Fleiri fréttir

Harður árekstur á Reykjanesbraut

Erilsamur dagur var hjá lögreglu Hafnarfjarðar í dag en þrjú umferðarslys urðu þar sem slys urðu á fólki. Klukkan sjö í kvöld varð harður árekstur á Reykjanesbraut en tveir bílar úr gagnstæðri átt skullu þá á hvor öðrum og teljast bílarnir mikið skemmdir og nær ónýtir. Báðir ökumenn voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar en þeir eru ekki taldir alvarlega slasaðir samkvæmt vakthafandi lækni.

Á sjöundu milljón króna í biðlaun

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri fær á sjöundu milljón króna í biðlaun þegar hann lætur sjálfviljugur af embætti um áramót. Oddviti L-listanns í bæjarstjórn sakar bæjarstjórann fráfarandi um fullkomið siðleysi.

33 Íslendingar hleraðir

Páll Bergþórsson veðurfræðingur og leikarahjónin Arnar Jónsson og Þórhildur Þorleifsdóttir eru meðal þrjátíu og þriggja einstaklinga sem voru hleraðir á árunum 1949 til 1968. Bresk stjórnvöld hleruðu líka Íslendinga á tímum Þorskastríðsins. Þetta og fleira kemur fram í nýrri bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings.

SÍA vill RÚV áfram á auglýsingamarkaði

SÍA, samband íslenskra auglýsendastofa, sagði í dag í yfirlýsingu að þau efuðust um að takmarka ætti aðgang RÚV að auglýsingamarkaði. Sögðu þau ennfremur það andstætt hagsmunum neytenda og auglýsenda að ekki væri hægt að auglýsa í Ríkisútvarpinu.

Áfengi gæti hækkað í verði um allt að 23 %

Áfengi mun hækka í verði á bilinu fjögur komma þrjú til tuttugu og þrjú prósent með fyrirhugaðri breytingu á áfengisgjaldi og virðisaukaskatti. Mesta hækkunin á bjór, samkvæmt útreikningum birgja, verður rúmlega 21 prósent.

Stjórnarflokkar sammála um RÚV

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa náð saman um að breyta frumvarpi um Ríkisútvarpið til að sætta framsóknarmenn. Breytingarnar eru ekki róttækar og þýða að mestu óbreytt ástand þótt settar verði skorður við kostun dagskrárefnis og auglýsingum á netinu

Ríkið verður af 12,5 milljörðum

Ríkið verður af tekjum sem nema tólf og hálfum milljarði á næsta ári vegna lækkunar matarskattsins frá og með fyrsta mars, verði frumvarpið um matarskattinn samþykkt. Ríkið nær til baka tæpum fjórum milljörðum með því að hækka áfengisgjöld um allt að sextíu prósentum. Lækkuð verðlagsspá færir ríkissjóði annan milljarð til

Eve Online heimurinn stækkar

Framleiðendur tölvuleiksins Eve Online uppfærðu á þriðjudaginn síðastliðinn sýndarveruleikaheim tölvuleiksins. Eftir uppfærsluna verður auðveldara fyrir nýja spilara að koma sér inn í leikinn og geta þeir nú tekið þátt í allflestu mun fyrr en áður var mögulegt.

Dagur rauða nefsins á morgun

Dagur rauða nefsins verður á morgun en þá fer fram söfnunarátak UNICEF - barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna - á landsvísu sem miðar að því að safna heimsforeldrum. Nær söfnunin hámarki með beinni útsendingu á Stöð 2 í opinni dagskrá annað kvöld þar sem fram kemur landslið íslenskrar grínara. Í þættinum Í sjöunda himni með Hemma Gunn sem er á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld kl. 20.05 verður fjallað um þessa útsendingu og fara þeir Sveppi og Hemmi Gunn á kostum eins og sjá má í myndbrotinu.

Átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fíkniefnabrot

Karlmaður á fimmtugsaldri var í Hæstarétti í dag dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fíkniefnabrot . Lögregla stöðvaði manninn við eftirlit fyrir um tveimur árum og fann við bifreið hans fíkniefni.

