Viðskipti innlent

Aukning loðnukvótans hittir á svelta markaði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Gunnþór Ingvason er forstjóri Síldarvinnslunnar og formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Gunnþór Ingvason er forstjóri Síldarvinnslunnar og formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Anton Brink

Eftir tvö vonbrigðaár í loðnunni bárust loks gleðitíðindi í dag þegar Hafrannsóknastofnun lagði til fimmföldun loðnukvótans. Það þýðir að loðnuvertíðin næstu tvo mánuði gæti skilað þjóðarbúinu 35 til 40 milljarða króna útflutningstekjum, að mati forstjóra Síldarvinnslunnar.

Í fréttum Sýnar mátti sjá myndir frá Norðfirði sem er eina höfnin sem fengið hefur loðnu á þessari vertíð. Í morgun kom Barði NK með tæp 900 tonn til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Þegar skipið hélt út á miðin á mánudag var íslenski kvótinn 31 þúsund tonn en fer núna yfir 150 þúsund tonn.

„Þetta eru náttúrulega gleðitíðindi að við séum að fá fimmföldun á okkar kvóta. Þannig að þetta er ánægjulegt,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar og formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Loðnuskipið Beitir NK siglir inn Norðfjörð.Björn Steinbekk

„Við erum að sjá það fram á að geta framleitt núna inn á okkar verðmætustu markaði, inn á Asíumarkað og Austur-Evrópu, og svo loðnuhrogn. Við höfum ekki verið að sinna þessum mörkuðum að neinu viti síðustu árin vegna loðnuskorts. Þannig að það er gríðarlega mikilvægt að ná að viðhalda þessum mörkuðum og fá þetta inn núna.“

-Þýðir þetta að verðin eru góð?

„Já, ég held við séum að fara í tóma markaði. Já, ég held ég sjái bara gott útlit.“

Loðnu pakkað til heilfrystingar hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum.Egill Aðalsteinsson

Miðað við fyrri kvóta hafði Gunnþór áætlað að útflutningsverðmætið gæti orðið allt að tíu milljarðar króna. En hvað segir hann núna?

„Ég myndi skjóta svona á 35 til 40 milljarða króna vertíð. Og það munar um minna,“ svarar Gunnþór.

Hann telur þó að útgerðir loðnuskipa muni bíða átekta þar til hrognafylling loðnunnar verður meiri.

„Og þetta fari í okkar verðmætustu flokka. Það er alveg ljóst að þessi kvóti er ekki það mikill að það er ekki svigrúm til þess að vera að veiða loðnu með beinum hætti í fiskimjöl og lýsi. Þannig að menn munu bíða eftir hrognafyllingu og manneldismörkuðunum.“

Frá loðnuveiðum undan Dyrhólaey. Búast má við að loðnan verði komin á þessar slóðir upp úr miðjum febrúarBjörn Steinbekk.

Sem gæti gerst eftir tvær vikur eða svo. Þá ætti loðnan að vera farin að ganga meðfram suðurströndinni.

-Hvað þýðir þetta fyrir stemninguna í loðnubyggðum landsins?

„Ég held að þetta sé náttúrulega gríðarleg lyftistöng. Það eru auðvitað hundruð manna sem fá vinnu þennan einn og hálfan mánuð sem þetta mun taka okkur að koma þessu í verðmæti. Og það eru margir sem fá sneið af kökunni,“ svarar forstjóri Síldarvinnslunar á Norðfirði.

En er hugsanlegt að loðnukvótinn gæti orðið enn meiri? Þeim möguleika er velt upp hér í frétt Sýnar:


Tengdar fréttir

Norðfirðingar gleðjast að sjá loðnuna birtast

Gleði ríkti á Norðfirði í dag þegar fyrstu loðnunni á þessari vertíð var landað hjá Síldarvinnslunni. Loðnunni er lýst sem stórri og fallegri og fer hún öll í heilfrystingu til manneldis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×