Fleiri fréttir

Lunga hófst í dag á Austurlandi

Lunga listahátíð unga fólksins á Austurlandi hófst í dag. Hátíðin hefur nú náð að festa sig í sessi og hefur vaxið mikið með árunum.

Bifhjólamenn virða ekki hraðatakmarkanir

Lögreglan í Reykjavík vill koma þeim skilaboðum til bifhjólamanna að sömu umferðarreglur gildi um þá og ökumenn bíla. Talsvert hefur borið á því að bifhjólamenn virði ekki hraðatakmarkanir og stingi jafnvel lögregluna af þegar reynt er að hafa afskipti af þeim. Mótorhjólamenn freistast líka til þess að aka milli akreina og stefna þannig sjálfum sér og öðrum í hættu. Aðrir vegfarendur eru einnig hvattir til að tilkynna vítaverðan akstur bifhjóla til lögreglunnar ef þeir ná niður númeri hjólsins.

Meginástæða hás vöruverðs úrelt landbúnaðarkerfi

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir matvælaskýrslu forsætisráðherra ekki fela í sér syndakvittun, þótt stjórnarformaður Baugs lesi úr henni að meginástæðan fyrir háu vöruverði sé úrelt landbúnaðarkerfi, ekki verslunin.

Lítið selst af sumarvörum

Tíðarfarið í sumar hefur haft áhrif á verslun. Kaupmenn sitja uppi með sumarkjóla og sandala enda hafa útsölur á sumarfatnaði hafist mun fyrr en venjulega. Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir veðurfarið vera einn sterkasta áhrifaþáttinn varðandi verslun. Þetta viti allir verslunarmenn og því hafi þeim hjá samtökunum dottið í hug að hringja á nokkra staði og heyra hljóðið í kaupmönnum.

Bændur byggja fjárhús á ný

Sauðfjárbændur eru komnir í sóknarhug og farnir að byggja fjárhús á ný. Stöðug aukning lambakjötsneyslu innanlands veldur því að bestu markaðir erlendis eru í hættu vegna kjötskorts. Fréttastofan tók hús á bændum á Barðaströnd, sem eru að stækka bú sitt úr fimmhundruð upp í áttahundruð kinda bú.

Ríkið græðir á bensínhækkunum

Essóstöðvarnar riðu á vaðið í morgun og hækkuðu verð á bensíni. Hinar stöðvarnar hafa nú fylgt á eftir og kostar lítrinn tæpar 133 krónur í sjálfsafgreiðslu. Framkvæmdastjóri FÍB segist óttast frekari hækkanir.

Saga biskupsstólanna gefin út

Fátt þykir jafngróið íslenskri sögu og biskupsstólarnir á Skálholti og Hólum. Saga þeirra spannar nærfellt 1000 ár og nú er búið að taka helstu þætti sem henni tengjast saman í eina stóra bók.

S&P lækkar lánshæfismat Íbúðalánasjóðs

Standard & Poor´s lækkaði í dag lánshæfismat Íbúðalánasjóðs. Átæðurnar eru minnkandi markaðshlutdeild sjóðsins eftir innkomu bankanna á íbúðalánamarkað haustið 2004 og óvissa varðandi framtíð hans. Þetta kemur fram í Hálf fimm fréttum KB-banka.

Seglskipið Sedov kemur til Reykjavíkur

Á miðvikudaginn næskomandi mun seglskipið Sedov, sem er eitt stærsta og glæsilegasta skip sinnar tegundar, leggjast að Grandabakka í gömlu Reykjavíkurhöfn.

Fjölskylduhátíð í Hrísey

Fjölskylduhátíð fullveldisins verður haldin í Hrísey um næstu helgi og er gert ráð fyrir að um 4000 manns verði í eyjunni.

