Fleiri fréttir

Eldandi fjölskyldumaður í London

Sálar popparinn og eitísgoðið Paul Young heldur tónleika í Hörpu í byrjun október. Kjartan Guðmundsson sló á þráðinn til söngvarans í London, fræddist um smellina, röddina og átrúnaðargoðin og náði að kría út úr honum uppskrift að dýrindis pastasósu.

Segir vændisstarfsemi viðgangast á stefnumótasíðu

Verkefnastýra hjá Stígamótum segir vændisstarfsemi viðgangast á íslenskri stefnumótasíðu þar sem fólk selur meðal annars kynlífsmyndbönd af sjálfu sér. Eigandi síðunnar þvertekur fyrir að um vændi sé að ræða, síðan sé ætluð fólki sem aðhyllist svokölluð djörf stefnumót.

Setti bílrúðuvökva í drykk starfsmanns

Starfsmaður á meðferðarheimilinu Geldingalæk þurfti að leita sér aðhlynningar á spítala eftir að unglingur á heimilinu laumaði eitruðum vökva í glas hjá honum.

Fjársjóðsleit við Íslandsstrendur

Sesselja Ómarsdóttir dósent lærði að kafa á síðasta ári. Ástæðan fyrir því var áhugi hennar á lífverum undirdjúpanna sem mögulega er hægt að nýta í lyf framtíðarinnar. Sesselja sagði Sigríði B. Tómasdóttur frá því hvað getur leynst á hafsbotninum.

Bjarni Benediktsson hefur efasemdir um jarðarkaup Nubos

Það þarf að fara mjög vandlega yfir það hvaða skilyrðum það á að vera háð þegar aðilar ytan Evrópska efnahagssvæðisins sækjast eftir því að kaupa jarðir og lönd á Íslandi, segir Bjarni Bendiktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Vísi. Bjarni segir það alls ekki vera sjálfgefið að fallast eigi á slíkt í öllum tilvikum. Kínverski auðjöfurinn Huang Nubo hefur, sem kunnugt er, sóst eftir að kaupa 300 ferkílómetra á Grímsstöðum á Fjöllum.

Flugvél hvolfdi á Hellu

Flugvél hvolfdi eftir að henni hlekktist á í flugtaki á Helluflugvelli í gærkvöld. Tveir voru í flugvélinni þegar atvikið átti sér stað en þá sakaði ekki. Lögreglan á Hvolsvelli og Rannsóknarnefnd flugslysa rannsaka málið.

Lúðvík tekur sæti á Alþingi

Lúðvík Geirsson hefur ákveðið að taka sæti Þórunnar Sveinbjarnardóttur á Alþingi á morgun. Þórunn tilkynnti óvænt á þingfundi á föstudaginn að hún hygðist láta af þingstörfum og setjast á skólabekk í Háskóla Íslands.

Dýrbítar drápu þrettán kindur

Að minnsta kosti þrettán kindur hafa drepist á tveimur vikum vegna dýrbíta sem ganga lausir í Rangárvallasýslu. Allt bendir til þess að dýrbítarnir séu hundar, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli. Sjö kindur fundust dauðar í Vestur-Landeyjum aðfararnótt laugardagsins ásamt þremur særðum lömbum. Í vikunni áður var búið að drepa þrjú lömb í Vestur - Landeyjum. Þá fundust jafnframt þrjú dauð lömb í Fljótshlíðinni.

Ekið á tíu ára barn

Ekið var á tíu ára gamlan dreng á hjóli í Laugardalnum um fimmleytið í dag. Hann var fluttur á slysadeild. Talið er að drengurinn hafi fótbrotnað en ekki er vitað um frekari meiðsl, samkvæmt upplýsingum frá sjúkraflutningamönnum. Drengurinn var með hjálm á höfðinu þegar óhappið varð.

Líðan konunnar stöðug

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti við Landspítalann í Fossvogi rétt fyrir klukkan tvö í dag með konu sem hafði veikst alvarlega í Hvannagilshnausum, sunnan við Álftavatn, fyrir hádegi í dag. Læknir á bráðamóttöku spítalans segir að ástand konunnar sé stöðugt en ekki liggur fyrir nákvæmlega hvers eðlis veikindi hennar eru.

