Fleiri fréttir

Farþegi lést og ökumaður slasaðist

Farþegi lést og ökumaður slasaðist mjög alvarlega þegar tvær jeppabifreiðar rákust saman á Vesturlandsvegi rétt við kjúklingabúið Móa í hádeginu. Ökumaður hins jeppans er ekki talinn vera alvarlega slasaður. Lögregla er enn við störf á vettvangi og er Vesturlandsvegur lokaður frá afleggjaranum að Þingvöllum að syðri munna Hvalfjarðarganga á meðan lögreglan sinnir störfum sínum. Ökumönnum er bent á að fara um Kjósaskarð þar til vegurinn hefur verið opnaður. Tildrög slyssins liggja ekki fyrir.

Fjórtán mótmælendur kærðir

Fjórtán mótmælendur hafa verið kærðir fyrir mótmælin á byggingasvæði álversins á Reyðarfirði í morgun.

Margir Danir vilja afþakka pappírsflóðið

Límmiðar á póstkassa til að afþakka fríblöð seljast nú eins og heitar lummur í Danmörku. Fólk óttast að sitja uppi með ógrynni af pappír þegar þrjú fríblöð fara að berast á dag. Forsmekkurinn flaug inn um bréfalúgur í Kaupmannahöfn og Árhúsum þegar útgáfufyrirtæki Berlingske tidende reið á vaðið með fyrsta tölublað fríblaðsins Dato.

Bílslys varð á Kjalarnesi

Alvarlegt umferðarslys varð á Kjalarnesi nú rétt eftir hádegi nærri meðferðarheimili SÁÁ í Vík. Verið er að klippa bílflök utan af hinum slösuðu. Umferð um veginn er lokuð í báðar áttir.

Skutu japanskan sjómann út af landamæradeilu

Rússneska strandgæslan skaut í nótt á japanskan fiskibát við Kúrileyjaklasann með þeim afleiðingum að japanskur sjómaður lét lífið. Áratuga löng landamæradeila milli Rússlands og Japans um Kúrileyjarnar er enn óútkljáð - með þessum afleiðingum.

Íranar vilja ræða um kjarnorkuáætlunina

Íranar eru tilbúnir til viðræðna um að falla frá umdeildri kjarnorkuáætlun sinni. Utanríkisráðherra Írans tilkynnti þetta í dag en bætti við að hvað sem öllum viðræðum liði, þá sæju Íranar sér enn ekki góða ástæðu til að falla frá áætlun um auðgun úrans.

Kemur ekki til greina að svipta Grass Nóbelnum

Nóbelsstofnunin hefur hafnað beiðnum um að svipta rithöfundinn Gunther Grass nóbelsverðlaunum sem hann hlaut árið 1999. Háværar raddir kröfðust þess að Grass yrði sviptur heiðrinum eftir að hann játaði í blaðaviðtali á laugardag að hann hefði þjónað í stormsveitum nasista í seinni heimsstyrjöldinni.

Meira en 10 þúsund töskur í óskilum hjá British Airways

Yfir 10 þúsund töskur sem farþegar breska flugfélagsins British Airways hafa innritað á síðustu dögum hafa ekki skilað sér aftur til eigendanna. Flugfélagið segir töskurnar bíða í hrúgum á breskum flugvöllum og hyggst nú höfða skaðabótamál á hendur rekstraraðila stærstu flugvallanna, því auk þessa hafi flugfélagið þurft að aflýsa yfir 700 flugum síðan hertar öryggisreglur tóku gildi síðastliðinn fimmtudag. Rekstraraðili þriggja stærstu flugvalla í Bretlandi, þar með talið Heathrow, segir stöðuna sem upp er komin nú fordæmislausa og því ekki hægt að ætlast til að fyrirtækið sé undir hana búið.

Ferðamaður beið bana við Hrafntinnusker

Erlendur ferðamaður beið bana þegar hann varð undir hruni í íshelli við Hrafntinnusker, skammt frá svonefndum Laugavegi, á níunda tímanum í morgun. Samferðamenn hans kölluðu á aðstoð þar sem þeir töldu að hann hefði lokast inn í hellinum, en þeir höfðu náð til hans áður en björgunarlið kom á vettvang, og var hann þá látinn. Þá var meðal annars búið að kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar, en henni var snúið við ásamt flestum björgunarmönnunum. Hinir munu flytja lík mannsins til byggða.

