Fleiri fréttir

Egyptar kjósa um bann við trúarlegum stjórnmálaflokkum

Rólegt var á kjörstöðum í Egyptalandi í dag en kosið var um breytingar á stjórnarskrá landsins. Allir helstu stjórnarandstöðuflokkar höfðu sagt fylgismönnum sínum að sniðganga þær þar sem þær banna trúarlega stjórnmálaflokka.

Fyrsti fanginn fyrir endurbættan herrétt

David Hicks, sem er fangi í Guantanamo fangelsi Bandaríkjamanna og ásakaður um að hafa barist gegn þeim í Afganistan, fór í dag fyrir herrétt Bandaríkjamanna. Hicks á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi ef hann verður fundinn sekur. Hann hefur þegar eytt fimm árum í fangelsinu í Guantanamo. Hann er fyrsti fanginn sem fer fyrir hinn nýja dómstól sem notaður í málum gegn föngum í Guantanamo.

Misskilningur Landssambands eldri borgara

Stjórn Landsambands eldri borgara viðurkennir nú að heilbrigðisráðherra hafi farið að lögum um úthlutun Framkvæmdasjóðs og að málin hafi verið rædd á fundi sjóðsstjórnarinnar. Ásakanir um frjálslega meðferð ráðherra á fé sjóðsins hafi verið misskilningur.

Leynifundur D og VG er slúður segir Steingrímur J.

Steingrímur J. Sigfússon segir það rakalausan þvætting og slúður að hann og Geir Haarde hafi rætt mögulega stjórnarmyndun eftir kosningar á leynifundi í liðinni viku. Sagan sé runnin undan rifjum spunameistara framsóknarmanna og sé í raun alvarleg óheilindaásökun á Geir H. Haarde. Um helgina hefur verið mikið slúðrað um meintan leynifund Geirs Haarde og Steingríms J. og hafa fylgt spekúlasjónir um að þar væru menn að kanna grunn að mögulegu stjórnarsamstarfi eftir kosningar. Þetta segir Steingrímur að sé rakalausan þvætting sem runnin sé undan rifjum spunastráka Framsóknarflokksins. Þar vísar Steingrímur til bloggsíðu Péturs Gunnarssonar sem birti fyrst þessa sögu - en Pétur hefur gengt trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn. Segir Steingrímur að þetta feli í sér alvarlega ásökun á Geir Haarde þar sem hann sé í raun borin þeim sökum að hafa rofið trúnað við Framsóknarflokkinn.

Tamíl-tígrar gerðu loftárás

Upplýsingafulltrúi norræna vopnahléseftirlitsins á Srí Lanka segir ekki of djúpt í árina tekið að segja landið ramba á barmi borgarastyrjaldar. Þrír týndu lífi og 16 særðust í loftárás Tamíl-tígra á herflugvöll í höfuðborginni Colombo. Loftárásin er sú fyrsta sem tígrarnir gera.

Sundabrautaráhugi er gömul samþykkt

Samþykkt stjórnar Faxaflóahafna á miðvikudag, um aðkomu að Sundabrautinni, er endurtekning á samþykkt sem gerð var undir lok ársins 2005 í tíð Reykjavíkurlistans. Núverandi minnihluti segir sorglegt, fyrir hagsmuni borgarbúa, að það skipti máli, í samskiptum ríkis og borgar, hvaða litur sé á valdhöfum í borginni.

Samið um að draga Wilson Muuga á flot

Freistað verður þess að draga flutningaskipið Wilsons Muuga af strandstað í maí og verður hafist handa strax eftir páska að þétta skipið, samkvæmt samkomulagi sem er í burðarliðnum milli eigenda og stjórnvalda.

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks styður ekki aðferð borgarstjóra

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er andvígur þeirri aðferð borgarstjóra að nota tugi ef ekki hundruð milljóna króna af skattfé almennings til að kaupa út spilasali úr íbúðahverfum borgarinnar. Kjartan telur skynsamlegra að vinna gegn slíkri starfsemi með því að setja inn ákvæði í lögreglusamþykkt eða deiliskipulag.

Hvað má og hvað má ekki?

Suma vöru og þjónustu er heimilt að selja en þær má hins vegar ekki auglýsa. Svo er annað sem leyfilegt er að auglýsa en harðbannað að ástunda.

Sögulegt samkomulag í höfn

Sögulegt samkomulag tókst í dag um myndun heimastjórnar á Norður-Írlandi. Leiðtogar Sambandsflokksins og Sinn Fein sömdu um þetta á fundi í morgun en þar til þá höfðu þeir aldrei hist augliti til auglits.

