Sviss - Ís­land 38-38 | Strákarnir okkar stálu stigi eftir slakan leik

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Strákarnir okkar eru ekki lengur með örlögin í eigin höndum.
Strákarnir okkar eru ekki lengur með örlögin í eigin höndum. vísir vilhelm

Ísland gerði 38-38 jafntefli við Sviss í þriðja leik milliriðilsins á EM í handbolta. Strákarnir okkar spiluðu slakan varnarleik, tókst samt að jafna leikinn undir lokin en náðu ekki að stela sigrinum í síðustu sókninni. Stigið gerir lítið fyrir liðið í baráttunni um undanúrslit og Ísland þarf að treysta á önnur úrslit. 

Ísland náði forystu eftir slaka byrjun

Íslenska vörnin var í miklum vandræðum í upphafi leiks og fékk á sig mörk úr fyrstu fimm sóknunum. Viktor Gísli kom vörninni til bjargar með tvöfaldri vörslu skömmu síðar og Ísland tók forystuna í fyrsta sinn, 8-7.

Ísland - Sviss milliriðill á EM karla í handbolta í Malmö Svíþjóð 2026vísir / vilhelm

Sviss svaraði vel

Þá skipti Sviss yfir í sjö sóknarmenn gegn sex varnarmönnum, sem Íslandi gekk illa að leysa úr. Strákarnir okkar reyndu að keyra upp hraðann til að svara Svisslendingum og fá auðveld mörk á hinum endanum en töpuðu boltanum tvisvar í röð.

Sviss komst aftur yfir og tók síðan þriggja marka forystu, 13-10, eftir nokkur klúðruð dauðafæri hjá íslenska línumönnunum, Arnari Frey Arnarsyni og Elliða Snæ Viðarssyni.

Arnar Freyr klúðraði þremur dauðafærum í fyrri hálfleik. vísir / vilhelm

Ekki hjálpaði til þegar Ísland hætti að leita á línuna og sendi boltann út í horn, Óðinn Þór Ríkharðsson kom svífandi en klúðraði færinu.

Ísland - Sviss milliriðill á EM karla í handbolta í Malmö Svíþjóð 2026

Þá tók Haukur Þrastarson til sinna mála, skoraði gott mark og stal boltanum síðan til að leggja upp mark fyrir Einar Þorstein Ólafsson.

Einar Þorsteinn skoraði mikilvægt mark eftir stolinn bolta og stoðsendingu frá Hauki Þrastarsyni. vísir / vilhelm

Sviss bað þá um leikhlé og náði að taka þriggja marka forystu á ný, 16-13, enda var íslenska vörnin algjörlega úti að aka, en Viktor Gísli Hallgrímsson hélt þeim á lífi og þökk sé góðum sóknarleik hjá Viggó Kristjánssyni og góðum skotum frá Orra Frey Þorkelssyni tókst Íslandi að minnka muninn niður í eitt mark.

Viggó steig upp á mikilvægri stundu.

Ísland jafnaði fyrir hálfleik

Elliði Snær Viðarsson skoraði síðan mark í þann mund sem fyrri hálfleiknum lauk og staðan var jöfn í hálfleik, 19-19. Samtals 38 mörk skoruð í fyrri hálfleik, sem sýnir hversu slakur varnarleikurinn var.

Elliði Snær skoraði úr síðasta skoti fyrri hálfleiks. vísir / vilhelm

Sviss steig fram úr

Varnarleikur Íslands batnaði ekkert í upphafi seinni hálfleiks og Sviss virtist skora úr hverri sókn. Svisslendingar náðu síðan þriggja marka forystu á ný, 26-23, fljótlega eftir tveggja mínútna brottvísun Janusar Daða Smárasonar fyrir fáránlegt brot.

Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson stigu þá upp í sókninni, þegar liðið mest þurfti á lykilmönnunum að halda, en vörnin og markvarslan voru enn til vandræða.

Gísli Þorgeir ræðst til atlögu. vísir / vilhelm

Köstuðu frá sér tækifærum til að jafna

Sérstaklega sárt var svo að sjá Björgvin Pál Gústavsson loksins verja skot, en klikka úr skotinu yfir allan völlinn.

Svisslendingar skoruðu síðan áfram úr nánast hverri einustu sókn og héldu Íslandi frá sér, í tveggja til þriggja marka forystu.

Ísland fékk tækifæri til að minnka muninn í eitt mark, en þá klikkaði Björgvin Páll aftur á skoti yfir allan völlinn og Viggó Kristjánsson kastaði boltanum síðan frá sér í skyndisókn.

Einhvern veginn virtist ekkert ganga upp en landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson beið lengi með að taka fyrsta leikhléið í seinni hálfleik.

Seint leikhlé róaði leikmenn

Snorri bað loks um leikhlé á 53. mínútu, í stöðunni 35-33, og sagði sínum mönnum að slaka aðeins. Þeir væru að spila eins og þeir væru tuttugu mörkum undir, en voru í raun bara tveimur mörkum undir.

Óðinn Þór minnkaði muninn niður í eitt mark strax í næstu sókn og Viktor Gísli varði næsta skot Svisslendinga vel, en þeir náðu síðan frákastinu og fiskuðu víti og tveggja mínútna brottvísun á Janus Daða. Skelfileg sjón eftir góða vörslu Viktors og Sviss tók aftur tveggja marka forystu.

Síðustu mínútur leiksins voru spennuþrungnar, Ísland minnkaði muninn ítrekað niður í eitt mark, en alltaf stækkaði Sviss forystuna í næstu sókn.

Sviss kastaði forystunni frá sér

Með tveggja marka forystu gerðu Svisslendingar mikil mistök á lokamínútum leiksins. Lukas Laube lét reka sig út af, Lenny Rubin gerði slíkt hið sama í næstu vörn og tveimur mönnum fleiri náðu strákarnir okkar að jafna metin.

Elliði Snær Viðarsson átti skotið sem jafnaði leikinn, yfir allan völlinn og boltinn lak hægt í markið. Íslensk hjörtu hafa eflaust tekið auka slag á þeirri stundu en inn fór boltinn.

Sviss tók þá leikhlé en missti síðan boltann frá sér í næstu sókn, hægri hornamaðurinn Noam Leopold braut á Óðni Þór og ruðningur dæmdur.

Íslandi tókst ekki að vinna

Síðasta sókn Íslands var hins vegar illa spiluð og strákarnir okkar náðu ekki skoti á markið.

38-38 jafntefli varð því niðurstaðan, en verður seint kölluð sanngjörn og Ísland fær stig sem gerir lítið fyrir liðið í baráttunni um sæti í undanúrslitum.

Hvað gerist næst?

Nú er allt í hers höndum, en ekki Íslands. Strákarnir okkar þurfa að treysta á önnur úrslit, í það minnsta að Slóvenía vinni Króatíu á eftir. Svo er hægt að reikna framhaldið. Ljóst er allavega að ekkert minna en sigur dugir Íslandi gegn Slóveníu á morgun. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira