Fleiri fréttir

Skífan braut samkeppnislög

Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að sekta Skífuna, sem nú er Dagur Group, um sextíu og fimm milljónir króna vegna endurtekinna brota á samkeppnislögum. Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að Skífan hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að gera saminga við Hagkaup um sölu á hljómdiskum og tölvuleikjum.

Þrír búrhvalir inni á Breiðafirði

Þrír búrhvalir sáust í hvalaskoðunarferð frá Ólafsvík í morgun. Afar sjaldgæft er að búrhvalir sjáist svo nærri landi en ferðirnar eru einungis þrír tímar. Einnig sást stór hópur af háhyrningum en þeir eru einnig sjaldgæf sjón inni á Breiðafirðinum.

Mannréttindaskrifstofan háð styrkjum einkaaðila

Ef ekki væri fyrir styrki frá einkaaðilum gæti Mannréttindaskrifstofa Íslands ekki haldið uppi sómasamlegri starfsemi, segir framkvæmdastjóri skrifstofunnar. Allt fé sem Mannréttindaskrifstofan fær er eyrnamerkt sérstökum verkefnum.

Krefjast dauðarefsingar yfir Saddam

Sækjendur í máli Saddams Husseins hafa farið fram á þyngstu mögulega refsingu: hengingu, ef Saddam verður sekur fundinn um þá stríðsglæpi sem hann er ákærður fyrir.

Fyrsta konan kjörin biskup í bandarísku biskupakirkjunni

Fyrsta konan var kjörin biskup í bandarísku biskupakirkjunni í gær. Aðeins kanadíska og nýsjálenska biskupakirkjan hafa hingað til kjörið konu til biskupsembættis og margir leiðtogar biskupakirkjunnar víða um heim telja konur ekki einu sinni eiga erindi til að gegna prestsstörfum.

Þorskur aftur genginn að Grænlandsströndum

Þorskur er aftur genginn að Grænlandsströndum að sögn norska blaðsins Fiskeribladet, og fékk togari umþaðbil þúsund tonn af vænum þorski á slóðum, þar sem ekki hefur sést þorskur í fimmtán ár.

Bílslys á Fjarðarheiði

Ung stúlka var flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur í morgun eftir að bíll hennar valt útaf veginum á Fjarðarheiði og hún slasaðist.

Þokast í samkomulagsátt í Palestínu

Hamas- og Fatahhreyfingarnar í Palestínu eru nálægt því að komast að samkomulagi um ýmis aðalágreiningsatriði fylkinganna, svo sem viðurkenningu Ísraelsríkis og lausn fanga úr fangelsum.

Lögreglan í Kaupmannahöfn skýtur mann til bana.

Lögreglan í Kaupmannahöfn skaut mann til bana í morgun, eftir að æði rann á hann í söluturni, þar sem hann braut allt og bramlaði með barefli. Þegar lögreglumenn náðu því af honum dró hann upp hníf og ógnaði nærstöddum sem lyktaði með því að lögreglumennirnir skutu á hann. Hann lést af skotsárum sínum skömmu síðar.

Alþjóða hvalveiðiráðið samþykkir ályktun um að hvalveiðibann ráðsins sé úrelt

Alþjóða hvalveiðiráðið samþykkti í gær ályktun um að hvalveiðibann ráðsins sé úrelt og ekki lengur nauðsynlegt. Það var þó mjótt á munum, 33 þjóðir greiddu atkvæði með ályktuninni en 32 voru því mótfallnar. Í ályktuninni er lagt til að hvalveiðiráðið snúi sér að upprunalegu hlutverki sínu: að stjórna hvalveiðum, í stað þess að banna þær með öllu. Hvalveiðibann alþjóða hvalveiðiráðsins stendur þó áfram enda þurfa 75 prósent þjóðanna sem í því sitja að styðja afnám bannsins til þess að því sé hnekkt.

Krefjast afsökunarbeiðni lögreglu

Áætlað er að þúsund manns hafi tekið þátt í mótmælagöngu í austurhluta Lundúna í gær til að krefjast formlegrar afsökunarbeiðni frá bresku lögreglunni eftir áhlaup lögreglumanna í byrjun mánaðarins vegna gruns um hryðjuverkastarfsemi.

Gerðu áhlaup á færeyskan togara

Fjórir skipverjar af varðskipinu Óðni réðust til uppgöngu í færeyskan togara suðaustur af landinu í gærkvöldi vegna meintra brota skipstjórans. Togarinn var þá á níu sjómílna ferð 130 sjómílur suðaustur af Eystra Horni og hafði skipstjórinn ítrekað neitað að far að fyrirmælum skipherrans um að stöðva togarann.

