Fleiri fréttir

Kortavelta dróst saman í september

Kortavelta í september nam 56,2 milljörðum króna sem er um 3,3% minna en mánuðinn á undan. Í Hálf-fimm fréttum KB-banka segir að samdráttinn megi einkum rekja til minnkandi veltu í debetkortum en heildarvelta debetkorta hafi numið rúmum 30 milljörðum króna í september og hafi dregist saman um 9% milli mánaða. Heildarvelta kreditkorta hafi numið rúmum 20 milljörðum króna í september sem sé um 7% hækkun frá ágústmánuði.

Vilja aftur að samningaborðinu

Norður-kóreumenn eru tilbúnir til að snúa aftur að samningaborðinu og ræða næstu skref í kjarnorkudeilu sinni við vesturveldin. Alexander Alexeyev, vara-utanríkisráðherra Rússlands, sagði þetta í viðtali við Itar-Tass fréttastofuna síðdegis í dag. Ekki kemur fram í fréttinni að stjórnvöld í Pyongyang setji nokkur skilyrði fyrir því að hefja viðræður á ný eftir tæplega eins árs hlé.

Ungt fólk getur auðveldlega nálgast fíkniefni

Mjög auðvelt er fyrir ungt fólk að nálgast fíkniefni. Unglingur á vegum fréttaskýringarþáttarins Kompáss gat á skömmum tíma komist yfir þó nokkurt magn fíkniefna, sem ritstjóri þáttarins skilaði svo til lögreglu í dag. Lögreglan tók við efnunum og boðaði ritstjórann í yfirheyrslu vegna málsins.

Ban Ki-Moon næsti framkvæmdastjóri SÞ

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna skipaði í kvöld Ban Ki-Moon, utanríkisráðherra Suður-Kóreu, í embætti framkvæmdastjóra samtakanna. Hann tekur við af Kofi Annan um næstu áramót.

Úrskurður um gæsluvarðhald felldur úr gildi

Hæstiréttur felldi í dag úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að maður skuli sæta gæsluvarðhaldi til 21. nóvember næstkomandi vegna rannsóknar á stórfelldu fíkniefnasmygli. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 15. ágúst. Fram kemur í úrskurði Héraðsdóms að maðurinn er grunaður um að hafa aðstoðað tvo aðra menn sem teknir á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins 9. ágúst sl. með töluvert af fíkniefnum meðferðis. Maðurinn er grunaður um að hafa skipulagt, haft milligöngu um og fjármagnað ferð mannanna tveggja sem teknir voru með fíkniefnin.

Skattbyrði jókst hvergi meira en á Íslandi

Aukin skattbyrði á síðasta ári nemur svipaðri upphæð og heildarútgjöld ríkisins til menntamála á þessu ári. Stefán Ólafsson, prófessor, segir að skattbyrðin á Íslandi hafi aukist þrisvar sinnum meira en í Bandaríkjunum, sem glími við kostnað af tveimur styrjöldum. Fjármálaráðherra segir auknar tekjur ríkissjóðs hafa skilað sér í aukinni velferðarþjónustu.

Verða af flýttum starfslokum

Starfsmenn álversins í Straumsvík, sem sagt er upp störfum á seinni árum starfsævinnar, missa af flýttum starfslokum sem starfsmönnum með langan starfsaldur hjá fyrirtækinu bjóðast samkvæmt kjarasamningi.

Hefði getað breytt sögunni

Leiðtogafundurinn í Höfða var enn dramatískari en áður var talið. Þetta sýna skjöl sem nýverið voru gerð opinber þar sem samtöl Gorbatsjovs og Reagans eru birt orðrétt. Aðeins vantaði herslumuninn til þess að fundurinn hefði breytt heiminum varanlega og gert hann að betri og öruggari stað, að mati bandarísks fræðimanns sem lesið hefur hvert einasta orð sem leiðtogunum og ráðgjöfum þeirra fór á milli

Íslensk leyniþjónusta í varnarsamningnum

Ríkisstjórnin skuldbindur sig til að stofna íslenska leyniþjónustu í varnarsamningnum, segir talsmaður Þjóðarhreyfingarinnar og telur það furðuleg vinnubrögð að leggja ekki gjörbreyttan varnarsamning fyrir Alþingi.

Bandaríkjamenn milda ályktun til öryggisráðsins

Bandaríkjamenn hafa sent öryggisráði Sameinuðu þjóðanna nýja og mildari ályktun um aðgerðir gegn Norður-Kóreumönnum, en andstaða var við fyrri tillögur frá Rússum og Kínverjum. Í nýju ályktuninni eru viðskiptahöft milduð og ekki gert ráð fyrir hernaðaraðgerðum.