Afbrotatölur þessa árs

Afbrotatölur fyrstu sex mánaða þessa árs í lögregluumdæmum, Álftanesar, Garðabæjar og Hafnarfjarðar sýna að frá árunum 2000-2005 hefur brotum eins og innbrotum, þjófnuðum, eingaspjöllum og líkmsárásum farið fækkandi og eru nú 9% færri í ár en þau voru árið 2000, þrátt fyrir mikla fölgun íbúa.

Nýr ritstjóri á Nýju Lífi

Heiðdís Lilja Magnúsdóttir hefur verið ráðin sem ritstjóri á tímaritinu Nýju Lífi. Heiðdís Lilja er píanókennari að mennt en hefur starfað hjá Nýju Lífi síðastliðin fimm ár.

Ungur maður kærður fyrir nauðgun

Sextán ára stúlka hefur kært ungan mann fyrir að hafa nauðgað sér í bíl í Reykjavík í nótt og þrjá vini hans fyrir að hafa ekki komið sér til hjálpar, en þeir voru í bílnum.

Esso hækkar bensínverð

Olíufélagið Essó hækkaði verð á bensínlítra um 3,80 krónur í morgun og kostar lítrinn nú í sjálfsafgreiðslu tæpar 133 krónur.

Reglur við Þingvallavatn hertar

Umhverfisráðherra hefur með reglugerð hert til muna reglur um umgengni við Þingvallavatn. Gerðar eru strangari kröfur en almennt er, hvað varðar frárennsli frá byggingum og lagningu og viðhald vega. Þá eru gerðar ýtarlegar kröfur til ræktunarframkvæmda og notkunar áburðar í landbúnaði við vatnið og hvers kyns fiskeldi í eða við vatnið verður bannað.

Hlaup byrjað úr Grænalóni

Hlaup er byrjað úr Grænalóni, vestanvert á Skeiðarársandi og verður þess væntanlega vart undir Núpsvatnabrú. Hlaup úr Grænalóni eru tíð, gerast jafnvel jafnvel tvisvar á ári.

Kjararáð skipað

Skipaður hefur verið nýr úrskurðaraðili, kjararáð, sem ætlað er að ákveða laun og starfskjör alþingismanna, ráðherra og dómara og annarra ríkisstarfsmanna sem ekki eru ráðnir til starfa með hefðbundnum hætti vegna eðli starfanna eða samningsstöðu.

MP banki aðili að kauphöllum í Eystrasaltsríkjum

Stjórnir kauphallanna í Tallin í Eistlandi, Riga í Lettlandi og Vilníus í Litháen hafa samþykkt aðild MP banka að kauphöllunum. Bankinn er fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið með aðild að þessum kauphöllum.

Umhverfisráðherra hvetur til afnáms á skaðlegum niðurgreiðslum

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra hvatti til afnáms á niðurgreiðslum sem geta haft skaðleg áhrif á umhverfið og til aukinnar þátttöku atvinnulífsins í baráttu gegn loftslagsbreytingum á fundi evrópskra umhverfisráðherra í Turku í Finnlandi.

Fjórir handteknir vegna nauðgunarkæru

Lögreglan í Reykjavík hefur handtekið fjóra unga karlmenn vegna nauðgunarkæru. Ung kona kærði nauðgun upp úr miðnætti og var flutt í neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb nauðgana á Landsspítalanum. Jafnframt hófst rannsókn, sem leiddi til handtakanna. Lífsýni hafa verið tekin úr mönnunum og verða þeir svo yfirheyrðir í dag. Verknaðurinn átti sér stað í heimahúsi. Á þessari stundu eru frekari málsatvik óljós, að sögn lögreglu.

Íslenskar kartöflur

Fyrstu nýju kartöflurnar úr sunnlenskum görðum koma á markað á höfuðborgarsvæðinu í dag. Það verða Premier kartöflur , sem Birkir Ármannsson í Vestur Holti í Þykkvabæ, byrjaði að taka upp í morgun.

