Fleiri fréttir

Tvöfalt hærra orkuverð á Íslandi en í Brasilíu

Alcoa greiðir helmingi lægra verð fyrir raforkuna frá Kárahnjúkavirkjun en fyrir orku frá álveri í Brasilíu, samkvæmt grein sem birt var á heimasíðu Alcoa í Brasilíu. Verðið er sagt þrjátíu Bandaríkjadalir á megavattsstund í Brasilíu en helmingi lægra, eða fimmtán dollarar, á Íslandi. Greinin hvarf af neti Alcoa í dag í kjölfar fyrirspurnar um hana - og hið lága verð - til Landsvirkjunar.

Framsókn í Reykjavík klofin

Framsóknarfélög í norðurkjördæmi Reykjavíkur þakka Halldóri Ásgrímssyni fyrir að víkja til að efla frið innan flokksins og hvetja um leið Guðna Ágústsson og Siv Friðleifsdóttur til að axla ábyrgð með sama hætti og víkja. Framsóknarmenn í borginni eru klofnir í afstöðu sinni: Framsóknarfélögin í Reykjavík suður taka ekki undir þessa kröfu.

Sjálfstæðismenn þrýsta á endurnýjun ríkisstjórnar

Sjálfstæðismenn leggja ofurkapp á að endurnýjuð ríkisstjórn undir forsæti Geirs H. Haarde taki til starfa á allra næstu dögum. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, segir að of löng óvissa geti reynst skaðleg. Björn Bjarnason er nú talinn líklegastur til að verða utanríkisráðherra, fari fjármálaráðuneytið til framsóknarmanna.

Oddný Hanna er fundin

Oddný Hanna Helgadóttir, sem lögreglan í Kópavogi hefur leitað að frá því síðastliðinn sunnudag, er fundin heil á húfi. Lögreglan í Kópavogi vill þakka öllum sem komu að málinu og veittu aðstoð.

Fimm konur og ungabarn særðust í átökum

Sagan endalausa af mannfalli í Írak heldur áfram. Í dag féllu fjórtán manns, þar af faðir og sonur hans, í skotbardaga norður af borginni Bakúba. Fimm konur og ungabarn eru sögð hafa særst í átökunum.

Tilnefningar til Íslensku leiklistarverðlaunanna kynnt

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og verndari Íslensku leiklistarverðlaunanna kynnti þá sem tilnefndir eru til Grímunnar árið 2006 í Borgarleikhúsinu í dag og var leikkonan Björk Jakobsdóttir honum til halds og trausts. Þetta er í fjórða sinn sem tilnefningar til verðlaunanna fara fram en þau voru fyrst veitt sumarið 2003.

Neitar ásökunum um aðild að fangaflutningum

Forsætisráðherra Póllands neitaði í dag staðfastlega þeim ásökunum að pólsk stjórnvöld hafi komið að leynilegum fangaflutningum bandarísku leyniþjónustunnar, CIA. Í nýrri skýrslu Evrópuráðsins eru fjórtán Evrópulönd, en Ísland er ekki þar á meðal, sögð tengjast flutningum á grunuðum hryðjuverkamönnum til landa þar sem pyntingar eru ekki ólöglegar.

Engin sérstök rök fyrir því að einkaaðilar leggi Sundabraut

Engin sérstök rök mæla með því að einkaaðilar leggi og reki Sundabraut fremur en ríkið þar sem lítil óvissa er um verkið og kostnað við það. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um mat á kostum og göllum einkaframkvæmdar.

Vilja að Siv og Guðni víki

Öll Framsóknarfélög í kjördæmi Halldórs Ásgrímssonar, Reykjavík norður, vilja að Guðni Ágústsson og Siv Friðleifsdóttir víki líka úr forystusveit flokksins til þess að binda enda á áralanga togstreitu í flokknum.

Aðalmeðferð í meiðyrðamáli vegna Skerjafjarðarskýrslu

Aðalmeðferð var í morgun í meiðyrðamáli Friðriks Þór Guðmundssonar á hendur Sigurði Líndal lagaprófessor vegna ummæla Sigurðar í tenglsum við rannsókn flugslyssins í Skerjafirði. Sigurður Líndal var formaður nefndar sem rannsakaði rannsóknina á flugslysinu og fleiri skýrslur því tengdu og skilaði skýrslu um málið.

Indverski herinn skýtur meinta skæruliða

Indverski herinn skaut í gær átta menn til bana sem heryfirvöld segja hafa verið íslamska hryðjuverkamenn sem hafi laumast yfir landamærin til hins umdeilda Kasmírhéraðs.

Sjúklingum mismunað eftir sjúkdómum og efnum

Formaður Læknafélags Íslands, Sigurbjörn Sveinsson, segir fólk sem þurfi að leita til hjartalækna ekki hafa sömu fjárhagslegu stöðu og aðra sem þurfi að leita sér lækninga. Það fyrirkomulag sem nú er í gildi mismuni fólki eftir sjúkdómi þeirra og efnum. Til útskýringar bendir Sigurbjörn á að erfitt geti reynst öldruðum og efnalitlu fólki að leggja út fyrir þeim rannsóknum sem það þarf að ganga í gegnum. Sigurbjörn bendir einnig á að þó sjúklingar geti fengið endurgreiðslu frá Tryggingastofnun eftir að hafa fengið greiðsluheimild frá heimilislækni geti falist í því mikil fyrirhöfn fyrir aldraða eða sjúka einstaklinga. Stjórn Læknafélags Íslands fer fram á það við stjórnvöld að hyggist þau koma á tvöföldu heilbrigðiskerfi, þá verði þær fyrirætlanir gerðar opinberar og ræddar undanbragðalaust með þátttöku þjóðarinnar. Stjórn Læknafélags Íslands lýsti í ályktun sem gerð var í gær yfir áhyggjum sínum yfir að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skuli ekki geta boðið landsmönnum þjónustu samningsbundinna hjartalækna. Ástæður þeirra stöðu sem hjartalæknar og sjúklingar þeirra eru nú komir í segir Sigurbjörn þá að hjartalæknar vildu ekki starfa lengur undir þeim samningum sem þeim voru gerðir. Ekki hafi verið ágreiningur um taxta heldur afsláttarákvæði sem fól í sér að læknum voru ætluð ákveðið mörg verk á ári og ef þeir fóru fram úr þeim fjölda áttu þeir að gefa ríkinu afslátt af verulegum hluta af andvirði verka þeirra. Litlar sem engar viðræður hafi verið til að rétta hlut þeirra.

Þurfa að endurskoða frístundabyggð við Úlfljótsvatn

Orkuveita Reykjavíkur og fasteignafélagið Klasi þurfa að endurskoða hugmyndir sínar um frístundabyggð við Úlfljótsvatn vegna óskar borgarstjórnar Reykjavíkur þar um. Endurskoðunin hefst þó væntanlega ekki fyrr en ný stjórn Orkuveitunnar hefur verið kosin.

Olíufélagið hækkar bensínverð

Olíufélagið, sem rekur meðal annars ESSO-stöðvarnar, hefur hækkað verð á öllu eldsneyti. Bensín hækkar um tvær og hálfa krónu á lítrann og verður algengasta verð á bensíni tæpar 127 krónur eftir hækkunina. Skýringin er hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu og veik staða krónunnar gagnvart Bandaríkjadal.

Von á svari á tilboði Samtaka avinnulífsins um launahækkanir

Alþýðusamband Íslands mun að öllum líkindum svara tilboði Samtaka atvinnulífsins um taxta- og launahækkanir í kringum helgina. Tilboðið miðar að því að koma í veg fyrir uppsögn kjarasamninga um næstu áramót, en miðað við verðbólguhorfur í landinu eru forsendur kjarasamninga að óbreyttu brostnar. Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, segir aðildarfélög sambandsins enn að skoða hugmyndir Samtaka atvinnulífsins en svör ættu að liggja fyrir í kringum helgina.

CIA hylmdi yfir með stríðsglæpamanninum Eichmann

Hulunni var í gær lyft af skjölum bandarísku leyniþjónustunnar frá því á árunum eftir stríð. Þar kemur meðal annars fram að CIA, hylmdi á sjötta áratugnum yfir með Adolf Eichmann, einum helsta skipuleggjanda helfararinnar, af ótta við að hann upplýsti um óþægilegar staðreyndir um háttsetta menn.

Íslensku menntaverðlaunin afhent

Íslensku menntaverðlaunin verða veitt annað sinni í kvöld. Athöfnin fer fram í Hjallaskóla og er það Ólafur Ragnar Grímsson sem afhendir verðlaunahöfum þau.