60 daga fyrir líkamstjón af gáleysi

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms um 60 daga skilorðsbundið fangelsi vörubílstjóra sem ók í ágúst á síðasta ári gegn rauðu ljósi á gatnamótum Suðurlandsbrautar, Laugavegar og Kringlumýrarbrautar með þeim afleiðingum að hann lenti í harkalegum árekstri við strætisvagn. Bílstjóri strætisvagnsins kastaðist út úr honum og hlaut meiri háttar áverka á fótum svo að taka varð þá báða af neðan við hné. Hæstiréttur sýknaði hins vegar vörubílstjórann af broti gegn vátryggingarskyldu þar sem ekki var sannað að bílatrygging hans hafi ekki verið í gildi þegar slysið varð.

Eins árs fangelsi fyrir tvær líkamsárásir

Hæstiréttur staðfesti í dag eins árs fangelsisdóm héraðsdóms yfir karlmanni vegna tveggja líkamsárása á Laugaveginum í september 2004. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa kýlt tvo menn í andlitið þeirra með þeim afleiðingum að annar þeirra hlaut meðal annars blæðingu á bak við vinstri hljóðhimnu og inn í höfuðkúpu og hinn nefbrotnaði.

85 þúsund OR-perur loga um hátíðarnar

Loga mun á um 85 þúsund perum í jólaskreytingum sem Orkuveita Reykjavíkur leggur til um jól og áramót. Fram kemur í tilkynningu frá Orkuveitunni að alls verði 67 grenitré á höfuðborgarsvæðinu skreytt og þá verða settar upp 250 skreytingareiningar eins og toppskraut á stólpum, halastjörnur og jólabjölur.

Þagnar rokkið?

Grasrótarmiðstöð fyrir unga rokkara og aðra tónlistarmenn verður lokað vegna rekstrarerfiðleika um áramót ef ekki kemur til stuðningur frá borginni. Upphafsmaður miðstöðvarinnar segir borgina gera upp á milli tómstundaiðju unglinga.

Björgunarsveitarmenn reyna að bjarga þaki hótels nærri Vík

Fjórtán björgunarsveitarmenn úr björgunarsveitinni Víkverja á Vík í Mýrdal reyna nú að koma í veg fyrir að þakið fjúki Hótel Dyrhólaey sem er um sjö kílómetra vestur af Vík. Að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, er mjög hvasst á svæðinu en björgunarsveitarmennirnir vinna nú að því að reyna að negla þakið niður.

Bílvelta á Hafnarfjarðarvegi

Bílvelta varð á Hafnarfjarðarvegi til móts við Aratún fyrir stundu. Ekki liggur fyrir hvort alvarleg slys hafi orðið á fólki en bílnum mun hafa verið ekið á ljósastaur. Lögregla og sjúkralið eru enn á vettvangi og segir lögreglan í Hafnarfirði að tafir verði á umferð þar sem önnur akreinin á veginum til norðurs er lokuð vegna slyssins.

Óveður á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli

Óveður er nú á Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli, í Staðarsveit og um Fróðárheiði samkvæmt Vegagerðinni. Þá er víða hvasst um vestanvert landið. Stórhríð er á Klettshálsi og skafrenningur víða á fjallvegum á Vestfjörðum.

Kveikt á Ólsóartrénu á Austurvelli á sunnudag

Kveikt verður á ljósunum á Ólsóartrénu á Austurvelli á sunnudaginn kemur klukkan 16. Athöfnin er löngu orðinn árviss viðburður enda rúm hálf öld síðan Norðmenn færðu Íslendingum í fyrsta sinn grenitré að gjöf til að skreyta Reykjavík. Tréð í ár er rúmlega 12 metra hátt og var höggvið í Finnerud í Sørkedalen fyrir utan Osló.

Hollendingurinn játaði sína sök

Eitt umfangsmesta fíkniefnasmygl síðari ára var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þrír Íslendingar og einn Hollendingur eru ákærðir fyrir innflutning og vörslu á fimmtán kílóum af amfetamíni og tíu af kannabis. Íslendingarnir báru af sér sakir en Hollendingurinn játaði að mestu.

Valgerður á ferð í Litháen

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra átti í dag hádegisverðarfund með Petras Vaitiekunas, utanríkisráðherra Litháens þar sem rædd voru tvíhliða samskipti landanna, nýliðinn leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins, öryggis- og varnarmál og Evrópumál.