Krefja Hótel Sögu um bætur

Aðstandendur hvataferðar klámframleiðenda, sem fyrirhuguð var í Reykjavík í þessum mánuði en ekkert varð af, ætla að krefja Hótel Sögu um bætur fyrir að úthýsa þeim. Lögmaður hópsins segir að málið fari fyrir dóm, verði krafan ekki greidd, og útilokar ekki meiðyrðamál.

Segir ESB-aðild handan við hornið

Ísland mun ganga í Evrópusambandið fyrr en síðar, ekki síst vegna vaxandi þrýstings atvinnulífsins. Þetta er skoðun Jóns Baldvins Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra.

Sagði mikla annmarka á bókhaldi Baugs á árunum 2000 og 2001

Fyrsta degi í munnlegum málflutningi í Baugsmálinu lauk laust eftir klukkan fjögur í dag eftir að Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari, hafði eftir hádegið farið yfir hluta af þeim köflum ákærunnar sem snúa að meintum bókhaldsbrotum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, og Tryggva Jónssonar, fyrrverandi aðstoðarforstjóra fyrirtæksins.

Vilja jafnræði í fréttaumfjöllun

Samtökin Hagur Hafnarfjarðar segja flesta fjölmiðla hafa sniðgengið staðreyndir og flutt fréttir frá Sól í Straumi gagnrýnislaust. Hins vegar sé ekki jafnræði í viðtölum til handa samtökunum og Sól í Straumi. Hagur Hafnarfjarðar er fylgjandi stækkun Álversins. Í yfirlýsingu mótmæla samtökin rangfærslum frá Sól í Straumi og segja þær til þess ætlaðar að ala á tortryggni.

Talibanar boða árásir á þýska hermenn

Einn af leiðtogum Talibana í Afganistan segir að þegar þeir hefja sókn sína í sumar muni þeir beina byssum sínum að þýskum hermönnum og hermönnum annarra þjóða sem hingaðtil hafa að mestu sloppið við áökt. Klerkurinn Obaidullah Akhund segir að sexþúsund ungir hermenn séu reiðubúnir að fórna sér fyrir Allah í komandi átökum.

Halldór slasaðist á æfingu

Fresta þarf frumsýningu leiksýningarinnar Grettis sem frumsýna átti í Borgarleikhúsinu á föstudag um þrjár vikur. Ástæðan er sú að Halldór Gylfason leikari, sem leikur sjálfan Gretti, meiddist í baki á æfingu á laugardaginn. Hann sagði í samtali við fréttastofu að hann væri „hundsvekktur."

Fjórir umhverfisráðherrar gegn Sellafield

Umhverfisráðherrar fjögurra landa hafa sent breskum stjórnvöldum beiðni um að opna ekki endurvinnslustöðina í Sellafield á nýjan leik. Umhverfisráðherrar Íslands, Noregs, Írlands og Austurríkis eru nú á fundi í Belfast, til að leggja áherslu á andstöðu sína við Sellafield. Stöðinni var lokað árið 2005 eftir innanhúss leka á mjög geislavirkum úrgangi.

Innbrotsþjófar á Akureyri

Lögreglan á Akureyri handtók karlmann á veitingastað í bænum aðfararnótt laugardags. Maðurinn var að tína veigar af barnum þegar lögreglan kom að. Hann gerði misheppnaða flóttatilraun og gisti fangageymslur lögreglu um nóttina. Við húsleit á heimili mannsins daginn eftir kom í ljós að hann var búinn að útbúa gróðurhús í einu herberginu til kannabisræktunar.

Mús „rændi“ hraðbanka

Mús japlaði á sem svarar hundruðum þúsunda íslenskra króna, eftir að hafa skriðið inn í hraðbanka í Eistlandi. Dýrið fannst eftir að viðskiptavinur kvartaði út af músarétnum peningaseðlum í útihraðbanka í höfuðborginni Tallin. Bankaöryggisdeild rannsakar nú hvernig músinni tókst að komast inn í vélina.

Á hraðri leið til...

Portúgölsk samtök sem berjast fyrir betri umferðarmenningu hafa skrifað páfa bréf þar sem þau biðja hann um sjá til þess að prestur nokkur sem á 150 hestafla Ford Fiesta, falli ekki í þá freistni að aka of hratt. Faðir Antonio Rodrigues er eini maðurinn í Portúgal sem á Ford Fiesta 2000 ST.

Lagasetning til varnar lögreglumönnum við störf

Embætti ríkislögreglustjóra fagnar breytingu á lögum um refsingu fyrir brot gegn lögreglumönnum við störf. Með lagasetningunni verður einnig refsivert að aftra lögreglu frá því að gegna skyldustörfum. Slík brot geta varðað allt að tveggja ára fangelsi. Sex ára fangelsisdómur var áður hámark refsingar fyrir brot gegn opinberum starfsmönnum sem hafa heimild til líkamlegrar valdbeitingar. Hámarkið hækkar nú í átta ár.