Íþróttasamband Fatlaðra styrkt til næstu Ólympíuleika

Íþróttasamband Fatlaðra og Visa Ísland hafa framlengt samstarfssamningi sínum til þriggja ára. Styrkurinn er ætlaður til undirbúning og þátttöku á Ólympíumóti fatlaðra sem fram fer í Peking 2008. Í fréttatilkynningu segir að árangur fatlaðra íþróttamanna að undanförnu árum hafi vakið verðskuldaða athygli og hafi íslenskt íþróttafólk staðið sig afar vel á Ólympíumótum sem og öðrum mótum. Árangurinn sé afrakstur markvissrar vinnu en Íþróttasambands Fatlaðra kappkosti að undirbúa keppendur sína sem best undir þau verkefni sem framundan séu hverju sinni. .Ljóst sé að á næstu Óllympíuleikum muni nýtt afreksfólk halda hróðri landsins og því sé nauðsyn á markvissum undirbúningi. Styrkveiting til Íþróttasambands Fatlaðra, fellur að mati Visa Íslands því vel að stefnu fyrirtækisins varðandi stuðning við framúrskarandi afreksfólk hvort heldur úr röðum fatlaðra eða ófatlaðra en fatlaðir íslenskir afreksmenn hafa um langt árabil verið á meðal þeirra bestu í heiminum.

Orri verður framkvæmdastjóri Frumherja

Orri Hlöðversson, fráfarandi bæjarstjóri í Hveragerði, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Frumherja í Reykjavík frá og með 1. ágúst. Á fréttavefnum suðurland.is kemur fram að Orra hafi verið boðin staða bæjarstjóra í mörgum nýmynduðum meirihlutum á landinu, meðal annars Árborg, Mosfellsbæ og Fjarðarbyggð.

Stórtónleikar í München vegna HM

Fótboltamenn og áhugamenn fengu fullt fangið af tónlist á upphitunartónleikum fyrir HM sem haldnir voru í München í gær. Placido Domingo söng fyrir gestina og hafði heilar þrjár hljómsveitir sér til halds og trausts.

Ólína formaður Vestfjarðaakademíunnar

Ólína Þorvarðardóttir, fráfarandi skólameistari Menntaskólans á Ísafirði, var kjörin formaður Vestfjarðaakademíunnar á fyrsta aðalfundi félagsins fyrir helgi. Þetta kemur fram á fréttavef Bæjarins besta í dag.

Rusl eykst um 78 kíló á ári með tilkomu fríblaða

Rusl á dönskum heimilum mun aukast um 78 kíló á ári með tilkomu tveggja fríblaða í landinu. Þetta kemur fram í Jótlandspóstinum. Þar er fjallað um boðaða útgáfu 365 Medier á fríblaði og sams konar blað í útgáfu JP og Politiken.

Ölvaður í hraðakstri í Ártúnsbrekkunni

Lögreglan í Reykjavík stöðvaði í nótt ökumann sem mælst hafði á yfir hundrað og tuttugu kílómetra hraða í Ártúnsbrekku, þar sem hámarkshraði er áttatíu. Kom þá í ljós að hann var talsvert ölvaður og var því bundinn endir á ferðarlag hans.

Sögð hafa greitt fyrir fangaflutningum

Nokkur Evrópulönd eru sökuð um að hafa aðstoðað við leynilega fangaflutninga bandarísku leyniþjónustunnar CIA í nýrri skýrslu Evrópuráðsins. Fangaflutningarnir komust í hámæli á síðasta ári þegar greint var frá því að CIA hefði flogið með grunaða hryðjuverkamenn til landa þar sem pyntingar væru leyfilegar.

Frjáls markaður að bregðast á sviði lyfjainnflutnings

Halda má því fram með fullum rétti að frjáls markaður sé að bregðast landsmönnum á sviði lyfjainnflutnings, ef innflutningur á ódýrum samheitalyfjum verður ekki stór aukinn, segir Sigurður Guðmundsson landlæknir í grein í Morgunblaðinu í morgun.