Þúsundir aðdáanda Elvis minnast 29 ára ártíðar hans

Þúsundir aðdáenda sönghetjunnar Elvis Presley komu hvaðanæva að úr heiminum í gærkvöld til að minnast 29 ára ártíðar söngvarans á heimili hans í Graceland í Tennessee. Fyrstu aðdáendurnir komu til Graceland-setursins um kvöldmatarleytið á mánudagskvöld og stóðu í röð til að bíða eftir kertaathöfninni. Fyrir marga er nokkurs konar pílagrímsferð til heiðurs kónginum sem sumir trúa þó ekki að sé látinn en samkvæmt opinberum skjölum lést hann af hjartaslagi og ofnotkun læknadóps þann 16. ágúst árið 1977.

Lögreglumenn á leið upp krana á eftir mótmælanda

Tveir lögreglumenn eru nú að klifra up í háan byggingakrana á vinnusvæði álvers Alcoa á Reyðarfirði, til að ná niður mótmælanda, sem klifraði þar upp í morgun í mótmælaskyni við framkvæmdirnar.

Slys við Hrafntinnusker

Talið er maður sé lokaður inni í íshelli við Hrafntinnusker, eftir að hellirinn féll saman í morgun. Talið er að einn maður sé lokaður inn í hellinum og er þyrla Landhelgisgæslunnar á leið á staðinn ásamt lögreglu og björgunarsveitarmönnum.

Mótmælendur hlekkjaðir við vinnukrana á Reyðarfirði

Ellefu mótmælendur ruddust inn á vinnusvæði Alcoa á Reyðarfirði í morgun og hafa þrír hlekkjað sig við 40 - 50 metra háan vinnukrana með lök sem mótmæli hafa verið áletruð á. Nokkuð hvassviðri er á svæðinu og þykir því enn frekari hætta geta staðið að þessum aðgerðum. Flestir mótmælandanna hafa fest sig við vinnuvélar en tveir hafa verið handteknir.

Fjöldagrafir teknar í Týrus

Sprengjugnýrinn hefur hljóðnað um sinn fyrir botni Miðjarðarhafs og í tóminu er hægt að hefjast handa við að ganga frá eftir ógnaröldina. Lík 40 fórnarlamba árásanna undanfarinn mánuð voru greftruð í fjöldagröf í Týrus í gær. Líkin voru lögð í grunnar, númeraðar grafir og gert ráð fyrir því að fjölskyldur hinna látnu eigi hægt um vik að finna kistur ættingja sinna og finna þeim betri hvílu þegar allt er um garð gengið. Áður hafa Týrus-búar tekið tvær viðlíka fjöldagrafir þar sem hvíla yfir hundrað manns. Á níunda hundrað Líbana létu lífið í átökunum og 157 Ísraelar.

Leitar enn árásarmannsins í Breiðholti

Lögregla leitar enn árásarmannsins, sem réðst á stúlku í Breiðholti að næturlagi í síðustu viku og reyndi að nauðga henni. Stúlkan, sem var á leið til vinnu, náði að slíta sig frá árásarmanninum og leita hjálpar, en meðal annars þurfti að gera að bitsári á hálsi hennar. Hún hefur ekki getað gefið góða lýsingu á árásarmanninum.

Fjórtán ára ökuníðingur

Fjórtán ára unglingur er uppvís að því að hafa næstum ekið niður tvo lögreglumenn á Neshaga í Reykjavík, aðfararnótt mánudags, og stungið af. Hann mun hafa fengið lykil að bílnum hjá dóttur eigandans og voru að minnstakosti tveir jafnaldrar hans með honum í bílnum, þegar atvikið varð, þar sem lögreglu- og slökkviliðsmenn voru að sinna störfum vegna elds í íbúð. Þegar pilturinn ók óvænt farm á þann liðsafla, mun honum hafa brugðið og í fátinu munaði minnstu að hann æki lögrelgumennina niður. Ferðir unglinganna á bílnum, munu ekkert tengjast íkveikjunni í íbúðinni, eins og grunur lék á í fyrstu.-

Alvarlegt umferðarslys á Garðskagavegi

Bílslys varð á Garðskagavegi rétt norðan við Sandgerði laust eftir klukkan sjö í kvöld. Lögreglan í Keflavík segir slysið mjög alvarlegt. Þrír eru alvarlega slasaðir. Um er að ræða tveggja bíla árekstur. Vegurinn verður lokaður fram eftir kvöldi og er lögregla enn á slysstað.

