Fleiri fréttir

Forsetakosningar endurteknar í Brasilíu

Forseta Brasilíu, Lula da Silva, tókst ekki að tryggja sér hreinan meirihluta í kosningum sem fóru fram um helgina og verður gengið aftur til kosninga í lok október. Lula tryggði sér 49% atkvæða nú, en þarf yfir 50% til að ná kosningu. Keppinautur hans um forsetastólinn er Geraldo Alckmin, fyrrum ríkisstjóri Sao Paulo fékk 41% atkvæða.

Leit að týndu fólki

Björgunarsveitir voru þrívegis kallaðar út í gær, þar af tvívegis til að leita að fólki, sem týnst hafði við að leita að kindum. Það var á Brekknaheiði á Austfjörðum og fannst fólkið heilt á húfi.

Grunaður um að hafa skotið þrjár systur sínar

Lögreglan í Olsó handtók seint í gærkvöldi þrítugan mann af pakistönskum uppruna, sem er grunaður um að hafa skotið þrjár systur sínar til bana á heimili þeirra fyrr um kvöldið.

Leituðu gangnamanna á Brekknaheiði í dag

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út í leit á Brekknaheiði á Austurlandi seinnipartinn í dag til að leita að stúlku sem var í leit að fé á heiðinni í göngum. Stúlkan fannst heil á húfi um hálfsjöleytið í kvöld. Fyrr í dag höfðu björgunarsveitir einnig verið kallaðar út vegna tveggja gangnamanna á sömu heiði en þeir fundust heilir á húfi fljótlega eftir að útkall barst.

Björguðu manni í sjálfheldu í Ingólfsfjalli

Björgunarsveitir fyrir austan fjall björguðu nú undir kvöld manni sem fastur var í sjálfheldu ofarlega í Ingólfsfjalli. Hætta var talin á að hann gæti fallið niður en að sögn lögreglu á Selfossi hafa björgunarsveitarmenn nú komið manninum til aðstoðar og eru á leið niður fjallið með hann heilan á húfi.

Schüssel viðurkennir ósigur í þingkosningum

Wolfgang Schüssel, kanslari Austurríkis, viðurkenndi í dag að hægri flokkur hans hefði „líklega" tapað í þingkosningunum sem þar fóru fram í dag. Sagði hann niðurstöður talningar benda til þess að sósíaldemókratar undir forystu Alfreds Gusenbauers hefðu farið með sigur af hólmi og óskaði hann Gusenbauer til hamingju með sigurinn.

16 ára gítarleikari vann

Snorri Hallgrímsson, sextán ára gítarleikari, bar sigur úr býtum í tónlistarsamkeppni á vegum pólskrar menningarhátíðar í dag. Keppnin gekk út á bestu útfærsluna á pólsku tónverki, en pólskir tónlistarkennarar um land allt höfðu umsjón með keppninni.

Tólf stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í kringum Hvolsvöll

Lögreglan á Hvolsvelli hefur haft í nógu að snúast það sem af er degi við að stöðva ökumenn sem hafa keyrt of hratt. Frá klukkan níu í morgun til fjögur í dag voru tólf ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur á Suðurlandsvegi.

Alþingi sett á morgun

Alþingi verður sett á morgun við hátíðlega athöfn sem hefst með guðsþjónustu í Dómkirkjunni klukkan hálftvö. Sólveig Pétursdóttir, forseti alþingis, gefur áfram kost á sér í embætti forseta en hún hefur ákveðið að hverfa af vettvangi stjórnmálanna eftir þennan vetur.

Mikilvægt að andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar verði í öndvegi

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, segir mikilvægt að andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar verði í öndvegi á framboðslistum flokksins fyrir kosningar vegna nýrrar umhverfisstefnu flokksins, Fagra Ísland. Hann hafi því ákveðið að gefa kost á sér í fjórða sæti í prófkjöri flokksins í Reykjavík

Meintir talibanar handteknir í Pakistan

Pakistönsk lögregla handtók í dag sex meinta uppreisnarmenn úr röðum talibana. Mennirnir voru gripnir á einkasjúkrahúsi í borginni Quetta þangað sem þeir höfðu leitað aðstoðar eftir að hafa særst í átökum í suðurhluta Afganistans.

Sjálfstæðismenn með prófkjör í Suðurkjördæmi 11. nóv.

Kjördæmisráð sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi ákvað á fundi sínum í dag að halda prófkjör þann 11. nóvember til að velja á framboðslista flokksins í kjördæminu fyrir komandi þingkosningar. Tólf hafa lýsti yfir framboði í prófkjörinu og er ljóst að baráttan verður hörð.