Bændur ruddust inn í brasilíska þingið

Hundruð brasilískra bænda sem ekki hafa landnæði réðust inn í brasilíska þingið í gær til að krefjast úrbóta í landbúnaðarkerfinu. Tuttugu slösuðust í klukkutíma langri baráttu bændanna við lögreglu og öryggisverði en bændurnir köstuðu steinum og öðru lauslegu og börðu mann og annan með prikum.

Féll af vélhjóli og slasaðist á Reykjavíkurvegi

Ökumaður mótorhjóls slasaðist þegar hann féll af hjólinu á Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði í gærkvöldi og veltist eftir götunni en hjólið hafnaði mannlaust framan á bíl sem kom úr gagnstæðri átt.

Líkur á harðri lendingu vaxandi að mati Danske Bank

Danske Bank telur að líkur á harðri lendingu í íslensku efnahagslífi fari vaxandi og telur að mat Standard og Poors frá í fyrradag um horfur á versnandi lánshæfismati sé slæmt fyrir íslenskt efnahagslíf.

Viðskiptahalli aldrei meiri á fyrsta ársfjórðungi

Viðskiptahalli Íslands gagnvart útlöndum hefur aldrei verið meiri en á fyrsta fjórðungi þessa árs. Bæði viðskiptahalli og vöruskiptajöfnuður eru tvöfalt meiri en á sama tíma í fyrra. Viðskiptahalli við útlönd nam rúmum 66 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi en stóð 32 komma 6 milljörðum á sama tíma í fyrra.

Banaslys á Elliðavatnsvegi í gærkvöld

Maður á þrítugsaldri beið bana þegar bíll hans fór út af Elliðavatnsvegi við gatnamótin að Kaldárselsvegi og valt, á tólfta tímanum í gærkvöldi. Annar maður á svipuðum aldri, sem var farþegi í bílnum, slasaðist og var fluttur á slysadeild Landspítalans en mun ekki vera í lífshættu.

Ítalskir hermenn ekki kallaðir fyrr heim

Ítalir munu ekki kalla herlið sitt fyrr heim frá Írak en áður var áætlað. Romano Prodi, sem tók við forsætisráðherraembættinu á Ítalíu í síðasta mánuði, tilkynnti þetta á ítalska þinginu í dag.

Vilja forystursveit sem stillir til friðar innan Framsóknar

Stjórn Kjördæmissambands framsóknamanna í Reykjavíkurkjördæmi norður, stjórn Framsóknarfélags Reykjavíkurkjördæmis norður og stjórn félags ungra framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi norður, harma þá ákvörðun Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra að hverfa brátt af vettvangi stjórnmálanna eftir áratuga farsælt starf.

Orri ráðinn framkvæmdastjóri Frumherja

Orri Hlöðversson, fráfarandi bæjarstjóri í Hveragerði, hefur verið ráðinn framkvæmdarstjóri Frumherja í Reykjavík frá og með 1. ágúst. Á fréttavefnum suðurland punktur is kemur fram að Orra hafi verið boðin staða bæjarstjóri í mörgum nýmynduðum meirihlutum á landinu meðal annars Árborg, Mosfellsbæ og Fjarðarbyggð.

Dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisafbrot

Tvítugur karlmaður var í dag dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa þvingað stúlku til að hafa við sig munnmök og að hafa reynt að þröngva henni til samræðis.

Leiðtogar Eystrasaltsráðsins funda á Íslandi

Leiðtogar ellefu ríkja Eystrasaltsráðsins auk Evrópusambandsins funda í Reykjavík á fimmtudag. Með því lýkur formennsku Íslands í ráðinu, sem það hefur gegnt síðan í júlí á síðasta ári. Það verður eitt af síðustu embættisverkum Halldórs Ásgrímssonar, að funda með forsætisráðherrum Rússlands og Póllands í tengslum við fundinn.

Krefjast ekki afsagnar Jónasar

Jónas Garðarsson var í dag dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi. Tveir létust þegar bátur hans steytti á Skarfaskeri á Viðeyjarsundi í september.

Grunuð um skipulagningu hryðjuverka í Kanada

Sautján manns voru handteknir í Ontario-héraði í Kanada um helgina vegna gruns um aðild þeirra að skipulagningu á hryðjuverkum í landinu. Tólf hinna handteknu komu fyrir dómara í dag í borginni Brampton, vestur af Toronto, þar sem ákærurnar gegn þeim voru kunngjörðar.

Sjá næstu 50 fréttir