Engar rútuferðir á morgun

Íslensk kona ásamt fjögurra mánaða ungabarni og eiginmanni sínum er ein þeirra sex Íslendinga sem enn eru strandaglópar í Beirút. Íslendingarnir voru komnir upp í rútu í hádeginu í dag þegar þeim var vísað út og sagt að Norðmenn gengju fyrir. Enn er óvíst um að Íslendingarnir komist áleiðis heim á morgun.

Stjórnsýsluúttekt gerð á Strætó

Gerð verður rekstrar- og stjórnsýsluúttekt á Strætó að beiðni borgaryfirvalda. Borgarfulltrúi í stjórn fyrirtækisins segir meirihlutann í borgarstjórn hafa verið upplýstan um þjónustuskerðingu fyrirtækisins.

Segir borgaryfirvöld velja einkabílinn.

Formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands segir þjónustuskerðingu Strætó bitna illilega á námsmönnum. Ráðamenn í borginni velji einkabílinn fyrir borgarbúa.

Fluttur frá Borgarnesi til Reykjavíkur eftir líkamsárás

Maður var fluttur á slysadeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss í Fossvogi í nótt eftir líkamsárás. Atvikið átti sér stað á Mótel Venus fyrir utan Borgarnes. Áverkar mannsins virtust miklir í fyrstu en við skoðun í Fossvogi reyndist hann ekki mikið skaddaður heldur einungis með glóðarauga og bólgið andlit. Búið er að útskrifa manninn.

Smáskífa Nylon selst vel í Bretlandi

Fyrsta smáskífa hljómsveitarinnar Nylon í Bretlandi endaði í 29. sæti sölulistans eftir vikuna. Smáskífan "Losing a Friend" kom í verslanir á mánudag og var uppseld í stórum hluta verslana í miðborg London sama dag. Meðal þeirra sem þurftu að láta í minni pokann fyrir Nylon flokknum eru meðlimir hljómsveitarinnar Red Hot Chili Peppers sem einnig gáfu út smáskífu í vikunni.

Íslendingar skildir eftir í Beirút

Íslendingunum í Beirút, höfuðborg Líbanons, var meinað að yfirgefa borgina í rútum þar sem Norðmenn voru látnir ganga fyrir. Utanríkisráðherra segist vonsvikinn vegna málsins, en brýnt þótti að fólkið kæmist heim hið fyrsta vegna þess stríðsástands sem ríkir í landinu.

Rændi úr peningakassanum og sló afgreiðslukonu

Maður á þrítugsaldri, með klút fyrir andlitinu, rændi verslun í vesturbæ Reykjavíkur klukkan fjögur í gærdag. Hann var kominn í peningakassann þegar afgreiðslukona kom að honum og reyndi að stöðva hann. Hann sló hana þannig að hún féll í gólfið og hvarf á brott á bíl. Konan sem hann réðst á náði númeri bílsins og gat því veitt lögreglu gagnlegar upplýsingar. Tæplega þremur tímum síðar var hann handtekinn og gistir nú fangageymslur lögreglu en verður yfirheyrður síðar í dag.

Beltin björguðu

Talið er að bílbelti hafi bjargað því að ekki fór verr þegar bíll valt út af veginum í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi um kvöldmatarleytið í gær. Að sögn lögreglu var fernt í bílnum og sluppu þau öll ómeidd enda öll með bílbelti.

400 e-töflur fundust við húsleit í Keflavík

Lögreglan í Keflavík handtók á föstudagskvöld sex manns vegna fíkniefnaviðskipta. Við húsleit fundust um 400 e-töflur, 15 grömm af amfetamíni og lítilræði af kókaíni. Fólkinu hefur öllu verið sleppt. Markaðsvirði e-taflnanna gæti numið um einni og hálfri milljón. Þrír gistu svo fangageymslur lögreglunnar í Keflavík í nótt vegna ölvunar, þar á meðal ökumaður sem tekinn var snemma í morgun fyrir ölvunarakstur en brást illa við og beit lögregluþjón.

Vopnað rán í Krónunni í Mosfellsbæ

Maður vopnaður hnífi ógnaði starfsfólki Krónunnar í Mosfellsbæ seint í gærkvöldi, heimtaði peninga og hafði á brott með sér talsvert fé. Fimm aðrir eru taldir tengjast ráninu. Tólf mínútur í ellefu var lögreglu tilkynnt um ránið og sautján mínútum síðar náðist sá grunaði vopnaður hnífi. Um miðnætti voru meintir vitorðsmenn hans handteknir í heimahúsi. Allir sex gistu fangageymslur lögreglunnar í Reykjavík í nótt og verða þeir yfirheyrðir í dag.

Segir landbúnaðaráðherra ráða of miklu

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vill að vörugjald og tollvernd af búvöru verði afnumin eins og róttækustu dæmi í skýrslu formanns matvælanefndar sýna. Hann segir landbúnaðarráðuneytið ráða of miklu um matvælaverð í landinu.

Nilfisk hótar Nilfisk lögsókn

Meðlimir Stokkseyrarbandsins Nilfisk, eiga yfir höfði sér lögsókn að hálfu ryksuguframleiðandans Nilfisk. Ryksugurisinn krefst þess að hljómsveitin samnefnda breyti heiti sínu og að allur varningur hennar verði gerður upptækur.

139 hlauparar lögðu af stað úr Landmannalaugum

Það voru 139 ofurhugar sem lögðu af stað úr Landmannalaugum í morgun með það að markmiði að hlaupa Laugaveginn inn í Þórsmörk, um 55 km leið. Þrátt fyrir slæma veðurspá var veðrið sæmilegt í morgun og meira að segja sólarglæta.

Þrjú ker gangsett í skála 3

Endurgangsetning á þremur kerjum í skála 3 í Álverinu í Straumsvík í dag tókst með ágætum en engin framleiðsla hefur verið í skálanum síðan í júní. Til stendur að endurgangsetja öll kerin á næstu vikum og mánuðuðum.

Útafakstur á Ólafsfjarðarvegi

Bíll keyrði út af Ólafsfjarðarveginum milli Akureyrar og Dalvíkur um eittleytið í dag. Ökumaður var á leið í norður og missti stjórn á bíl sínum á móts við bæin Hátún með þeim afleiðingum að hann keyrði út af veginum, velti bílnum og endaði ofan í skurði. Ökumaður var einn í bílnum og sat fastur. Kalla þurfti tækjabíl á vettvang sem klippti manninn út úr bílnum. Maðurinn er lítillega slasaður og var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Ökumaður er grunaður um ölvun.

Afnám verndartolla gangi að íslenskum landbúnaði dauðum

Á vef Landssambads kúabænda, naut.is, skrifar Þórólfur Sveinsson pistil í dag undir fyrirsögninni "Allt í lagi" hættan. Þar fjallar Þórólfur um umfjöllun Kastljóssins um skýrslu matvælanefndar sem birt var í gær. Hann segir viðmælendurna hafa verið á þeirri skoðun að það væri allt í lagi að fella niður tolla á erlendar landbúnaðarvörur til verndar íslenskum matvælum. Þessi hugsunarháttur sé hættulegur því augljóst sé að ef smásöluverð lækki til jafns við það sem kemur fram í skýrslunni sé ekkert fjármagn eftir til að borga starfsmönnum laun. Atvinnugrein sem hafi ekki efni á launagreiðslum hljóti hverfa.

Stöð 2 og Sýn hækka

Fyrirtækið 365 hefur sent frá sér tilkynningu um hækkun á áskriftarstöðvum sínum frá og með 20. júlí næstkomandi. Áskrift að Stöð 2 og erlendum pökkum hækkar um 8% og áskrift að Sýn um 12% fyrir M12 áskrifendur en 13% í almennri áskrift.

Sjá næstu 50 fréttir