Fjórum erlendum starfsmönnum rænt í Nígeríu

Fjórum erlendum starfsmönnum olíufélags í Nígeríu var sleppt úr haldi mannræningja í dag. Þeim var rænt af skipi fyrir tæpri viku. Tveir þeirra eru frá Noregi og tveir frá Úkraínu.

Koizumi ögrar nágrönnunum

Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans, hefur enn einu sinni reitt nágranna sína í Kína og Kóreu til reiði með því að heimsækja helgidóm þar sem japanskar stríðshetjur eru vegsamaðar.

Gæðamat á íslenskum vegum

Gert hefur verið gæðamat á öryggisstöðlum á íslenskum vegum. Vegirnir eru í misgóðu ástandi, mörgu er ábótavant og slysagildrur leynast víða.

Sameinað menntaráð skapi samfellu

Leikskólastjórar sem sátu fund með stjórnmálaflokkum í Ráðhúsinu í dag hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á borgaryfirvöld að endurskoða ákvörðun sína um að kljúfa menntaráð. Fundarmenn voru sammála um að sameinað menntaráð gæti stuðlað að samfellu í námi barna og samvinnu kennara milli skólastiga. Nýtt leikskólaráð tekur til starfa í Reykjavíkurborg um miðjan september en málefni leikskólanna hafa síðasta árið verið undir sameinuðu menntaráði.

Verðstríð á skólavörum

Verðstríð geysar á ritfangamarkaðnum og tilboðum á stílabókum, strokleðrum, skærum, tússlitum og öðrum skólavörum rignir yfir fólk, enda stutt í að skólar hefjist. Verðmunur á þessum smávörum getur hlaupið á hundruðum króna.

Mótmælum við Kárahnjúka líklega ekki lokið

Mörgum þykir harka hafa færst í mótmæli umhverfisverndarsinna vegna Kárahnjúkavirkjunar að undanförnu. Talsmaður Íslandsvina vill þó ekki meina að málstaður þeirra hafi beðið álitshnekki.

Segir stefnu BNA hafa beðið skipbrot

Viðurstyggð eyðileggingarinnar mætti líbönskum flóttamönnum þegar þeir sneru til síns heima í morgun. Víða stendur ekki steinn yfir steini og margir hafa misst allt sitt. Forseti Sýrlands segir stefnu Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum hafa beðið skipbrot í ljósi átaka undanfarins mánaðar.

Sært stolt

Formaður félags leikskólakennara segir stolt þeirra sært með því að draga leikskólana út úr menntaráði Reykjavíkurborgar. Borgaryfirvöld segja nýju leikskólaráði komið á fót til að gefa leikskólunum meira vægi.

Segja skýringar á framúrkeyrslu fjárlaga

Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landhelgisgæslunnar segir hluta tugmilljóna framúrkeyrslu stofnunarinnar hafa verið með leyfi dómsmálaráðuneytisins. Rektor Háskólans á Akureyri, skýrir framúrkeyrslu skólans með fjölgun nemenda.

Landlæknir segir ekki hægt að lækna samkynhneigð

Landlæknir varar við námskeiðum eins og þeim sem um er getið í auglýsingu frá Samvinnuhópi kristinna trúfélaga, þar sem boðið er upp á meðferð gegn samkynhneigð. Þá þurfi ekki að lækna samkynhneigð, því hún sé ekki sjúkdómur.

Verri heilsa hátekjufólks

Heilsa hátekjufólks er verri en hins almenna borgara. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem kynnt var í dag. Rannsóknin var hluti af doktorsverkefni Tinnu Laufeyjar Ásgeirsdóttur. Niðurstöðurnar sýndu að heilsa Íslendinga fer batnandi með hækkandi launum þar til tekjur eru orðnar talsvert háar. Þá snýst sambandið við og heilsa versnar.

