Fleiri fréttir

Margrét ætlar að taka sæti ef hún fær það

Margrét Sverrisdóttir, sem sagt var upp störfum í gær sem framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, ætlar að taka sæti á lista flokksins ef hún fær það í leiðbeinandi forvali hjá flokknum. Margrét telur skýringar formannsins fyrir uppsögn sinni ekki nægjanlegar.

Verkfall í almenningssamgöngum á Ítalíu

Starfsmenn almenningssamgangna um gjörvalla Ítalíu eru í eins dags verkfalli í dag, sem hamlar neðanjarðarlestakerfum, sporvögnum og rútusamgöngum. Þetta hefur hins vegar ekki áhrif á lestarsamgöngur í landinu. Síðast fór samgöngustarfsfólkið í verkfall þann 17. nóvember og þar á undan þann 6. október.

Pólskukennari ráðinn við grunnskóla á Ísafirði og í Önundarfirði

Búið er að ráða pólskukennara til að kenna pólskum börnum í Grunnskólanum á Ísafirði og Grunnskóla Önundarfjarðar eftir því sem segir á vestfirska vefnum Bæjarins besta. Þar kemur einnig fram að brotalöm hafi verið á því að pólskir nemendur fengju kennslu í sínu móðurmáli.

Viðvörun vegna al-Kaída í Bandaríkjunum - Uppfært

Bandaríkin hafa sent út frá sér viðvörun til fjármálastofnanna vegna þess að þeir telja að hætta sé á tölvuárásum frá liðsmönnum al-Kaída á tölvukerfi þeirra. Hótun þess efnis var sett á vefsíðu í dag og var þar sagt að árásirnar yrðu gerðar í hefndarskyni vegna Guantanamo fangelsisins en Bandaríkjamenn halda þar grunuðum hryðjuverkamönnum án þess að hafa dæmt þá fyrir nokkuð.

Hringur á hálfan milljarð

Demantar eru víst bestu vinir kvenna og bráðlega verður 28 karata bleikur demantur besti vinur einhverrar konu. Demanturinn, sem er á hring, er metinn á um 7 milljón dollara, eða um hálfan milljarð íslenskra króna. Hann verður seldur á uppboði hjá Sotheby's í New York þann sjötta desember ef einhvern vantar jólagjöf.

Rice hvetur Arabaríki til þess að styðja við Íraka

Condoleezza Rice hvatti í dag leiðtoga Arabaríkja til þess að styðja betur við bakið á írösku þjóðinni í þeim erfiðleikum sem hún gengur í gegnum um þessar mundir. Hún tók líka fram að þeir hefðu hreinlega ekki efni á því að hafa borgarastyrjöld sem gæti breiðst út nálægt sér. Hún sagði að allir vissu að ef Írak myndi vegna vel myndi velmegun svæðisins aukast gríðarlega.

Ekki nóg avókadó í gvakamóleinu

Bandarísk kona hefur farið í mál við matarframleiðandann Kraft þar sem gvakamóle ídýfan þeirra innihélt ekki nóg avókadó en í hefðbundu gvakamóle er avókadó víst aðalinnihald ídýfunnar frægu. Eftir að konan hafði notað gvakamóleið frá Kraft til þess að búa til þriggja laga ídýfu fyrir veislu sem hún hélt komst hún að því að það var bara ekkert avókadóbragð af henni.

Forseti Mexíkó vígður í embætti á morgun

Væntanlegur forseti Mexíkó, Felipe Calderon, verður vígður í embættið á morgun og ætlar sér að halda athöfnina í þinghúsinu eins og stjórnarskráin mælir fyrir. Það gæti hins vegar verið vandkvæðum bundið þar sem stjórnarandstöðuþingmenn sem þar sitja hafa tekið yfir hluta af þinghúsinu. Urður meðal annars slagsmál á milli þingmanna sem styðja Calderon og þeirra sem styðja Obrador, þann sem tapaði, í vikunni sem leið.

Ekki búist við Kastró í stjórnmál á ný

Fjölskylda Fidels Kastró hefur sagt honum að taka því rólega og taka ekki þátt í hátíðarhöldum sem marka bæði 80 ára afmæli hans sjálfs sem og 50 ára afmæli uppreisnarinnar á Kúbu. Þetta sagði dóttir Raul Kastrós í dag en Raul er yngri bróðir Fidels. Kúbverskir embættismenn hafa verið duglegir við að segja fréttir af góðum bata Kastró og segja sífellt að hann muni taka við stjórninni á ný.

Harður árekstur á Reykjanesbraut

Erilsamur dagur var hjá lögreglu Hafnarfjarðar í dag en þrjú umferðarslys urðu þar sem slys urðu á fólki. Klukkan sjö í kvöld varð harður árekstur á Reykjanesbraut en tveir bílar úr gagnstæðri átt skullu þá á hvor öðrum og teljast bílarnir mikið skemmdir og nær ónýtir. Báðir ökumenn voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar en þeir eru ekki taldir alvarlega slasaðir samkvæmt vakthafandi lækni.

Sarkozy vill Tyrki ekki í Evrópusambandið

Nicolas Sarkozy, sem ætlar sér að bjóða sig fram til forseta Frakklands á næsta ári, sagði í dag í viðtali á franskri sjónvarpsstöð að hann vildi að öllum viðræðum við Tyrkland um inngöngu í Evrópusambandið væri hætt þar sem "...þeirra staður er ekki í Evrópusambandinu."

Kaffi er gott fyrir heilsuna

Það gæti verið góð hugmynd að fá sér kaffibolla á morgnanna í staðinn fyrir djúsglas ef maður er í hættu á að fá sykursýki af gerð tvö en þetta kom í ljós í bandarískri rannsókn sem var birt nýlega. Í ljós kom að þeir sem drekka fjóra eða fleiri kaffibolla á dag voru í minni hættu á að fá sykursýki tvö en þeir sem fengu sér sjaldan kaffi og eru niðurstöðurnar í samræmi við fyrri rannsóknir.

Páfinn heimsækir mosku

Benedikt páfi heimsótti í dag eina frægustu mosku Tyrklands í tilraun til þess að bæta samskipti trúarbragðanna tveggja, kristni og íslam. Páfi er nú í heimsókn í Tyrklandi í þeim tilgangi og er þetta aðeins önnur heimsókn hvaða páfa sem er á helgistað múslima.

Hústökudraugar í Noregi

Norskur maður hefur neitað að rífa niður gamla hlöðu sem bæjaryfirvöld hafa skipað honum að fjarlægja. Ástæðuna segir hann vera að illar annars heims verur hafi tekið sér bólfestu í hlöðunni. Hlaðan hefur staðið síðan óhreyfð síðan átti að fella hana í febrúar á síðasta ári og fær maðurinn um 3.000 króna sekt fyrir hvern dag sem hún stendur uppi.

Á sjöundu milljón króna í biðlaun

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri fær á sjöundu milljón króna í biðlaun þegar hann lætur sjálfviljugur af embætti um áramót. Oddviti L-listanns í bæjarstjórn sakar bæjarstjórann fráfarandi um fullkomið siðleysi.

Stjórn Líbanons mun ekki segja af sér

Þrátt fyrir aukinn þrýsting Hisbollah-samtakanna sagði forsætisráðherra Líbanon, Fouad Siniora, að stjórn hans muni ekki segja af sér. Hisbollah eru sem stendur að undirbúa stór mótmæli til þess að reyna að koma stjórninni frá en Siniora sagði að stjórnin myndi aðeins víkja ef þingið kæmi henni frá en þar sem stjórnin nyti stuðnings þess, myndi hún sitja áfram.

33 Íslendingar hleraðir

Páll Bergþórsson veðurfræðingur og leikarahjónin Arnar Jónsson og Þórhildur Þorleifsdóttir eru meðal þrjátíu og þriggja einstaklinga sem voru hleraðir á árunum 1949 til 1968. Bresk stjórnvöld hleruðu líka Íslendinga á tímum Þorskastríðsins. Þetta og fleira kemur fram í nýrri bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings.

Afríkusambandið hálft ár í viðbót í Súdan

Afríkusambandið hefur ákveðið að lengja leiðangur friðargæsluliða í Darfur héraði Súdan um sex mánuði en talsmaður sambandsins sagði frá þessu eftir fund öryggisráðs Afríkusambandsins í höfuðborg Nígeríu, Abuja, í dag .

SÍA vill RÚV áfram á auglýsingamarkaði

SÍA, samband íslenskra auglýsendastofa, sagði í dag í yfirlýsingu að þau efuðust um að takmarka ætti aðgang RÚV að auglýsingamarkaði. Sögðu þau ennfremur það andstætt hagsmunum neytenda og auglýsenda að ekki væri hægt að auglýsa í Ríkisútvarpinu.