Brandaraátak á Bylgjunni á Degi rauða nefsins

Bylgjan ætlar að brosa með UNICEF á Degi rauða nefsins föstudaginn 1. desember og verður með brandara- og fjáröflunarátak. Þetta er kjörið tækifæri fyrir einstaklinga og fyrirtæki til að leggja átakinu lið og styrkja bágstödd börn víða um heim. Söfnunin á Bylgjunni gengur þannig fyrir sig að einstaklingar og fyrirtæki geta keypt brandara á Bylgjunni föstudaginn 1. desember og mun allt andvirði renna til UNICEF. Bylgjan og UNICEF hvetja alla til að taka þátt og lyfta vinnuandanum í mesta skammdeginu um leið og góðu málefni er lagt lið.

Actavis kaupir bandarískt lyfjafyrirtæki

Actavis hefur keypt bandaríska lyfjafyrirtækið Abrika Pharmaceuticals fyrir 181 milljón evra eða um 16,5 milljarða króna. Þar af er um helmingur kaupverðsins árangurstengdar greiðslur sem greiddar eru á næstu þremur árum. Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að Abrika sérhæfi sig í þróun og sölu svokallaðra forðalyfja og samheitalyfja sem eru erfið í þróun.

Matarskattsfrumvarp á dagskrá Alþingis í dag

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um matarskattinn er á dagskrá Alþingis í dag. Frumvarpið er í samræmi við tillögur ríkisstjórnarinnar frá 9. október um að lækka matarverð. Virðisaukaskattur lækkar úr fjórtán prósentum í sjö þann 1. mars og vörugjöld af öðru en sykri og sætindum falla niður.

Segir útlit fyrir stöðugra olíuverð

Greiningardeild Glitnis segir horfur á stöðugra olíuverði en að undanförnu eftir OPEC-olíuríkin, sem ráða yfir um 40 prósentum olíuframleiðslu í heiminum, hafi gefið út að þau stefni að því að halda verði á olíufatinu nálægt 60 bandaríkjadölum.

Andstaða gegn aðild að hernaði

Stjórnarandstaðan er andvíg því að Íslendingar taki þátt í hernaðaraðgerðum NATO í Afganistan með loftflutningum á tækjum og mannskap, eins og forsætisráðherra boðaði á leiðtogafundi bandalagsins í Ríga í gær.

Fjórir á rúmlega tvöföldum hámarkshraða

Fjórir ökumenn voru teknir á meira en tvöföldum hámarkshraða á Reykjanesbraut í gærkvöldi og í nótt. Einn ökumaður stakk lögregluna af en hann mældist á rúmlega 200 kílómetra hraða.

Búið að handsama ökuníðing

Lögreglan í Keflavík hafði uppi á ökumanninum, sem er grunaður um að hafa ekið bílnum, sem mældist á rúmlega 200 kílómetra hraða í nótt og nú rétt fyrir fréttir var enn verið að yfirheyra hann. Bíllinn er ófundinn.

Breytingatillögurnar um RÚV breyta litlu

Svonefndar breytingatillögur á auglýsingasölu Ríkisútvarpsins, eftir að það verður gert að opinberu hlutafélagi, virðast fela í sér óbreytt ástand frá því sem nú er.

Heimdallur: tillögur um fjármál flokkanna ganga of langt

Stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, telur tillögur um fjármál stjórnmálaflokka ganga of langt og að í þeim felist óréttmæt skerðing á rétti hins almenna borgara til að styðja við stjórnmálastarfsemi.

Kvikmyndaframleiðendur keppa um íslenskar krimmasögur

Þýskir kvikmyndaframleiðendur keppast við að semja um kvikmyndaréttinn að íslenkum sakamálasögum. Bókaforlagið Veröld hefur selt kvikmyndaréttinn á Þriðja tákninu eftir Yrsu Sigurðardóttur til þýska kvikmyndaframleiðandans Ziegler Film. Samningar hafa líka tekist milli Eddu útgáfu og framleiðenda um sölu á kvikmynda- og sjónvarpsréttinum á sögu Stellu Blómkvist.

