Viðskipti innlent

Ís­lands­banki og útgerðarfélög þegar greitt inn í Eyjagöng

Árni Sæberg skrifar
Eyjagöng vinna að því að undirbúa gerð jarðgangna til Vestmannaeyja.
Eyjagöng vinna að því að undirbúa gerð jarðgangna til Vestmannaeyja. Vísir/Vilhelm

Félagið Eyjagöng ehf., sem undirbýr gerð jarðganga á milli lands og Eyja, hefur tryggt sér stóran hluta af 200 milljóna króna fjármögnunarmarkmiði sínu. Meðal þeirra sem þegar hafa greitt fyrir hlutafé eru Íslandsbanki, Ísfélagið og Vinnslustöðin.

Í fréttatilkynningu frá Eyjagöngum segir að ólíkt mörgum öðrum þróunarverkefnum, sé ekki einungis um loforð að ræða, af því að lykilfjárfestar hafi þegar gengið frá greiðslu á hlutafé sínu. Félagið hafi verið stofnað fyrir tveimur mánuðum og muni hefja framkvæmdir í mars.

Í hópi þeirra sem þegar hafi gerst hluthafar sé Íslandsbanki, en aðkoma bankans sé talin mikilvægur gæðastimpill á verkefnið. Þá hafi burðarásar í atvinnulífi Vestmannaeyja, Ísfélagið og Vinnslustöðin, þegar greitt fyrir sína hlutdeild, ásamt Vestmannaeyjabæ og Rangárþingi eystra. Aðaleigendur og stofnendur Laxeyjar í gegnum Sion ehf. og DVG Fasteignafélag séu einnig komnir í hluthafahópinn.

„Það sendir sterkt merki inn í viðskiptalífið að þessir öflugu aðilar séu ekki bara að styðja okkur í orði, heldur séu þeir þegar búnir að leggja fram fjármagnið. Með Íslandsbanka og helstu atvinnufyrirtæki svæðisins í hluthafahópnum er ljóst að trúin á verkefnið er mikil. Við erum nú að klára viðræður við væntanlega fjárfesta í þessari lotu,“ er haft eftir Árna Sigfússyni, formanni Eyjaganga ehf.

Loks segir að stefnt sé að því að ljúka hlutafjáraukningunni á næstu vikum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×