Al­freð í úr­slita­leikinn eftir sigur á Degi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason fagnar einu marka sinna manna í undanúrslitaleiknum í dag.
Alfreð Gíslason fagnar einu marka sinna manna í undanúrslitaleiknum í dag. Getty/Sina Schuldt

Þjóðverjar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik en gerðu svo nánast út um leikinn þegar liðið náði sjö marka forskoti eftir frábæran kafla í upphafi seinni hálfleiks þar sem Króatar skoruðu ekki í átta mínútur.

Það mátti sjá mikil þreytumerki á króatíska landsliðinu í seinni hálfleik en baráttan var til fyrirmyndar og leikmenn náðu að knýja fram smá spennu á lokamínútunum.

Lukas Zerbe var markahæstur hjá Þjóðverjum með sex mörk en Johannes Golla, Lukas Mertens, Juri Knorr, Renars Uscins og Justus Fischer skoruðu allir fjögur mörk. Tin Lucin skoraði sex mörk fyrir Króata en þeir Ivan Martinovic og Luka Klarica voru með fimm mörk.

Króatar voru vissulega með frumkvæðið í upphafi leiks og voru síðast yfir í stöðunni 13-12. Þá komu þrjú þýsk mörk í röð og Þjóðverjar voru síðan 17-15 yfir í hálfleik.

Króatar skoruðu fyrsta mark seinni hálfleiksins og minnkuðu muninn í eitt mark, 17-16, en þá komu fimm þýsk mörk í röð og Króatarnir skoruðu ekki mark í átta mínútur. Króatíska liðið komst lítið áleiðis í sókninni því auk þess sem Andreas Wolff var að verja vel í markinu þá tók þýska vörnin líka mörg skot frá Króötunum.

Eftir þennan kafla varð þetta allt mjög erfitt fyrir lærisveina Dags sem voru bara orkulitlir og þreytulegir í þessum seinni hálfleik. Þeir gáfust þó ekki upp og komu muninum aftur niður í fjögur mörk eftir gott leikhlé frá Degi.

Munurinn var síðan orðinn aðeins þrjú mörk þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir og Króatar fengu tækifæri til að minnka þetta í tvö mörk og setja alvöru pressu á þýska liðið. Það tókst ekki fyrr en rúmri mínútu fyrir leikslok en það var bara of seint. Alfreð tók leikhlé og Þjóðverjar sigldu þýsku skútinni í undanúrslitin.

Alfreð er þar með að fara með þýska landsliðið í annað sinn í úrslitaleik á stórmóti en liðið tapaði í úrslitaleiknum á síðustu Ólympíuleikunum. Þetta er fyrsti úrslitaleikur Þjóðverja á EM síðan að liðið varð Evrópumeistari undir stjórn Dags.

Degi Sigurðssyni, þjálfara Króatíu, tókst aftur á móti ekki að fara með liðið sitt í úrslitaleikinn á öðru stórmótinu í röð en liðið fékk silfurverðlaun á heimsmeistaramótinu í fyrra.

Þjóðverjar mæta annaðhvort Íslandi eða Danmörku í úrslitaleiknum á sunnudaginn en Dagur og Króatar spila um bronsið fyrr um daginn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira