Fleiri fréttir

Slapp út úr bíl eftir að hafa ekið út í sjó

Einn maður komst af sjálfsdáðum út úr bíl sínum eftir að honum var ekið út í sjó við Geirsnef við Elliðaárnar um kl. 15 í dag. Tildrög slyssins eru ókunn en mikill viðbúnaður var hjá slökkviliði og lögreglu og voru bæði kafarar og bátur sendir á vettvang. Ökumaður ók ekki á miklum hraða og var ekki ölvaður. Vegfarandi kastaði sér út í árnar til að bjarga manninum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem samskonar slys verður á þessum stað.

Hvalur 9 heldur til veiða í kvöld

Hvalur 9 heldur til hvalveiða í kvöld að sögn Kristjáns Loftssonar, forstjóra Hvals hf, í kjölfar ákvörðuna íslenskra stjórnvalda að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni á ný. Einar K. Guðfinnsson tilkynnti í utandagskrárumræðu á Alþingi í dag að hann hefði tekið þá ákvörðun að leyfa veiðar á níu langreyðum og 30 hrefnum á fiskveiðiárinu 2006/2007 til viðbótar þeim tæpu 40 hrefnum sem veiða á í vísindaskyni.

Sendiráð Íslands taka þátt í kynningu á ákvörðun um hvalveiðar

Kynningarefni á ensku hefur verið útbúið vegna þeirrar ákvörðunar íslenskra stjórnvalda að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni á ný. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra tilkynnti um hana á þingi í dag. Fram kemur í tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu að sendiráð Íslands erlendis muni taka fullan þátt í að kynna sjónarmið Íslands erlendis og svara fyrirspurnum sem kunna að koma í kjölfar ákvörðunar sjávarútvegsráðherra.

Notkun nagladekkja dregst saman um 20% á fjórum árum

Notkun nagladekkja á höfuðborgarsvæðinu hefur dregist saman um 20 prósent á síðustu fjórum árum samkvæmt könnun sem gerð var fyrir framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar í lok síðasta vetrar. Þetta kemur fram á vef framkvæmdasviðs. Þar segir að hlutfallið hafi verið um 65 prósent í febrúar árið 2002 en það er nú komið niður í 52 prósent.

Hvalveiðar í atvinnuskyni hefjast á ný

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra tilkynnti á Alþingi í dag að atvinnuveiðar á hval yrðu hafnar á ný og að leyfðar yrðu veiðar á 9 langreyðum og 30 hrefnum til viðbótar við þær 39 hrefnur sem veiddar verða í vísindaskyni á yfirstandandi fiskveiðiári. Veiðarnar hefjast á miðnætti. Kom þetta fram í utandagskárumræðu sem efnt var til að frumkvæði Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um framtíð hvalveiða við Ísland.

Vona að ekki verði af hvalveiðum

Breska sendiráðið hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fregna af hugsanlegum hvalveiðum Íslendinga í atvinnuskyni þar sem bent er á að margir Bretar muni eiga í vandræðum með að skilja nauðsyn þess að hefja slíkar veiðar. Í tilkynningunni segir að á þettta vilji bresk yfirvöld benda í mestu vinsemd og vona að af veiðunum verði ekki.

Vilja skóla og æfingaaðstöðu á varnarliðssvæði

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna telur að byggja eigi upp skóla og þjálfunaraðstöðu fyrir slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn og æfingasvæði fyrir þessar stéttir og lögreglu, björgunarsveitir og Landhelgisgæslu á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli nú þegar herinn er farinn.

Yfir hundrað sagðir slasaðir eftir lestarslys í Róm

Einn er nú sagður látinn og 110 slasaðir, þar af fimm mjög alvarlega, eftir árekstur tveggja neðanjarðarlesta í jarðlestakerfi Rómar í morgun. Áreksturinn varð við lestarstöð í miðborg Rómar og var torg fyrir ofan stöðina girt af í kjölfar þess.

Aðgerðaáætlun um Einfaldara Ísland samþykkt

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun aðgerðaáætlun um Einfaldara Ísland fyrir árin 2006-2009. Fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu að markmiðið með áætluninni sé að einfalda og bæta opinbert regluverk í þágu atvinnulífs og almennings.