Mönnum bjargað af bílþaki

Tveir karlmenn sátu kaldir og hraktir á þaki jeppabifreiðar sem sökk niður í krapa á Gjábakkavegi milli Þingvalla og Laugarvatns í hádeginu í dag. Þeim var bjargað eftir klukkustund en höfðu náð að komast þurrir upp á þak bifreiðarinnar. Björgunarsveitin Ingunn kom á staðinn skömmu eftir að mennirni hringdu á hjálp og sendi eftir sérhæfðum björgunarbátaflokki sveitarinnar.

Loftárás bætir við fleiri óvissuþáttum

Þrír týndu lífi og 16 særðust í loftárás Tamíl-tígra á herflugvöll nærri Colombo, höfuðborg Srí Lanka, í gærkvöldi. Þetta er í fyrsta sinn sem tígrarnir gera loftárás og segir upplýsingafulltrúi norræna vopnahléseftirlitsins þetta bæta við fleiri óvissuþáttum í landinu.

Skjaldborg um forstjóra Baugs

Vitnisburður aðila sem vilhallir eru undir Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóra Baugs, snerist um að slá skjaldborg um forstjórann og afmá fingraför hans af málinu. Þetta sagði Sigurður Tómas Magnússon saksóknari í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hann sagði Jón Ásgeir og Tryggva Jónsson fyrrverandi aðstoðarforstjóra hafi sviðsett mótsaganarkennda frásögn af aðkomu Jóns að meintum ólöglegum lánveitingum.

Falsaður peningaseðill í umferð

Falsaður þúsund krónu seðill fannst í vikunni við uppgjör á sundstað á Akranesi. Seðillinn var viðvaningslega falsaður og datt hreinlega í sundur við meðhöndlun, að sögn lögreglu. Þung viðurlög eru við peningafölsun hér á landi. Þau geta varðað allt að 12 ára fangelsi. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu.

Samráð um 28 milljóna króna hámark í auglýsingar

Stjórnmálaflokkarnir hafa komið sér saman um 28 milljóna króna hámark á birtingu auglýsinga í fjölmiðlum á landsvísu í kosningabaráttunni. Eftirlitsaðili fylgist með því að samkomulagið sé ekki brotið og birtir reglulega tölur fram að kosningum um birtingarkostnað hvers flokks.

Minna um ölvunarakstur um helgina

Þrettán ökumenn voru teknir ölvaðir við akstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Að sögn lögreglu er það í minna lagi. Mjög öflugt eftirlit var í gangi og stöðvaði lögregla nokkur hundruð ökumenn víðsvegar um umdæmið. Átta hinna ölvuðu voru stöðvaðir í Reykjavík, tveir í Hafnarfirði og Kópavogi og einn á Kjalarnesi. Ein kona var í hópnum.

Sögulegt samkomulag á Norður-Írlandi

Ian Paisley leiðtogi Sambandsflokksins og Gerry Adams leiðtogi Sinn Fein hafa komist að samkomulagi um myndun heimastjórnar á Norður-Írlandi. Stjórnin tekur til starfa 8. maí. Þetta er sögulegt samkomulag en þar til í dag höfðu leiðtogar Sambandsflokksins og Sinn Fein aldrei fundað.

Erlendur námsmaður myrtur í Jemen

Erlendur námsmaður fórst og annar særðist þegar uppreisnarmenn sjíta gerðu árás á háskóla í norðurhluta Jemen í dag. Ekki hefur verið gefið upp hvaðan námsmaðurinn var en Reuters-fréttastofan segist hafa heimildir fyrir því að hann hafi verið franskur.

Mjólkuriðnaður falli undir samkeppnislög

Samtök verslunar og þjónustu fagna ummælum forstjóra Mjólkursamsölunnar um að mjólkuriðnaður falli undir samkeppnislög. Guðbrandur Sigurðsson forstjóri MS sagði á aðalfundi Auðhumlu að eðlilegt væri að fyrirtækið beitti sér fyrir niðurfellingu á opinberri verðlagningu mjólkur. Þetta segir í frétt frá samtökunum. Í búvörulögum er ákvæði sem undanskilur mjólkuriðnað frá samkeppnislögum á ýmsan hátt.