Mun ekki selja Orkuveituna

Orkuveitan verður áfram í eigu borgarinnar og verður ekki seld meðan ég er borgarstjóri, segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri Reykjavíkur.

Óvíst er með frestun á framkvæmdum

Forsætisráðherra kallar eftir ábyrgð sveitarfélaga meðal annars til að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um frestun á framkvæmdum í tveimur stærstu sveitarfélögum landsins.

Líkt við örkina hans Nóa

Norðmenn eru byrjaðir að byggja eins konar dómsdagsbyrgi, sem grafið verður inn í frosnar fjallshlíðar Svalbarða, og á að geyma plöntufræ hvaðanæva að úr veröldinni til að hægt sé að hefja ræktun á ný ef stórslys á borð við miklar loftslagsbreytingar eða kjarnorkustríð skyldi stefna uppskeru á jörðinni í hættu

Fékk verðlaun fyrir drottningu

Darri Snær Nökkvason fékk heldur betur góðar móttökur á Bessastöðum þegar verðlaun voru afhent í Skákmyndasamkeppni Hróksins í gær. Viðtökur forsetafrúarinnar voru vel við hæfi því Darri Snær fékk verðlaun fyrir krúttlegustu myndina. Ég teiknaði drottningu sem hélt sér fast í kónginn því hún var að detta af skákborðinu, sagði Darri Snær sem er níu ára Hornfirðingur.

Úrskurðurinn áfall að mati borgarstjóra

Útboðsskilmálar sem Reykjavíkurborg setti vegna útboðsins um framtíðarskipulag Vatnsmýrarinnar hafa verið ógildir þar sem kærunefnd útboðsmála komst að þeirri niðurstöðu að tilhögun útboðsins bryti í bága við lög um opinber innkaup.

Talsverður erill um helgina

Lögreglan í Reykjavík hafði í nægu að snúast um helgina. Aðfararnótt laugardags var maður á fimmtugsaldri stunginn í kviðinn á veitingastað við Laugaveg og aðfararnótt sunnudags voru sex manns fluttir á slysadeild í Reykjavík með minniháttar meiðsl eftir pústra í miðbænum. Sá sem stunginn var liggur enn á gjörgæsludeild en stungumaðurinn situr enn í haldi lögreglu.

Kríuvarp misferst annað árið í röð

Kríuvarp, sem stundum hefur hafist um miðjan maí eða að minnsta kosti í júníbyrjun, er enn varla hafið á Suður- og Vesturlandi að sögn Kristins Hauks Skarphéðinssonar fuglafræðings.

Ræðst á allra næstu dögum

Á næstu dögum ræðst hvort sátt náist milli Alþýðusambandsins og atvinnurekenda um lög vegna erlends vinnuafls við endurskoðun kjarasamninga. Að sögn Halldórs Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóra Alþýðusambandsins, var íslenskt samfélag ekki búið undir breytingar á flæði vinnuafls.

Eitt krot eykur líkur á öðru

Þorsteinn Pálmarsson, eigandi hreinsunarfyrirtækisins Allt-af, flokkar veggjakrot sem skemmdarverk. Hann segir þá sem krota alltaf vera að læra nýjar aðferðir sem síðan þurfi að bregðast við með nýrri hreinsiblöndu sem sé nógu öflug til að hreinsa krotið án þess að yfirborð veggjarins skemmist.

Hefndarmorð á unglingum

Fimm unglingar voru skotnir til bana í New Orleans í Bandaríkjunum í gær, og er það versta fjöldamorð sem framið hefur verið í sögu borgarinnar. Fórnarlömbin, fimm ungir piltar á aldrinum 16 til 19 ára, fundust í og við bíl þeirra eftir að morðingjarnir höfðu skotið fjölmörgum skotum á bílinn með þeim afleiðingum að allir í honum létust.

Búferlaflutningar fyrstu þrjá mánuði ársins

Fyrstu þrjá mánuði ársins fluttust til landsins 2.574 manns á meðan 798 fluttust á brott. Landsmönnum fjölgaði af þessum orsökum um nær átján hundruð manns á tímabilinu. Þetta kemur fram í bráðabirgða­upplýsingum um búferlaflutninga fyrsta ársfjórðungs, sem Hagstofan hefur unnið fyrir fjármála­ráðuneytið.