Enn eitt hneykslið hjá Repúblíkönum

Fyrsti bandaríski þingmaðurinn hefur nú játað á sig mútuþægni í máli Jack Abramoffs, fulltrúa þrýsihóps sem hefur verið sakfelldur fyrir að bera fé á þingmenn. Bob Ney er fulltrúadeildarþingmaður Repúblíkanaflokksins frá Ohio. Hann dró framboð sitt til þingkosninganna í næsta mánuði til baka í ágúst þegar ljóst var að bandaríska dómsmálaráðuneytið hafði hafið rannsókn á tengslum hans við Abramoff. Ney mun segja af sér þingmennsku á næstu dögum.

Verðlaunaféð fer í sjúkrahús og matvælaverksmiðju

Bangladessbúinn Mohammad Yunus og Grameen smálána-bankinn sem hann stofnaði og veitir fátækum lán, deila með sér friðarverðlaunum Nóbels í ár. Verðlaunaféð, um 100 milljónir króna, mun Yunus nota til að koma á fót verksmiðju sem framleiðir ódýr matvæli með miklu næringargildi auk þess að koma á fót í heimalandi sínu sjúkrahúsi sem sérhæfir sig í augnaðgerðum.

Dæmdur fyrir að styðja Hamas

Bandaríkjamaðurinn Mohamed Shorbagi hefur játað á sig fyrir dómi í Bandaríkjunum að hafa veitt Hamas-samtökunum fjárstuðning. Shorbagi, sem er 42 ára, er imam í mosku í Georgíu-ríki. Í lok sumars var hann ákærður fyrir að styðja erlend hryðjuverkasamtök og gæti átt yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsi. Bandarísk stjórnvöld skilgreina Hamas sem hryðjuverkasamtök.

Lögðu hald á um 600 lítra af áfengi í Hafnarfirði

Lögreglan í Hafnarfirði lagði gær hald á um 500 lítra af áfengi í framleiðslu og um 100 lítra af fullframleiddu áfengi í húsleit í iðnaðarhúsnæði í bænum. Einnig var lagt hald á tæki og tól til framleiðslu áfengis.

Ver verðlaunafénu til góðgerðamála

Mohammad Yunus, sem hlaut í morgun friðarverðlaun Nóbels á ásamt Grameen-smálánabankanum sem hann stofnaði, hyggst verja verðlaunafénu, um 95 milljónum króna, til góðgerðamála.

ELKEM flytur starfsemi sína frá Ålvik til Grundartanga

Stjórn Elkem ákvað í dag að leggja niður drjúgan hluta af framleiðslu járnblendiverksmiðju félagsins í Ålvik í Noregi og flytja hana til Íslands. Forstjóri Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga er að vonum ánægður, en þetta þýðir um fjörutíu ný störf í fyrirtækinu.

Býður sig fram í 2. sætið

Einar Már Sigurðarson, alþingismaður, býður sig fram í 2. sætið á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi í prófkjöri flokksins sem fram fer seinna í mánuðinum.

Vilja fjölga opinberum störfum í Bolungarvík

Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Bolungarvík skorar á ríkisstjórnina að fjölga opinberum störfum í Bolungarvík í stað þeirra starfa sem lögð hafa verið niður hjá Ratsjárstofnun á Bolafjalli. Það þykir ekki í samræmi við byggðaáætlun að flytja störf af landsbyggðinni.

Segir von á fleiri kvörtunum til Samkeppniseftirlitsins

Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku, segir úrskurð Samkeppniseftirlitsins um að Osta- og smjörsalan hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína gagnvart fyrirtækinu sigur fyrir Mjólku. Hann segir að fyrirtækið hyggist senda fleiri mál til Samkeppniseftirlitsins vegna þess sem hann kallar undirboð Osta- og smjörsölunnar.

Vinstri grænir flýta landsfundi

Vinstrihreyfinginn – grænt framboð hefur ákveðið að flýta landsfundi sínum vegna komandi alþingiskosninga. Fundurinn er vanalega haldinn að hausti til en verður í febrúar á næsta ári, nánar tiltekið 23. - 25 febrúar árið 2007 á Grand Hóteli Reykjavík.