Íranir hætta ekki auðgun úrans

Mahmoud Ahadinejad forseti Íran segir að ekki verði hætt við kjarnorkuáætlun landsins þrátt fyrir hertar efnahagsþvinganir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hann segir á vefsíðu sinni að Íranir muni „aðlaga“ samskipti sín við þær þjóðir sem standi að ályktun ráðsins. „Íran mun ekki hætta við sína löglegu og friðsamlegu kjarnorkuáætlun, við munum ekki hika eina sekúndu vegna þessarar ólöglegu ályktunnar“, segir á vefsíðu forsetans, www.president.ir. „Íranska þjóðin mun ekki gleyma því hver studdi og hver hafnaði ályktuninni þegar við aðlögum alþjóðleg samskipti okkar,“ án þess að gefa til kynna hvað slík aðlögun felur í sér.

Berlínarályktun undirrituð

Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna samþykktu í dag ályktun um að endurbætur verði gerðar á stofnanakerfi ESB innan tveggja ára. Hálf öld er í dag frá undirritun Rómarsáttmálans og var þeim tímamótum fagnað í Berlín.

Haldi lífi í dreifðari byggðum

Innflytjendur og farandverkafólk hafa, í mörgum tilfellum, hleypt miklu lífi í dreifðari byggðir Bretlands og Skotlands við að setjast þar að. Þetta segir breskur sérfræðingur í málefnum innflytjenda í dreifbýli. Hún geldur þó varhug við að stuðla að flutningi á svæði þar sem miklir erfiðleikar steðji að innfæddum.

Óhræddir á Ísafirði

Eigendur Netheima á Ísafirði eru hvergi bangnir þrátt fyrir umræðu um að allt sé á hverfandi hveli fyrir vestan um þessar mundir.

Hataði hann og myrti

Hæstiréttur í Suður-Afríku hefur nú til meðferðar mál gegn morðingjum Gísla Þorkelssonar, sem myrtur var á hrottafenginn hátt þar í landi sumarið 2005. Aðalsakborningurinn hefur játað að hafa skotið hann en gengst ekki við því að morðið hafi verið framið að yfirlögðu ráði.

Má borga skatt af vændi

Fólki verður ekki bannað að greiða skatt af vændi, segir ríkisskattstjóri. Íslenskur karlmaður hyggst greiða virðisaukaskatt af blíðu sem hann kveðst hafa selt fiskverkunarkonu. Lögspekingar telja langsótt að kæra fjármálaráðherra, sem yfirmann ríkisfjármála, fyrir að hafa tekjur af vændi.

Miklar vegaframkvæmdir fara illa saman með uppbyggingu stóriðju

Það fer illa saman að ætla sér að leggja Sundabraut og tvöfalda Hvalfjarðargöng á sama tíma og uppi eru áform um stækkun og uppbyggingu nýrra álvera, segir framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Nauðsynlegt sé að auka útflutning, meðal annars á áli, til að vinna gegn gríðarlegum viðskiptahalla, en samgöngumannvirki eigi að skipuleggja til lengri tíma.

Ekki lengur magur og fagur

Vífilfell, framleiðendur Coca-Cola á Íslandi hafa ákveðið að hætta framleiðslu á kóladrykknum TAB. Enn á eftir að framleiða eina lotu af TAB í hálfslítra flöskum og má búast við að birgðirnar af því endist fram eftir vori. Eftir það verður TAB ekki fáanlegt hér á landi.

Ný stjórnarskrá ESB fyrir 2009

Leiðtogar Evrópusambandsríkja skrifuðu í dag undir yfirlýsingu þess efnis að stjórnarskrá sambandsins verði endurnýjuð á næstu tveimur árum og leidd í gildi árið 2009. „Berlínaryfirlýsingin“ er hún kölluð og var undirrituð í tilefni af 50 ára afmæli Rómarsáttmálans. Angela Merkel, kanslari Þýskalands sagði að þessu tilefni að ekkert væri því til fyrirstöðu að nefnd kæmi saman síðar á þessu ári til að ræða nýja stjórnarskrá.

Myrti og brenndi fyrrverandi kærustu

Nítján ára nemi í A&M háskólanum í Texas, Tynesha Stewart, var myrt af fyrrverandi kærasta sínum sem síðan bútaði lík hennar í sundur og brenndi líkið á grilli að sögn lögreglu. Lögregla hefur handtekið þann sem grunaður er um ódæðið, Timothy Shepherd, hann er 27 ára og er sagður hafa kyrkt stúlkuna vegna þess að hann var afbrýðisamur því hún var komin með nýjan kærasta. Lögregla leitar ekki lengur líkamsleifa Tynesha þar sem þeir segja litlar líkur á að nokkuð finnist í brunarústunum. Timothy hefur játað verknaðinn.

Sjá næstu 50 fréttir