Guðfinna stefnir á þriðja sætið í Reykjavík

Guðfinna Bjarnadóttir, rektor háskólans í Reykjavík, tilkynnti á fundi í Iðnó nú klukkan fjögur að hún hygðist gefa kost á sér í þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í prófkjöri fyrir alþingiskosningar næsta vor. Guðfinna hyggst ljúka þessu skólaári og taka ákvarðanir í framhaldinu, út frá genginu í prófkjörinu og í samráði við stjórn skólans, hvort hún haldi áfram sem rektor.

Átök milli Hamas-liða og manna hliðhollum Abbas

Fimm Palestínumenn hafa fallið og að minnsta kosti 60 særst í bardögum á milli byssumanna hliðhollum Hamas-samtökunum og lögreglu og opinberum starfsmönnum sem styðja Fatah-hreyfingu Mahmouds Abbas, forseta Palestínu, í Gasaborg í dag.

65 sinnum stungið af eftir ákeyrslu í september

Sextíu og fimm sinnum hafa menn ekið á mannlausa kyrrstæða bíla í september og farið af vettvangi án þess að láta vita. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu í dag. Þetta þýða að jafnaði tvö tilvik á dag.

Fimm létust þegar hraðbraut hrundi í Kanada

Fimm manns létust þegar hraðbraut í Montreal í Kanada hrundi í gær. Fólkið var allt í tveimur bílum á vegi undir hraðbrautinni sem krömdust þegar brautin hrundi. Björgunarmenn voru að störfum í alla nótt til þess að ná bílunum undan rústunum en auk þeirra fimm sem létust slösuðust sex, þar af þrír alvarlega.

Útlit fyrir að stjórn Schüssels sé fallin

Svo virðist sem stjórn Wolfgangs Schüssels, kanslara Austurríkis, sé fallin í þingkosningum sem fram fóru í landinu í dag. Kjörfundi lauk í landinu nú klukkan þrjú að íslenskum tíma og fyrstu spár benda til þess að sósíaldemókratar undir forystu Alfreds Gusenbaurs hafi naumt forskot á hægri flokk Schüssels, 36 prósent atkvæða á móti 35 prósentum.

Um sjötíu manns skoðuðu herstöðina á Miðnesheiði

Um sjötíu manns á vegum Samtaka herstöðvaandstæðingar hafa í dag skoðað herstöðina á Miðnesheiði eftir að Bandaríkjaher fór þaðan í gær. Voru þeir fyrstir almennra borgara að gera það. Hópurinn fór um svæðið og skoðaði markverðustu staði í fylgd leiðsögumanns.

September sá heitasti í Bretlandi frá upphafi

Útlit er fyrir að nýliðinn september verði sá heitasti í Bretlandi frá því að veðurmælingar hófust, eða 15,4 gráður. Er það 0,7 gráðum heitara en í september árið 1949. Veðurstofa Bretlands mun á morgun staðfesta metið sem er rúmum þremur gráðum hærra en langtímameðaltal.

Fellibylurinn Xangsane veldur usla í Víetnam

Að minnsta kosti sjö eru látnir eftir að fellibylurinn Xangsane gekk á land í Mið-Víetnam í morgun. Húsþök fuku, tré rifnuðu upp með rótum og rafmagnslínur slitnuðu þegar fellibylurinn kom að landi en yfirvöld í Víetnam höfðu gert töluverðar ráðstafanir og flutt burt um tvö hundruð þúsund manns.

Ný kennsluálma vígð í Menntaskólanum á Egilsstöðum

Kennslurými í Menntaskólanum á Egilsstöðum hefur stækkað um áttatíu prósent með nýrri kennsluálmu sem tekin var í gagnið í haust. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra vígði húsið við hátíðlega athöfn í gær og færði um leið Helga Ómari Bragasyni, skólameistara lykil að húsinu.

Porter sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við HÍ

Michael E. Porter, sem af mörgum er talinn einn fremsti hugsuður heims á sviði stefnumótunar og stjórnunar, verður sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands á morgun.

Fjörtíu taldir látnir eftir að stífla brast í N-Nígeríu

Óttast er að fjörutíu manns hafi látist þegar stífla gaf sig nærri þorpi í Norður-Nígeríu í gær. Fram kemur í nígerískum fjölmiðlum að starfsfólki við stífluna hafi ekki tekist að opna fyrir hjáleið fyrir vatnið á bak við stífluna eftir gríðarlegar rigningar á svæðinu að undanförnu og því hafi stíflan brostið.

Ljóð í sjóð til styrktar MND-félaginu

Ljóð í sjóð er heiti á bók og geisladiski sem MND-félagið gefur út með stuðningi helstu listamanna þjóðarinnar. Árlega greinast þrír til fimm einstaklingar með sjúkdóminn hér á landi, en hann dregur fólk til dauða á einu til fimm árum.