Mikil aukning alnæmis vegna kynbundins ofbeldis

Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans hefur áhyggjur af fjölgun alnæmissmita kvenna og stúlkna um allan heim. Ástæðurnar felast einkum í slæmum félagslegum aðstæðum kvenna sem eru fórnarlömb nauðgana, misnotkunar, mansals og vændis. Samtökin sendu frá sér yfirlýsingu þessa efnis vegna alþjóðlega alnæmisdagsins 1.des.

Jón tekur Íraksmálið ekki upp í ríkisstjórn

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, hyggst ekki taka upp Íraksmálið í ríkisstjórn og segir of mikið lesið úr orðum sínum á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins um síðustu helgi. Hart var deilt á ríkisstjórnina vegna málsins á þingi í dag.

RÚV frumvarp afgreitt úr menntamálanefnd

Frumvarp um RÚV ohf. var afgreitt úr menntamálanefnd Alþingis eftir fund þar í kvöld. Var frumvarpið samþykkt með atkvæðum meirihlutans gegn atkvæðum minnihlutans. Fáeinar breytingatillögur voru samþykktar og voru þær flestar tæknilegar. Þó var ákveðið að vefsíða RÚV yrði áfram auglýsingalaus og að kostunarþáttur auglýsingatekna myndi halda sama hlutfalli og hann er í núna, eða um tíu prósent.

Togari sem strandaði laus

Togarinn Skafti SK, sem tók niðri í Hafnarfjarðarhöfn í kvöld, er nú laus. Fór hann út fyrir leiðina sem liggur úr höfninni og festist á svipuðum stað og togararnir tveir sem slitnuðu upp í óveðrinu á höfuðborgarsvæðinu fyrir nokkrum vikum. Skafti SK losaði sig sjálfur þegar flæða tók að og ekki er búist við neinum skemmdum.

Aðstoð við Afgana verður aukin

Íslensk stjórnvöld hyggjast auka framlög til endurreisnar- og þróunarverkefna í Afganistan, auk þess að taka þátt í flutningum fyrir þau aðildarríki NATO sem hafa liðsafla í sunnanverðu landinu. Þessu lýsti Geir H. Haarde forsætisráðherra yfir á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem lauk í dag.

Telja núverandi varnafyrirkomulag ófullnægjandi

Góðar líkur eru á að norski flugherinn hefji reglubundið eftirlitsflug um íslenska lofthelgi. Danir, Bretar og Kanadamenn eru einnig áhugasamir um varnarsamstarf við Íslendinga. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar segja að þetta sýni að samkomulag Íslands og Bandaríkjanna tryggi ekki varnir landsins.

Ráðstöfunartekjur aukast um allt að 9% á næsta ári

Ráðstöfunartekjur fjölskyldu, með meðaltekjur og tvö börn, munu aukast um allt að níu prósent á næsta ári, vegna breytinga á skattkerfinu og samningsbundinna launahækkana. Tekjuskattur mun lækka, persónuafsláttur hækka og barnabætur verða greiddar með börnum allt til 18 ára aldurs.

Dómskerfið íhaldssamt í forsjármálum

Íslenska dómskerfið er íhaldssamt í forsjármálum, að mati stjórnarmanns í Félagi ábyrgra feðra. Hann segir lögin gölluð og vill að dómarar fái heimild til að dæma sameiginlega forsjá yfir börnum.

Atvinnusvæði á Hólmsheiði samþykkt

Tillaga að nýju atvinnusvæði á Hólmsheiði við Suðurlandsveg var samþykkt á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur í dag. Heildarstærð hins nýja athafnasvæðis er um 110 hektarar og er það á mörkum Suðurlandsvegar og Hafravatnsvegar. Markmiðið með skipulagi þessa svæðis er að tryggja stóraukið framboð atvinnulóða í borginni, en miðað er við að skipuleggja svæðið með hliðsjón af fjölbreyttum atvinnulóðum hvað varðar starfsemi, stærð og umfang.

Sjónarhóll fær styrk frá félagsmálaráðuneyti

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra og Andrés Ragnarsson, stjórnarformaður Sjónarhóls, undirrituðu í dag samning um styrk frá félagsmálaráðuneytinu til ráðgjafarmiðstöðvarinnar sem nemur 15 milljónum króna á ári í þrjú ár. Andrés Ragnarsson segist líta svo á að starfsemin hafi hér með verið fest í sessi.

Sjá næstu 50 fréttir