftvarnarbyssur hafa verið settar upp í og við göturnar þar nálægt hótelinu sem Bush verður á. Bush mun einnig heimsækja Uruguay, Kólumbíu, Gvatemala og Mexíkó í vikulangri ferð sinni um Suður-Ameríku.

Yfirmaður kjarnorkumála í Kongó handtekinn

Yfirmaður kjarnorkumála í Kongó hefur verið handtekinn vegna gruns um að hann hafi smyglað úrani úr landi. Stjórnandi stofnunarinnar, Fortunat Lumu, og aðstoðarmaður hans voru handteknir á þriðjudaginn var og hafa verið í yfirheyrslum hjá lögreglu síðan.

Hyggjast skera útblástur niður um fimmtung

Leiðtogar Evrópusambandsins munu að líkindum samþykkja á leiðtogafundi sínum að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti fimmtung fyrir árið 2020. Forseti framkvæmdastjórnar sambandsins segir trúverðugleika þess í húfi.

Skjaldborg um Tower of London

Bretar ætla að setja verndarsvæði umhverfis nokkur helstu minnisvarða sína, eins og Tower of London og Stonehenge, til þess að ekki verði byggð mannvirki sem skyggi á menningarfjársjóðina. Þetta var ákveðið eftir að eftirlitsmenn Heimsminjaskrár Sameinuðu þjóðanna hótuðu að lýsa Tower of London í hættu staddan vegna skýjakljúfa sem á að reisa þar í grendinni.

Kínverskt flugmóðurskip

Kínverjar segjast geta hleypt sínu fyrsta flugmóðurskipi af stokkunum árið 2010, sem veldur Bandaríkjamönnum miklum áhyggjum. Þeir óttast að Kínverjar hyggist keppa við þá um yfirráð á Kyrrahafi, og þá ekki síst í grennd við Tævan, sem Kínverjar segjast munu endurheimta með góðu eða illu.

Chirac kveður á sunnudaginn

Búist er við að Jacques Chirac, forseti Frakklands, tilkynni á sunnudaginn að hann muni ekki bjóða sig fram í komandi forsetakosningum. Tilkynnt hefur verið að forsetinn muni flytja ávarp í sjónvarpi klukkan 7 á sunnudagskvöld.

Palestínsk þjóðstjórn kynnt í næstu viku

Palestínsk þjóðstjórn er 99 prósent tilbúin, að sögn Mahmoud Abbas, forseta Palestínumanna. Abbas átti í dag fund með Ismail Haniyeh forsætisráðherra Hamas í núverandi heimastjórn. Ráðherralisti verður kynntur í næstu viku, en líklega ekki fyrr en eftir fund sem Abbas mun þá eiga með Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels.

Skrifræði skrattans

Serbneskur maður varð svo reiður yfir skrifræðinu sem kom í veg fyrir að hann gæti gefið konunni sinni gjöf á baráttudegi kvenna, að hann fór á tollstofuna með járnstöng og braut þar allt og bramlaði. Sasa Dunesijevits keypti á síðasta ári franska örbílinn Axiam 500, sem er svo nettur að það má keyra hann ef maður hefur próf á skellinöðru.

Danir vilja eldflaugar

Danska ríkisstjórnin vill verða þáttakandi í eldflaugavarnakerfinu sem Bandaríkjamenn hyggjast setja upp í Evrópu. Sören Gade, varnarmálaráðherra hefur margsinnis lýst þessu yfir og Per Stig Möller, utanríkisráðherra, er sammála.

Kínverjar til tunglsins

Kínverjar ætla að senda könnunargeimfar til tunglsins á þessu ári og senda mannað geimfar þangað innan fimmtán ára. Kínverjar hafa tvisvar sent mönnuð geimför á braut um jörðu, það fyrra árið 2003. Þeir eru því þriðja geimferðaþjóðin, á eftir Rússum og Bandaríkjamönnum.

Semja verður við uppreisnarmenn

David Petraeus, yfirmaður Bandaríkjahers í Írak, segir útilokað að koma á friði í Írak með hernaðaraðgerðum einum saman heldur verði að fá uppreisnarmenn að samningaborðinu. Á blaðamannafundi í morgun sagði hann teikn á lofti um að átök trúarhópa í landinu væru í rénun.

Mannskæður bruni í Bronx

Mannskæður eldsvoði varð í þriggja hæða íbúðablokk í Bronx-hverfinu í New York í nótt. Níu létust í brunanum, þar af átta börn. Þetta er einn mannskæðasti bruni í New York í seinni tíð segja borgaryfirvöld. Talsmaður slökkviliðs borgarinnar staðfesti tölu látinna í morgun. Minnst tíu að auki slösuðust í brunanum, þar af sex alvarlega.

Vilja láta kjósa í lávarðadeildina

Breskir þingmenn kusu um það í kvöld hvort að það ætti að kjósa í lávarðadeild breska þingsins. Tillagan var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta. Hingað til hafa sæti í deildinni erfst eða verið skipað í þau. Engu að síður er kosningin ekki bindandi en hún gefur til kynna hvað þingið mun leggja til þegar lávarðadeildin verður endurskipulögð síðar á árinu.

Bush gagnrýnir Chavez

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, sagði í viðtali sem birtist í dag að efnahagsstefna Hugo Chavez, forseta Venesúela, myndi leiða til enn meiri fátæktar í landinu. Viðtalið er birt rétt áður en Bush leggst í ferðalag um Suður-Ameríku sem á að vara við hentistefnu af því tagi sem Bush segir Chavez stunda.

Gates vill slaka á innflytjendalögum

Bill Gates, stjórnarformaður Microsoft, varaði við því í dag að höft sem sett eru á að hæfir erlendir starfsmenn megi starfa í Bandaríkjunum skerði samkeppnishæfi landsins. Ummæli Gates eru nýjasta árásin á innflytjendalög í tæknigeiranum í Bandaríkjunum en hann vantar sárlega starfsfólk.

Samkynhneigðir vilja í bandaríska herinn

Tólf fyrrum hermenn í bandaríska hernum, sem eru samkynhneigðir, fóru í dag í mál við ríkisstjórn Bandaríkjanna til þess að fá aftur inngöngu í herinn. Þeim hafði verið vísað úr hernum fyrir að vera samkynhneigð. Í dag er stefna hersins gagnvart samkynhneigðum sú að herinn má ekki spyrja við inngöngu hvort að viðkomandi sé samkynhneigður. Ef það kemst hins vegar upp er hernum heimilt að vísa viðkomandi úr hernum.

Búa til reglur um umgengni við vélmenni

Ríkisstjórn Suður-Kóreu hefur sett saman nefnd sem á að setja vinnureglur fyrir þá sem búa til vélmenni. Reglurnar eiga að skilgreina hvernig mannfólkið á að umgangast vélmenni og hvernig þau eiga að umgangast mannfólkið. Skýrslan verður tilbúin síðar á þessu ári.

Nowak rekin frá NASA

Lisa Nowak, geimfarinn sem reyndi að ræna keppinaut sínum um ástir annars geimfara, hefur verið rekin frá Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA). Brottreksturinn kemur í kjölfar þess að lögregla kærði hana fyrir tilraun til mannráns.

Sjá næstu 50 fréttir