Sökuðu ríkisstjórnina um hernað fólkinu í landinu

Þingmenn Samfylkingarinnar saka ríkisstjórnina um hernað gegn fólkinu í landinu með sérhagsmunagæslu í þágu mjólkuriðnaðar. Landbúnaðarráðherra segir hins vegar að stjórnvöld væru að koma aftan að bændum og mjólkuriðnaði ef samkeppnisumhverfi hans yrði breytt.

Segja refsiaðgerðir jafngilda stríðsyfirlýsingu

Norður-Kóreumenn segja að refsiaðgerðir Sameinuðu þjóðanna vegna kjarnorkutilrauna þeirra jafngildi stríðsyfirlýsingu. Vísbendingar eru um að önnur tilraunasprenging sé í bígerð.

Lést í umferðarslysi á Kjósarskarðsvegi

Maðurinn sem lést í umferðarslysi á Kjósarskarðsvegi í gærmorgun hét Gunnlaugur Jón Ólafur Axelsson. Hann var fæddur þann 31. maí árið 1940 og var til heimilis að Kirkjuvegi 62 í Vestmannaeyjum. Hann lætur eftir sig eiginkonu og þrjú uppkomin börn.

Kvarta til siðanefndar vegna myndbirtingar Nyhedsavisen

Ungliðahreyfing Danska þjóðarflokksins hefur ákveðið að kvarta til siðanefndar danska blaðamannafélagsins vegna þess að Nyhedsavisen birti á dögunum myndir af fundi hreyfingarinnar þar sem félagar teiknuðu skopmyndir af Múhameð spámanni.

Nauðlenti á leið til Íslands

Þota frá norska flugfélaginu Braathens, sem var á leið frá Osló til Keflavíkur, nauðlenti í gær í Stafangri eftir að sprunga kom í framrúðu vélarinnar. 108 farþegar voru um borð í vélinni sem var af gerðinni Boeing 737.

Vilja leyfa innflutning mjólkurvara án tolla

Neytendasamtökin krefjast þess að leyft verði að flytja inn mjólkurvörur með mjög lágum tollum eða án tolla. Þessa kröfu gera samtökin eftir fréttir síðustu daga þar sem fram hefur komið að ákvæði í búvörulögum, sem veita mjólkuriðnaðinum heimild til samráðs, gangi gegn samkeppnislögum og að til standi að sameina flestöll mjólkursamlög í eitt.

Umræður um RÚV og fundarstjórn til miðnættis í gær

Umræður um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins stóðu nánast til miðnættis í gærkvöld og einkenndust af athugasemdum um fundarstjórn forseta. Umræðurnar hófust klukkan fjögur í gær og eftir að deilt hafði verið um fundarstjórn í um klukkustund gat menntamálaráðherra mælt fyrir frumvarpinu.

Ófært yfir Tröllatunguheiði

Ófært er yfir Tröllatunguheiði á Vestfjörðum og þungfært á Þorskafjarðarheiði og Steinadalsheiði samkvæmt Vegagerðinni. Á Klettshálsi er hálka, á Steingrímsfjarðarheiði og Eyrarfjalli eru hálkublettir.

Kári Þorleifsson fundinn.

Lögreglan í Reykjavík lýsti í kvöld eftir Kára Þorleifssyni. Kári er með Downs heilkenni og samkvæmt upplýsingum frá lögreglu talar hann lítið sem ekkert og ratar lítið. Síðast var vitað um ferðir hans í Austurstræti í Reykjavík. Það var svo á tólfta tímanum í kvöld sem Kári fannst, heill á húfi, á gangi í Kópavoginum.

Hátæknifyrirtæki skoða Ísland

Fulltrúar frá stórfyrirtækinu Dow Corning og dótturfélagi þess, Hemlock Semiconductor Corporation, heimsóttu Ísland í síðustu viku til að kanna kosti þess að reisa stóra verksmiðju í hátækniiðnaði hér á landi. Þykir Grundartangi ákjósanlegasti staðurinn, en um tíma var einnig rætt um Eyjafjörð og Þorlákshöfn. Virðast þeir staðsetningarkostir út úr myndinni að því er fram kemur á vefsíðunni Hvalfjörður.is.

30 ríki gætu þróað kjarnorkuvopn

Allt að 30 ríki gætu þróað kjarnorkuvopn ef ekkert verður að gert. Þetta er mat fulltrúa Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar. 9 ríki heims ráða yfir kjarnorkuvopnum nú svo vitað sé.