Veruleiki barna í þriðja heiminum víða skelfilegur

Barn deyr úr malaríu á 30 sekúndna fresti, sjúkdómi sem einungis lyf, sem ekki er völ á fyrir fátæka í þriðja heiminum, vinna á. Þrátt fyrir tækninýjungar og stöðugt flæði upplýsinga, deyja 30 þúsund börn úr hungri dag hvern. Veruleiki barna í fjölmörgum löndum þriðja heimsins er vægast sagt skelfilegur. Hreinlæti er mjög víða ábótavant en yfir 376 milljónir barna þurfa að ganga langa vegalengd

Áfengi gæti hækkað í verði um allt að 23 %

Áfengi mun hækka í verði á bilinu fjögur komma þrjú til tuttugu og þrjú prósent með fyrirhugaðri breytingu á áfengisgjaldi og virðisaukaskatti. Mesta hækkunin á bjór, samkvæmt útreikningum birgja, verður rúmlega 21 prósent.

Stjórnarflokkar sammála um RÚV

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa náð saman um að breyta frumvarpi um Ríkisútvarpið til að sætta framsóknarmenn. Breytingarnar eru ekki róttækar og þýða að mestu óbreytt ástand þótt settar verði skorður við kostun dagskrárefnis og auglýsingum á netinu

Ríkið verður af 12,5 milljörðum

Ríkið verður af tekjum sem nema tólf og hálfum milljarði á næsta ári vegna lækkunar matarskattsins frá og með fyrsta mars, verði frumvarpið um matarskattinn samþykkt. Ríkið nær til baka tæpum fjórum milljörðum með því að hækka áfengisgjöld um allt að sextíu prósentum. Lækkuð verðlagsspá færir ríkissjóði annan milljarð til

Íranir styðja uppreisnarmenn í Írak

Bandarískir embættismenn segja að þeir hafi fundið óhrekjanlegar sannanir fyrir því að Íranir styðji uppreisnarmenn í Írak. Segjast þeir hafa fundið glæný vopn, merkt með ártalinu 2006, á látnum uppreisnarmönnum.

Engin náttúruleg orsök

Rússneskir læknar hafa sagt að þeir hafi ekki fundið neinar náttúrulegar orsakir fyrir veikindum Yegor Gaidar, fyrrum forsætisráðherra Rússlands. Gaidar er maðurinn á bakvið efnahagsumbætur Rússlands. Talsmaður Gaidars sagði að læknar héldu að þetta væri efni sem þeir gætu ekki borið kennsl á en að þeir teldu að of snemmt væri að segja um hvort að efnið væri eitur eða ekki.

Eve Online heimurinn stækkar

Framleiðendur tölvuleiksins Eve Online uppfærðu á þriðjudaginn síðastliðinn sýndarveruleikaheim tölvuleiksins. Eftir uppfærsluna verður auðveldara fyrir nýja spilara að koma sér inn í leikinn og geta þeir nú tekið þátt í allflestu mun fyrr en áður var mögulegt.

Dagur rauða nefsins á morgun

Dagur rauða nefsins verður á morgun en þá fer fram söfnunarátak UNICEF - barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna - á landsvísu sem miðar að því að safna heimsforeldrum. Nær söfnunin hámarki með beinni útsendingu á Stöð 2 í opinni dagskrá annað kvöld þar sem fram kemur landslið íslenskrar grínara. Í þættinum Í sjöunda himni með Hemma Gunn sem er á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld kl. 20.05 verður fjallað um þessa útsendingu og fara þeir Sveppi og Hemmi Gunn á kostum eins og sjá má í myndbrotinu.

Átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fíkniefnabrot

Karlmaður á fimmtugsaldri var í Hæstarétti í dag dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fíkniefnabrot . Lögregla stöðvaði manninn við eftirlit fyrir um tveimur árum og fann við bifreið hans fíkniefni.

60 daga fyrir líkamstjón af gáleysi

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms um 60 daga skilorðsbundið fangelsi vörubílstjóra sem ók í ágúst á síðasta ári gegn rauðu ljósi á gatnamótum Suðurlandsbrautar, Laugavegar og Kringlumýrarbrautar með þeim afleiðingum að hann lenti í harkalegum árekstri við strætisvagn. Bílstjóri strætisvagnsins kastaðist út úr honum og hlaut meiri háttar áverka á fótum svo að taka varð þá báða af neðan við hné. Hæstiréttur sýknaði hins vegar vörubílstjórann af broti gegn vátryggingarskyldu þar sem ekki var sannað að bílatrygging hans hafi ekki verið í gildi þegar slysið varð.