Hópur fólks handtekinn fyrir að efna til vatnsslags

Hópur ungs fólks sem boðaði til vatnsslags í almenningsgarði í Teheran höfuðborg Írans var handtekinn vegna uppátækisins á föstudaginn. Boð voru send út um slaginn á Facebook og var fólk hvatt til að mæta með vatnsbyssur og vatnsblöðrur. Lögreglustjóri staðfestir við írönsku fréttastofuna Mehr að fólkið hafi verið handtekið. Hann segir að fólk sem taki þátt í gjörningi af þessu tagi sé annað hvort heimskt eða beri enga virðingu fyrir lögunum. Hann segir að hart verði tekið á þeim sem efni til slíkra viðburða.

Íbúðin í Arnarsmára ónýt

Íbúðin við Arnarsmára í Kópavogi sem kviknaði í fyrr í dag er ónýt, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni. Eldurinn kom upp rétt fyrir klukkan ellefu. Varðstjóri hjá slökkviliðinu segir að enginn hafi verið í íbúðinni. Slökkvistarfi var að mestu leyti lokið fyrir hádegi en eldur hafði þá kraumað í íbúðinni um stund.

Japanir þökkuðu fyrir sig

Töluverður fjöldi fólks lagði leið sína á viðburðinn ,,Brosandi börn" í Háskólann í Reykjavík í gær til að njóta japanskrar menningar og styðja börn á hamfarasvæðunum í Japan. Vinir Japans og samtökin Fræið í Háskólanum í Reykjavík stóðu fyrir viðburðinum, en tilgangurinn var meðal annars að þakka Íslendingum stuðning og samhug eftir hamfarirnar í vor. Dagskráin var fjölbreytt og gæddu gestir sér m.a. á sushi, kökum og tei, brutu pappír, teiknuðu, dönsuðu og kepptu í japönskum leikjum. Sýndar voru allar japanskar bardagaíþróttir og er það í fyrsta sinn sem það er gert á Íslandi.

Darling segir að Brown hefði átt að hætta fyrr

Alistair Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta, segir að hann hefði átt að þrýsta meira á Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra, um að láta af embætti forsætisráðherra. Fjármálaráherrann fyrrverandi sakar Brown um að hafa haldið of fast í völdin á meðan ringulreið og krísa ríkti í ríkisstjórninni.

Forsætisráðherra stendur við fyrri yfirlýsingar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra stendur að fullu við yfirlýsingar sínar um að hlutur launa í landsframleiðslu hefði lækkað mikið og aldrei verið lægri. Ummælin lét hún falla í umræðum á Alþingi á föstudaginn. Samtök atvinnulífsins rengja þessar tölur forsætisráðherrans Umrædd hlutföll, 59% og 72%, séu af hugtakinu vergum þáttatekjum, ekki landsframleiðslu. Vergar þáttatekjur eru mun lægri fjárhæð en verg landsframleiðsla, segja Samtök atvinnulífsins. Jóhanna Sigurðardóttir segist hafa stuðst við tölur Hagstofunnar og vísar ásökunum um rangfærslur á bug.

Jóhanna hvergi á förum

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er hvergi á leið úr pólitík og mun leiða ríkisstjórnina í gegnum þann pólitíska vetur sem í vændum er, segir Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.

Má ekki einblína á virkjanagerð og verksmiðjur

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir að ekki megi einblína eingöngu á stórar fjárfestingar eins og virkjanagerð og verksmiðjuuppbyggingu í því augnamiði að efla atvinnulífið hér á landi. Árangur í hagkerfi tuttugustu og fyrstu aldarinnar felist fyrst og fremst í hugviti og þekkingu. Hann segir mikilvægt að líta til þess þótt það sé ekki alltaf stórt í sniðum.

Vonast til þess að ná stjórn á Bani Walid í dag

Bráðabirgðastjórnin í Líbíu vonast til þess að ná bænum Bani Waild, sem er eitt síðasta vígi Muammars Gaddafis, á sitt band án bardaga í dag. Uppreisnarmenn telja að Gaddafi hafi verið í felum í borginni ásamt tveimur sona sinna en flúið þaðan í gær.

Þyrlan sótti veika konu

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út nú fyrir hádegið til að sækja konu sem veiktist alvarlega í Hvannagilshnausum, sunnan við Álftavatn. Von var á því að þyrlan myndi lenda á spítala í Reykjavík um hádegisbil. Ekki er vitað með vissu hvers eðlis veikindi konunnar eru.