Lögregla lýsir eftir Kára Þorleifssyni

Lögreglan í Reykjavík lýsir eftir Kára Þorleifssyni. Kári er 23 ára, um 165 cm á hæð, klæddur í gráa úlpu, svartar joggingbuxur og svarta skó. Hann er skolhærður með stuttklippt hár. Kári er með Downs heilkenni, talar lítið sem ekkert og ratar lítið. Síðast var vitað um ferðir hans í Austurstræti í Reykjavík fyrir um klukkustund.

Ólíklegt að Venesúela fái sæti í Öryggisráði SÞ

Litlar líkur eru taldar á því að Venesúela fái sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til næstu 2 ára eftir að Gvatemala hafði betur í sjöundu leynilegu atkvæðagreiðslunni um sæti í ráðinu í dag. Ríkin tvö berjast um sæti sem ríki Rómönsku-Ameríku á rétt á. Annað ríkið þarf að fá 2/3 atkvæða á Allsherjarþingi samtakanna til að hreppa hnossið.

Hvarf á flugi yfir Eystrasalti

Þyrlur frá Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi eru nú við leit af lítilli flugvél sem hvarf á flugi yfir Eystrasalti. Flugmaður og tveir aðrir voru um borð á leið frá Berlín í Þýskalandi til Svíþjóðar.

Nýr diskur og nýr samningur

Bubbi Morthens gaf út nýjan geisladisk og mynddisk í dag og við sama tækifæri undirritaði hann tímamótasamning við Senu um útgáfu verka sinna. Samningurinn tryggir fyrirtækinu útgáfurétt á allri tónlist Bubba fyrr og nú.

Allt hlutafé FL Group í Icelandair selt

FL Group hefur selt allt sitt hlutafé í Icelandair. Forstjóri félagsins segir mikla vaxtarmöguleika í flugi og ferðaþjónustu og áætlar að starfsfólki verði fjölgað en ekki fækkað með nýjum eigendum.

Abramovich í klemmu

Rússneski auðkýfingurinn, Roman Abramovich, gæti þurft að láta eiginkonu sína Irinu fá helming eigna sinna í skilnaðarmáli sem sagt er vera í uppsiglingu.

Hremmingar sænsku stjórnarinnar halda áfram

Cecilia Stego Chilo, menntamálaráðherra Svíþjóðar, sagði af sér embætti í dag eftir að uppvíst varð að hún hefði svikist undan því að greiða sjónvarpsafnotagjöld árum saman. Aðeins tveir dagar eru liðnir frá því að viðskiptaráðherra landsins sagði af sér af svipuðum ástæðum.

Menntamálaráðherra segir Kjartan eiga skýlausan rétt á að sjá gögn um hleranir

Menntamálaráðherra felldi í dag úr gildi ákvörðun þjóðskjalavarðar um að synja beiðni Kjartans Ólafssonar, fyrrverandi alþingismanns og Þjóðviljaritstjóra, um aðgang að gögnum um símahleranir. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir telur að Kjartan eigi skýlausan rétt á að sjá gögnin og segir afar mikilvægt að allt sé uppi á borðum í umræðu um hleranir.

Katsav sakaður um nauðganir

Ísraelska lögreglan telur að nægilegar vísbendingar séu fyrir hendi til að ákæra Moshe Katsav, forseta landsins, fyrir nauðganir, kynferðislega áreitni, umboðssvik og símahleranir.

Hundrað sjóliðar dóu í sprengjutilræði

Um hundrað sjóliðar úr srí-lankska hernum biðu bana í bílsprengjuárás Tamíl-tígra í morgun. Óttast er að tilræðið spilli verulega fyrir friðarviðræðum ríkisstjórnarinnar og tígranna sem fram eiga að fara í lok mánaðarins.

Önnur tilraun með kjarnorkusprengju ekkert annað en ögrun

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segist vona að Norður-Kóreumenn sprengi ekki aðra kjarnorkusprengju í tilraunaskyni. Það myndi aðeins vera hægt að túlka sem ögrun og yrði enn frekar til að einangra þjóðina.

Lögreglustjórinn á Akranesi rannsakar meintar hleranir

Ríkissaksóknari hefur falið lögreglustjóranum á Akranesi að rannsaka ætlaðar hleranir á símum Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrum utanríkisráðherra, og lögfræðings á Varnarmálaskrifstofu ráðuneytisins. Samfylkingin ætlar að beita sér fyrir því að Alþingi skipi sérstaka rannsóknarnefnd til að fara ofan í meintar hleranir.

Sjá næstu 50 fréttir