Eins árs fangelsi fyrir tvær líkamsárásir

Hæstiréttur staðfesti í dag eins árs fangelsisdóm héraðsdóms yfir karlmanni vegna tveggja líkamsárása á Laugaveginum í september 2004. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa kýlt tvo menn í andlitið þeirra með þeim afleiðingum að annar þeirra hlaut meðal annars blæðingu á bak við vinstri hljóðhimnu og inn í höfuðkúpu og hinn nefbrotnaði.

Gráglettinn háhyrningur

Gestir í skemmtigarðinum SeaWorld í San Diego, fylgdust skelfingu lostnir með því, í gær, þegar háhyrningur beit þjálfara sinn tvisvar í fótinn og dró hann niður á botn laugarinnar. Þjálfarinn er á sjúkrahúsi, og ekki alvarlega slasaður.

85 þúsund OR-perur loga um hátíðarnar

Loga mun á um 85 þúsund perum í jólaskreytingum sem Orkuveita Reykjavíkur leggur til um jól og áramót. Fram kemur í tilkynningu frá Orkuveitunni að alls verði 67 grenitré á höfuðborgarsvæðinu skreytt og þá verða settar upp 250 skreytingareiningar eins og toppskraut á stólpum, halastjörnur og jólabjölur.

Ungmenni ráðast gegn innflytjendum

Ungmennasamtök í Rússlandi ætla að bjóða fram sjálfboðaliða til þess að fara í eftirlitsferðir umhverfis Moskvu, til þess að hjálpa lögreglunni að berjast gegn glæpum, og grípa ólöglega innflytjendur.

Þagnar rokkið?

Grasrótarmiðstöð fyrir unga rokkara og aðra tónlistarmenn verður lokað vegna rekstrarerfiðleika um áramót ef ekki kemur til stuðningur frá borginni. Upphafsmaður miðstöðvarinnar segir borgina gera upp á milli tómstundaiðju unglinga.

Hinir ósnertanlegu gera uppreisn

Að minnsta kosti tveir hafa látið lífið og fjörutíu særst í óeirðum lágstéttarfólks á Indlandi, sem var að mótmæla því að stytta af leiðtoga þeirra hafði verið vanvirt. Kveikt hefur verið í lestarvögnum og strætisvögnum og yfir 1500 manns handteknir.

Björgunarsveitarmenn reyna að bjarga þaki hótels nærri Vík

Fjórtán björgunarsveitarmenn úr björgunarsveitinni Víkverja á Vík í Mýrdal reyna nú að koma í veg fyrir að þakið fjúki Hótel Dyrhólaey sem er um sjö kílómetra vestur af Vík. Að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, er mjög hvasst á svæðinu en björgunarsveitarmennirnir vinna nú að því að reyna að negla þakið niður.

Bílvelta á Hafnarfjarðarvegi

Bílvelta varð á Hafnarfjarðarvegi til móts við Aratún fyrir stundu. Ekki liggur fyrir hvort alvarleg slys hafi orðið á fólki en bílnum mun hafa verið ekið á ljósastaur. Lögregla og sjúkralið eru enn á vettvangi og segir lögreglan í Hafnarfirði að tafir verði á umferð þar sem önnur akreinin á veginum til norðurs er lokuð vegna slyssins.

Óveður á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli

Óveður er nú á Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli, í Staðarsveit og um Fróðárheiði samkvæmt Vegagerðinni. Þá er víða hvasst um vestanvert landið. Stórhríð er á Klettshálsi og skafrenningur víða á fjallvegum á Vestfjörðum.

Fiðlur á efnum

Ný rannsókn bendir til þess að viður sem ítölsku meistararnir Stradivarius og del Gesu notuðu í fiðlur sínar, hafi verið lagður í einhverskonar efnablöndu, sem bætti hljómgæði hans.

Kveikt á Ólsóartrénu á Austurvelli á sunnudag

Kveikt verður á ljósunum á Ólsóartrénu á Austurvelli á sunnudaginn kemur klukkan 16. Athöfnin er löngu orðinn árviss viðburður enda rúm hálf öld síðan Norðmenn færðu Íslendingum í fyrsta sinn grenitré að gjöf til að skreyta Reykjavík. Tréð í ár er rúmlega 12 metra hátt og var höggvið í Finnerud í Sørkedalen fyrir utan Osló.

Sjá næstu 50 fréttir