Allar ábendingar skoðaðar

Undirbúningur og staða deilskipulags nýs sjúkrahúss við Hringbraut var kynnt á opnum fundi í Ráðhúsinu fyrir helgi. Ríflega fimmtíu manns mættu á fundinn og komu fram fjölmargar spurningar og athugasemdir frá starfsfólki Landspítalans og íbúum nágrennisins.

Discovery út í geiminn 1. júlí

Bandaríska geimferðastofnunin NASA ákvað á laugardag að skjóta skyldi geimferjunni Discovery út í geim þann 1. júlí næstkomandi. Ákvörðunin er tekin þvert á ráðleggingar sérfræðinga sem segja stofnunina ekki fyllilega hafa leyst þau vandamál sem urðu til þess að geimferjan Columbia fórst árið 2003 með þeim afleiðingum að sjö geimfarar fórust.

Ævintýraleg þorskveiði

Þorskurinn virðist vera kominn aftur í hafið við Grænland eftir 15 ára bið, að sögn vefútgáfu norska blaðsins Fiskeribladet, og hann lítur vel út sá sem veiðist. "Ævintýraleg veiði," segir Leivur á Rógvi skipstjóri.

Athygli vakin á blóðgjöfum

Fjölskylduskokk Blóðbankans fór fram á miðvikudaginn. 70 manns tóku þátt, en hlaupið var haldið í annað sinn. Markmiðið með hlaupinu er að vekja athygli á Alþjóða blóðgjafar­deginum (World Blood Donor Day) sem var haldinn á miðvikudaginn. Dagurinn er sameiginlegt verkefni Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO), Alþjóða Rauða krossins, Alþjóðasamtaka blóðgjafarfélaga og Alþjóðasamtaka blóðgjafar.

Fjölskyldudagar Íslandsvina

Mótmæli Íslandsvinir, sem er félagsskapur umhverfisverndar­sinna, stendur fyrir friðsamlegum fjölskyldudögum undir Snæfelli við Kárahnjúka dagana 21. til 31. júlí næstkomandi.

Sátt milli fylkinga í Palestínu hugsanleg

Viðræður eru í gangi á milli Hamas-samtakanna og Fatah-hreyfingarinnar í Palestínu um að tilvist Ísraelsríkis verði viðurkennd en Hamas-samtökin hafa hingað til neitað að gera það. Samningamenn eru bjartsýnir á að sátt náist.

Rannsóknir eru hafnar

Rannsóknir á háhitasvæðum eru hafnar vegna hugsanlegs álvers á Bakka við Húsavík. Ætlunin er að kanna og rannsaka háhitasvæðin á Norðurlandi nægjanlega svo hægt verði að taka ákvörðun um nýtingu þeirra vegna stóriðjunnar. Boraðar verða þrjár rannsóknarholur í sumar. Sú fyrsta, sem er í Bjarnarflagi í Mývatnssveit, er þegar tilbúin en hún er 2.130 metra djúp.

Steypa forseta ekki af stóli

Leiðtogi íslömsku skæruliðahreyfingarinnar sem lagði undir sig Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, í seinustu viku hefur heitið því að samtök hans muni ekki steypa Abdullah Yusuf, forseta Sómalíu, af stóli. Fréttir hafa borist af innrás eþíópísks herliðs sem koma átti bráðabirgðastjórn Yusuf til aðstoðar en því neita Eþíópíumenn.

Stjórnarandstaðan sigraði

Stjórnarandstaðan í Slóvakíu hrósaði sigri í þingkosningunum sem fram fóru þar í fyrradag. Forseti landsins hefur falið Robert Fico, leiðtoga vinstriflokksins Smer, stjórnarmyndun, en flokkurinn náði ekki hreinum meirihluta og verður því að mynda stjórn í samráði við aðra flokka.

Óánægja með vinnubrögð

Stúdentaráð Háskóla Íslands harmar brot á jafnréttislögum og jafnréttisáætlun skólans við ráðningu í stöðu dósents við tölvunarfræðiskor og krefst úrbóta.

Framúrskarandi og til fyrirmyndar

Nemendaverðlaun menntaráðs Reykjavíkurborgar voru afhent í fjórða sinn í Ráðhúsinu í gær. Liðlega fjörutíu nemendur úr grunnskólum Reykjavíkur voru verðlaunaðir, meðal annars fyrir góðan námsárangur, framfarir í námi, félagsstörf, samskiptahæfni, frumkvæði, leiðtogahæfileika og frammistöðu í íþróttum og listum.

Sjá næstu 50 fréttir