Tveir slösuðust í vinnuslysi skammt frá Hvolsvelli

Verið er að flyjta tvo menn með sjúkrabíl frá Hvolsvelli á slysdeild Landspítalans í Fossvogi eftir vinnuslys á bóndabæ skammt fyrir utan Hvolsvöll. Slysið var með þeim hætti að annar mannanna var að festa upp ljós og stóð í fiskikari sem fest var á gaffla á dráttarvél en karið rann fram af göfflunum og lenti ofan á manninum.

Ungir leiðtogar ræða um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum

Þessa dagana er haldinn hér á landi alþjóðlegur samráðsfundur um aðgerðir gegn loftlagsbreytingum að frumkvæði samtaka ungra forystumanna á heimsvísu, Young Global Leaders, sem starfa á vettvangi hinnar árlegu Davos-ráðstefnu, World Economic Forum.

Rannsókn á orkustuldi látin niður falla

Ríkissaksóknari hefur tekið ákvörðun um að ljúka máli vegna meints þjófnaðar á orkuforða á Ísafirði. Lögreglu var tilkynnt um málið þegar verið var að vinna að breytingum á götu í bænum en þar kom í ljós að tengingum í rafmagstöflu hafði verið breytt og vaknaði þá grunur um þjófnað á orkuforða.

Níu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir eignaspjöll

Karlmaður hefur verið dæmdur í níu mánaða fangelsi, sem er skilorðsbundið til þriggja ára, í Héraðsdómi Reykjaness fyrir eignaspjöll. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa slegið ítrekað í vélarhlíf og framrúðu leigbíls með þeim afleiðingum að vélarhlífin rispaðist og framrúðan brotnaði.

Tyrkir hóta Frökkum hefndum

Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, sagði í dag að Tyrkir myndu leita hefnda gegn Frökkum, sem í gær samþykktu lög um að skilgreina það sem glæpsamlegt athæfi að neita því að Tyrkir hafi framið þjóðarmorð á Armenum í fyrri heimsstyrjöldinni.

Spyr hví Týr sé merktur Coast Guard

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi til dómsmálaráðherra, um hvers vegna varðskipið Týr sé núna merkt Landhelgisgæslunni á ensku, á hliðum skipsins.

Segir mannleg mistök hafa valdið mismundandi verðlagningu

Forsvarsmenn Osta- og smjörsölunnar segja að mannleg mistök hafi orðið þess valdandi að Mjólka hafi þurft að greiða meira fyrir undanrennuduft en Ostahúsið. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fyrirtækinu í kjölfar úrskurðar Samkeppniseftirlitsins um að Osta - og smjörsalan hafi brotið gegn samkeppnislögum með verðlagningunni.

Gagnrýna hvor aðra fyrir gagnrýni

Ríkisendurskoðun og Umhverfisstofnun gagnrýna nú hvor aðra fyrir gagnrýni hvorrar á verkum annarrar og er mergur málsins orðinn aukaatriði.

Ræða ekki málefni einstakra starfsmanna

Stjórnendur álvers Alcan í Straumsvík segjast ekki ætla að ræða málefni einstakra aðila innan fyrirtækisins, en eins og kunnugt er héldu starfsmenn fjölmennan fund í Hafnarfirði í gær til að mótmæla uppsögnum þriggja starfsmanna fyrirtækisins fyrir skemmstu.

Gorbastjov hugsanlega heiðursforseti Friðarstofnunar Reykjavíkur

Höfði verður aðsetur Friðarstofnunar Reykjavíkur sem verður að veruleika innan tíðar. Svo gæti farið að Mikail Gorbatsjov yrði heiðursforseti stofnunarinnar. Fyrrum forseti Slóvakíu sem undirbýr stofnunina segir Ísland besta staðinn fyrir friðarviðræður.

Vefritið Vefritið opnað í dag

Nýtt vefrit um pólitík og samfélagsmál, Vefritið, var opnað formlega í dag. Fram kemur í tilkynningu frá ritstjórn Vefritsins að í það skrifi fjölbreyttur hópur ungs fólks sem eigi það sameiginlegt að vera frjálslynt félagshyggjufólk.

Friðsamleg mótmæli fyrir utan sendiráð Dana í Djakarta

Hópur múslíma kom saman fyrir framan sendiráð Danmerkur í Djakarta í Indónesíu í morgun til þess að mótmæla nýjum teikningum af Múhameð spámanni sem birst hafa á vegum Danska þjóðarflokksins að undanförnu. Mótmælin voru þó fámenn og friðsamleg en þau áttu sér stað eftir föstudagsbæn múslíma.

Sjá næstu 50 fréttir