Reyna að tryggja lausn tveggja starfsfélaga

Tveir fulltrúar frá bandarísku fréttastöðinni Fox komu á Gaza-svæðið í dag til að reyna að tryggja lausn tveggja starfsfélaga sinna sem byssumenn rændu í gær.

Grunaður um að hafa lagt á ráðin um hryðjuverk

Svo gæti farið að yfirvöld í Pakistan framselji Breta sem er í haldi þar í landi, grunaður um að hafa átt þátt í að leggja á ráðin um að sprengja í loft upp farþegaflugvélar á leið frá Bretlandi til Bandaríkjanna.

Eigendur Dell-fartölva kanni framleiðslunúmer rafhlöðu

Engin af þeim tölvum sem nú eru til sölu hjá umboðsaðila Dell hér á landi, EJS, er með rafhlöður sem kalla þarf inn en eigendur Dell-fartölva eru beðnir um að fara inn á heimasíðu EJS og kanna hvort rafhlaðan í tölvunni hafi tiltekið framleiðslunúmer.

Ariel Sharon hrakar

Heilsa Ariels Sharons, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, fer enn versnandi samkvæmt læknum á sjúkrahúsinu þar sem hann dvelur. Sharon hefur verið í dái í átta mánuði eftir að hann fékk alvarlegt heilablóðfall í byrjun árs.

Bensínverð lækkaði um eina krónu

Bensínorkan lækkaði bensínverð um eina krónu og sextíu aura á lítrann í morgun. Að sögn talsmanns félagsins var þetta gert vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði og þrátt fyrir að dollarinn hafi aðeins hækkað gagnvart krónunni.

Stefnir í metþátttöku í Reykjavíkurmaraþoni

Útlit er fyrir að metþátttaka verði í Reykjavíkurmaraþoni á laugardag því þrefalt fleiri hafa skráð sig til leiks nú en á sama tíma í fyrra. Ástæðan er meðal annars sú að fyrirtæki heita nú á starfsfólk sitt í hlaupinu og rennur allur ágóðinn til góðgerðarmála.

Viðgerðir á Hringvegi 1

Vegna slitlagsviðgerða verður Hringvegur 1 lokaður til suðurs frá Grundartangavegi að Akrafjallsvegi við Hvalfjarðargöng til kl. 19 í dag og frá kl 9 til 14 á morgun. Vegfarendum er bent á að aka Akrafjallsveg.

60 börn létu lifið á Sri Lanka

Uppreisnarmenn Tamíl-Tígra á Srí Lanka saka stjórnarherinn um fjöldamorð á börnum í árás á munaðarleysingjahæli í gær. Allt bendir til að vopnahlé milli Tamíl-Tígranna og Stjórnarhersins, sem tók gildi fyrir fjórum árum, sé farið út um þúfur.

Töldu sig ekki mega versla á frísvæði Keflavíkurflugvallar

Hertar öryggisreglur á Keflavíkurflugvelli hafa áhrif á mörgum ólíkum sviðum. Til dæmis þorðu margir brottfararfarþegar ekki að versla á frísvæðinu í flugstöðinni í morgun af ótta við að brjóta reglur, en svo er þó ekki.

Þúsundir Líbana snúa heim

Vopnahléið í Líbanon er talið ákaflega viðkvæmt en hefur þó haldið frá því það tók gildi í gærmorgun. Þúsundir Líbana flykkjast nú aftur til síns heima. Hassan Nasrallah leiðtogi Hizbollah og Ehud Olmert forsætisráðherra Ísraels segja hvor fyrir sig að vopnahléið sé sigur fyrir sinn málstað.

Funduðu á Ísafirði í gær

Það hljóp á snærið hjá þeim sem leita logandi ljósi að klíkumyndun vegna leiðtogakjörs í Framsóknarflokknum þegar fréttir bárust af því að þrír frambjóðendur til þriggja æðstu embætta flokksins hefðu sameiginlega efnt til fundar með framsóknarmönnum á Ísafirði í gærkvöldi.

Myndband af Castro

Kúbverska ríkissjónvarpið sýndi í gær fyrsta myndbandið af Fidel Castro, leiðtoga landsins, frá því að hann fól bróður sínum að halda um stjórnartaumana vegna veikinda sinna.

Sjá næstu 50 fréttir