Sótti slasaðan manna á Grundarfjörð eftir bílveltu

Önnur þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út í nótt til þess að sækja mann til Grundarfjarðar sem velt hafði bíl sínum nærri bænum. Bíllinn fór nokkrar veltur og var maðurinn fluttur fyrst á heilsugæslustöðina á Grundarfirði en síðar var ákveðið að kalla eftir þyrlu vegna meiðsla hans.

Guðfinna á leið í pólitík

Guðfinna Bjarnadóttir, rektor háskólans í Reykjavík hefur ákveðið að gefa kost á sér í eitt af efstu sætunum á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í prófkjöri fyrir Alþingiskosningar næsta vor. Hún mun tilkynna um ákvörðun sína opinberlega síðar í dag.

Aldraður maður lést eftir að hafa fallið af hestbaki

Bóndi á níræðisaldri lést eftir að hann datt af hestbaki við smalamennsku ofarlega í Laxárdal í Dalasýslu í gærdag. Svo virðist sem hestur hans hafi hnotið um þúfu með þeim afleiðingum að maðurinn féll af baki.

Fyrstir almennra borgara til að skoða herstöð

Herstöðvaandstæðingar verða fyrstir almennra borgara til að skoða herstöðina á Miðnesheiði eftir að Bandaríkjamenn yfirgáfu svæðið í gær. Stöðin telst ennþá vera varnarsvæði. Af þeim sökum gilda þar strangar reglur.

Talverður erill hjá lögreglunni í Keflavík í nótt

Talsverður erill var hjá lögreglunni í Keflavík á næturvaktinni vegna ölvunar, slagsmála og hávaðaútkalla. Tvær minniháttar líkamsárásir voru tilkynntar, önnur á skemmtistaðnum H-punktinum og hin á Njarðabraut í Njarðvík.

Ísraelsher farinn frá Líbanon

Síðustu ísraelsku hermennirnir yfirgáfu Líbanon seint í gærkvöldi. Þar með hefur einu grundvallarskilyrðinu fyrir vopnahléi milli Hizbollah og Ísraels, verið fullnægt.

Unnur Birna krýndi arftaka sinn í Póllandi

Unnur Birna Vilhjálmsdóttir krýndi í gær arftaka sinn í keppninni ungfrú Heimur sem fram fór í Póllandi. Það var tékkneska stúlkan Tatana Kucharova sem bar sigur úr býtum en önnur var ungfrú Rúmenía og ungfrú Ástralía varð í þriðja sæti.

Herstöðvaandstæðingar fagna brottför hersins

Herstöðvaandstæðingar halda klukkan tólf til Suðurnesja þar sem þeir munu fagna því að Bandaríkjaher er farinn af landi brott. Farið verður á slóðir herstöðvarinnar og minnisvarðar um hersetuna skoðaðir.

Kosið víða um heim í dag

Kosningar verða víða um heim í dag. Í Brasilíu eru forsetakosningar og er búist við að núverandi forseti, Luis Ignacio "Lula" da Silva, beri sigur úr býtum. Í Bosníu og Austurríki eru þingkosningar. Í Austurríki sýna skoðanakannanir hnífjafnt fylgi hægri flokks Wolfgangs Schussels og vinstri flokks Alfreds Gusenbauers.

Á 137 kílómetra hraða á Sæbraut

Lögregla í Reykjavík tók í nótt sex ökumenn grunaða um ölvun við akstur, þar af einn sem ók fram hjá lokunum lögreglu meðan verið var að vinna á vettvangi við banaslys á Miklubraut. Þá voru fimm teknir fyrir of hraðan akstur, einn á 139 kílómetra hraða á Kringlumýrarbraut þar sem hámarkshraði er 80 og annar á Sæbraut við Kleppsveg á 137 km hraða þar sem hámarkshraði var 60.

Hermenn komnir að flaki farþegaflugvélar í Amazon

Hermenn eru komnir að flaki farþegavélarinnar sem hrapaði í regnskógum Amazon á föstudag. 155 manns voru um borð og þótt björgunarsveit sé komin á staðinn, hefur ekki verið staðfest enn hvort einhverjir eftirlifendur séu. Það er þó talið ólíklegt.

Banaslys á Miklubraut í nótt

Banaslys varð á Miklubraut um klukkan hálffjögur í nótt þegar ekið var á konu á sextugsaldri. Atvikið var með þeim hætti að bifreið var ekið austur Miklubraut að Háaleitisbraut og var konan á gangi á afrein sem liggur af Miklubraut inn á Háaleitisbraut til suðurs.

Sjá næstu 50 fréttir