Miklir vatnavextir í Múlakvísl

Rafmagnsmastur sem staðsett var í varnargarðinum við Múlakvísl féll í gærkvöldi en miklir vatnavextir hafa verið í ánni að undanförnu. Örlygur Jónasson starfsmaður hjá Rarik segist hafa fengið fréttir frá Vegagerðinni í gærmorgun um að varnargarðurinn gæti gefið sig og lét þá aftengja rafmagnslínuna, en um svokallaða tengilínu er að ræða sem flytur rafmagn á milli Víkur og Klausturs. Engin truflun varð þó á sambandi enda er um nokkurksonar varalínu að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni stafa vatnavextirnir fyrst og fremst vegna mikilla rigninga síðustu daga sem og bráðnun jökla en farið er að sjatna í ánni nú.

Búið að slökkva eldinn í Arnarsmára

Búið er að slökkva eldinn sem kom upp í íbúð í Arnarsmára í Kópavogi nú í morgun. Enginn var í búðinni þegar eldurinn kom upp, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hve miklar skemmdir urðu á íbúðinni.

Eldur í Arnarsmára

Eldur kom upp í íbúð í Arnarsmára í Kópavogi nú í morgun. Enginn er í íbúðinni, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu. Við segjum nánar frá þessu síðar í dag þegar meiri upplýsingar hafa borist.

Gaddafi flúinn frá Ban Walid

Muammar Gaddafi, fyrrverandi einræðisherra Líbíu, er sagður hafa flúið frá bænum Bani Walid eftir að uppreisnarmenn gáfu stuðningsmönnum hans stuttan tíma til að gefast upp í gær. Uppreisnarmenn segja að þeir muni ekki gefast upp fyrr enn Gaddafi náist, lífs eða liðinn.

Þúsundir manna á Ljósanótt

Talið er að allt að 60 þúsund manns hafi verið á Ljósanótt í Reykjanesbæ í gær, laugardag. Hátíðin náði hámarki með stórglæsilegri flugeldasýningu sem björgunarsveitamenn sáu um. Hátíðin fór að mestu leyti vel fram en þó handleggsbrotnaði níu ára gömul stúlka í gær þegar hún festi hendina í leiktæki í tívolíinu og var hún flutt með sjúkrabíl á sjúkrahús. Lögreglan segir að fjöldi fólks hafi skemmt sér frameftir nóttu og næturlífið hafi farið vel fram.

Strauss-Kahn kominn heim

Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, kom til Parísar um fimmleytið í nótt að íslenskum tíma ásamt eiginkonu sinni. Þau hafa verið í New York í Bandaríkjunum allt frá því að Strauss-Kahn var handtekinn og sakaður um að hafa brotið kynferðislega gegn herbergisþernu á hóteli í maí. Hann hefur alltaf neitað ásökunum og málið hefur nú verið fellt niður vegna ótrúverðugleika herbergisþernurnar. Strauss-Kahn sagði upp störfum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fljótlega eftir að hann var handtekinn.

Dominique Strauss-Kahn líklegast á heimleið

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, yfirgaf íbúð sína í New York í dag. Talið er að hann hafi ætlað til Frakklands, en það er heimaland hans.

Jörð skelfur víða

Jörðin skelfur víðar en í Kötlu. Nokkrir skjálftar hafa mælst á Reykjanesi í kvöld. Líkt og í Kötlu eru skjálftarnir undir þremur á Richter. Jón Frímann Jónsson, sem fylgist með jarðhræringum, sagði á vefsíðu sinni í dag að Katla væri byrjuð að bólgna út, sem venjulega þýðir að kvika streymi inn í eldstöðina. Þó er ekki fullvíst hvað er á seyði og jarðskjálftafræðingar á Veðurstofunni eru rólegir yfir stöðu mála.

Nasistaforingi deyr 97 ára að aldri

Ungverski Nasistinn Sandor Kepiro lést í dag. Hann var um tíma einn mest eftirlýsti Nasisti í heimi. Kepiro var 97 ára gamall Réttað var yfir honum vegna stríðsglæpa í Búdapest í vor og telur lögmaður hans að hann hafi orðið mjög veikur af þeim réttarhöldum. Hann var sakaður um að bera ábyrgð á dauða 36 gyðinga og Serba árið 1942.

Lottóvinningurinn gekk ekki út

Það var enginn með allar réttar l lottóinu í kvöld. Fyrsti vinningur sem var rúmar fimm milljónir gekk því ekki út. Tölurnar voru 10 15 16 20 39 og bónustalan var 36. Það var heldur enginn með allar fimm Jókertölurnar réttar í réttri röð. Tölurnar voru 5 5 5 5 5. Einn var með fjórar réttar Jókertölur í réttri röð. Hann fær 200 þúsund krónur í sinn hlut.

Alvarlegt slys á Ljósanótt

Alvarlegt slys varð í leiktæki á hátíðarsvæði á Ljósanótt í dag. Níu ára gömul telpa hlaut opið beinbrot og ljótan áverka þegar hún festi handlegg í tívolítæki. Hún var flutt með sjúkrabíl til Reykjavíkur í aðgerð, eftir því sem fram kemur á vef Víkurfrétta. Þar segir jafnframt að leiktækið hafi verið tekið úr umferð um tíma en síðan aftur tekið í notkun eftir að breytingar höfðu verið gerðar á því. Engar upplýsingar var að hafa um málið þegar Vísir leitað þeirra hjá lögreglu.

Skjálftahrina í Kötlu

Svo virðist sem jarðskjálftahrina hafi hafist í Kötlu í dag. Hingað til eru stærstu skjálftarnir innan við 3 á Richter á 1,1 kílómetra dýpi. Jón Frímann Jónsson, sem fylgist mikið með jarðhræringum á Íslandi, segir hins vegar að gæði skjálftanna séu góð. Flestir skjálftar eiga upptök sín í Hábungu. Jarðskjálfti var einnig í Kötlu í gær og var hann yfir þrír.

Lítil nýliðun meðal augnlækna áhyggjuefni

Formaður Augnlæknafélags Íslands segir fækkun augnlækna hér á landi geta valdið því að sérþekking á ákveðnum sviðum hverfur. Það getur tekið allt að tíu ár að þjálfa nýja sérfræðinga í augnlækningum.

Þúsundir skelltu sér á Hamraborgarhátíð

Þúsundir Kópavogsbúa nutu veðurblíðunnar á Hamraborgarhátíð í Kópavogi í dag. Hamraborginni var breytt í göngugötu, sölutjöldum var slegið upp og um 120 manns seldu gamalt dót og nýtt beint úr skottinu á bílnum sínum.

Skotinn í hálsinn í átökum glæpasamtaka

Tveir ungir menn eru alvarlega særðir eftir að þeir voru skotnir margsinnis í Køge í nótt. Annar mannanna er leiðtogi glæpasamtakanna Black Cobra, segir fréttastofa TV2. Mennirnir voru skotnir um hálffjögurleytið í nótt að dönskum tíma, eða um hálftvö að íslenskum. Lögreglan á Mið- og Vestursjálandi segir að ástæður skotárásarinnar sé persónulegt uppgjör. Fréttavefur Ekstrabladet fullyrðir að annar mannanna hafi verið skotinn í hálsinn.

Handtekinn fyrir að bíta snák

Karlmaður er í gæsluvarðhaldi í Kalíforníufylki vegna gruns um að hann hafi bitið snák. Andrew Pettit, yfirlögregluþjónn í Sacramento, segir að maðurinn sem heitir David Senk, sé sakaður um að misþyrma skriðdýrinu.

Starfsmenn fagna fimmtíu ára afmæli Lyngáss

Fjöldi núverandi og fyrrverandi starfsmanna dagheimilisins Lyngáss ætlar að koma saman á laugardag eftir viku til þess að fagna því að þá eru 50 ár liðin síðan dagheimilið var fyrst opnað. Halla Jónsdóttir þroskaþjálfi segir þarna vera kominn kjörinn vettvang fyrir alla þá sem hafa starfað á dagheimilinu þennan tíma geti hist og rifjað upp gamla tíma.

Kristján Valur nýr vígslubiskup

Séra Kristján Valur Ingólfsson hefur verið kjörinn vígslubiskup í Skálholti. Kjörfundi lauk þann 26. ágúst síðastliðinn og atkvæði voru talin í dag. Á kjörskrá voru 149 manns og greidd voru 142 atkvæði. Séra Kristján Valur fékk 80 atkvæði en séra Sigrún Óskarsdóttir fékk 61 atkvæði. Einn seðill var auður.

Fannst brunninn í bíl sínum

Karlmaður fannst brunninn inn í bifreið sinni í bænum Frederikshavn í Danmörku í morgun. Lögreglan var kölluð á vettvang klukkan tíu í morgun og hefur rannsakað málið síðan þá. Ekki höfðu verið borin kennsl á manninn á hádegi í dag að dönskum tíma. Bíllinn, sem er af gerðinni Mazda 626, fannst á Katsigvej við Katsig Bakker. Bent Højgaard, varðstjóri hjá lögreglunni, segir að líkið hafi verið nokkuð sviðið. Á þessari stundu er ekkert sem bendir til saknæms athæfis í tengslum við andlát mannsins en lögreglan útilokar þó ekkert á þessari stundu.

500 manns í skýrslutöku vegna morðs

Lögreglumenn í Manchester þurfa að taka skýrslur af hundruðum manna í leitt sinni að manni sem grunaður er um að hafa orðið allt að sjö manns til bana á Stepping Hill spítalanum í Manchester. Talið er að eitrað hafi verið fyrir hinum látnu. Rebecca Leighton, 27 ára gamall hjúkrunarfræðingur við spítalann, var grunuð um verknaðinn. Málið gegn henni var látið niður falla í gær vegna skorts á sönnunargögnum. Málið gegn henni gæti þó verið tekið upp aftur ef frekari sönnunargögn finnast.

Lifrarbólgusmitaður læknir fær bætur

Skurðlæknir á Landspítalanum sem varð fyrir slysi og smitaðist af lifrarbólgu C við vinnu sína fær bætur vegna slyssins, samvkæmt niðurstöðu Úrskurðarnefndar almannatrygginga frá því í síðustu viku. Með úrskurðinum var snúið við synjun Sjúkratrygginga ÍSlands sem áður hafði hafnað bótakröfu úr slysatryggingum almannatrygginga.

Vatíkanið hafnar ásökunum írska forsætisráðherrans

Vatíkanið hafnar algjörlega fullyrðingum írska forsætisráðherrans, Enda Kenny, um að Vatíkanið hafi reynt að koma í veg fyrir tilraunir írskra biskupa til þess að afhjúpa kynferðisbrotamál innan kirkjunnar. Í svokallaðri Cloyne skýrslu sem kom út fyrir nokkru er fullyrt að kynferðisleg misnotkun í Cork í Írlandi hefði verið þögguð niður. Í ræðu sinni í írska þinginu í júlí sagði Kenny svo að kirkjan tæki orðspor sitt framyfir hagsmuni þolenda kynferðisofbeldisins. Vatíkanið segir að skömm sé af umræddum kynferðisbrotum en ásakanir Kennys séu algerlega órökstuddar.

Þörf á unglingafangelsi

Ný stofnun þar sem hægt væri að vista fanga undir átján ára aldri er nauðsynleg til þess að hægt sé að lögfesta Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Slík stofnun er meðal þeirra úrræða sem Barnaverndarstofa bendir á að greinagerð til velferðarráðuneytisins um úrbætur í barnaverndarmálum. Greinargerðinni var dreift á Alþingi í gær. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir að tvær tillögur felist í greinagerðinni. Sú fyrri miði að því að hægt verði að lögfesta Barnasáttmálann.

Bandaríkin búa sig undir Lee

Úrhellisrigning var í suðurhluta Lousianafylkis í Bandaríkjunum í morgun en hitabeltisstormurinn Lee nálgast landið og er nú rétt fyrir utan Mexíkóflóa með tilheyrandi vindhviðum. Dagblaðið Los Angeles Times segir að búist sé við því að stormurinn muni valda miklum flóðum í Alabama, Louisiana og Missisippi. Yfirvöld hafa tekið þessum fréttum mjög alvarlega og hefur neyðarástandi verið lýst yfir í Louisiana og Mississippi og sumstaðar hefur fólk verið hvatt til þess að yfirgefa heimili sín. Einungis örfáir dagar eru síðan fellibylurinn Írena gekk yfir Bandaríkjanna og olli töluverðum skaða.

Læknum fækkaði um 10%

Læknum á íslenskum heilbrigðisstofnunum hefur fækkað um meira en 10 prósent síðan þeir voru hvað flestir árið 2008 og þar til nú.

Sjá næstu 50 fréttir